Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 13:47:26 (4250)

1998-03-03 13:47:26# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[13:47]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Enn einu sinni eru umræður á Alþingi um niðurstöður alþjóðlegra rannsókna á skólastarfi. Nú bregður svo við að þær niðurstöður eru jákvæðari en áður hefur verið. Þá rjúka menn upp til handa og fóta og draga úr því að íslenska skólakerfið hafi komið þokkalega út og segja: Nemendahópurinn var ekki sambærilegur við það sem annars staðar gerðist, mikið brottfall úr íslenskum framhaldsskólum skekkir myndina, þátttaka nemenda var frjáls og áfram mætti telja. Auðvitað þurfum við að átta okkur á kostum og göllum slíkra rannsókna og einnig aðferðafræði og framkvæmd en við verðum líka að kunna að gleðjast yfir því þegar vel gengur án þess að ofmetnast. Þessi rannsókn staðfesti eingöngu það sem við vissum fyrir. Skólakerfið er miklu flóknara fyrirbæri en svo að hrapað verði að einföldum ályktunum og lausnum vegna niðurstaðna TIMSS-rannsóknanna. Þær hafa vissulega og sem betur fer, hreyft við þjóðinni og vakið hana enn betur til vitundar um mikilvægi þess að við stöndum okkur í menntamálum og getum státað af því besta sem þekkist í þeim efnum. Við eigum að vinna frekar úr niðurstöðunum og nýta þær til að herða enn á okkur um að gera betur.

Herra forseti. Skólamálaumræðan hér á landi hefur gjörbreyst á síðustu árum í kjölfar nýrrar menntastefnu. Það hefur verið tekið á málunum af mikilli festu. Ný lagasetning um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla á eftir að skila okkur betra og árangursríkara skólastarfi í framtíðinni. Skólastarfi þar sem áhersla er lögð á umbætur, skýr námsmarkmið, betri námsgögn, auknar skólarannsóknir, betri kennaramenntun, samstarf foreldra og skóla og opna upplýsta umræðu í þjóðfélaginu um menntamál. Slík umræða sem byggist á því að almenningur fái allar tiltækar upplýsingar um skólastarf og árangur þess er hvort tveggja í senn, aðhald og hvatning til að sætta sig aðeins við það besta á þessu sviði sem, þegar öllu er á botninn hvolft, skiptir sköpum um velferð þjóðarinnar í framtíðinni. Að því er unnið.