Umfjöllun um skólastarf

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 13:45:33 (4313)

1998-03-04 13:45:33# 122. lþ. 78.1 fundur 455. mál: #A umfjöllun um skólastarf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[13:45]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég get vel tekið undir með hv. þm. þegar hún vísar til umræðna í Bretlandi um skólamál og ber þær saman við það sem hér gerist. Það er alveg ljóst að miklu meiri hefð er fyrir því í breskum fjölmiðlum að fjalla um skólamál á faglegum forsendum, eða hvaða forsendum sem við gefum okkur, og miklu meiri umræða er um skólamál þar en í fjölmiðlum hér á landi. Hér er það frekar þannig að menn taka einstök mál fyrir, eins og t.d. TIMSS-skýrsluna, og fjalla um þau en síðan dettur sú umfjöllun upp fyrir. Skólamál eru náttúrlega þannig mál að þau þarfnast sífelldrar umræðu og umfjöllunar og sjálfur hef ég fylgst með slíkum umræðum í Bretlandi.

En við höfum hins vegar ekki tekið það sama upp hér og menn hafa gert í Bretlandi, að þeir hafa það innbyggt í sitt kerfi þegar upplýsingar eru birtar um stöðu skóla að ef skólarnir standa sig ekki mjög vel, þá er þeim beinlínis lokað. Það er miklu meira í húfi fyrir skólana þar og fyrir einstök byggðarlög og borgir að sjá til þess að skólarnir standi sig vel því að ef þeir standa sig illa er þeim lokað, eins og við vitum. Síðan hafa Bretar tekið það upp, að því er virðist, að skilgreina afburðakennara og ætla að launa þá sérstaklega. Hvernig sá árangur er metinn og hvernig menn móta hugtakið afburðakennari er mér ekki alveg ljóst, en þeir eru kannski þannig skrefi á undan okkur að ýmsu leyti í þessu máli ef við lítum á þennan þátt málsins.

Ég vil hins vegar taka undir þá von hv. þm. að þær umræður sem menntmrn. er að hefja núna verði málefnalegar. Ég get fullvissað hv. þm. um að allir geta komið að þessum umræðum. Þetta eru ekki lokaðar umræður. Við munum senda bækling um enn betri skóla inn á hvert einasta heimili í landinu. Við munum birta auglýsingar í sjónvarpi og hvetja fólk til að kynna sér efni bæklingsins og ég mun efna til funda víðs vegar um landið til að ræða málið. Ég hef haft fundi með forustumönnum í kennarasamtökunum, hjá skólameisturum og Heimili og skóla og fleiri aðilum til að undirbúa jarðveginn og ég vona að umræðurnar verði málefnalegar og góðar. Málið hefur einnig verið kynnt fjölmiðlum sérstaklega.