Aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 13:49:01 (4314)

1998-03-04 13:49:01# 122. lþ. 78.2 fundur 468. mál: #A aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 801 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um mismunandi aðstöðu landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvað veldur hárri gjaldskrá Landssímans hf. fyrir afnot af ljósleiðaranum?

2. Hví er landsmönnum mismunað eftir búsetu að því er varðar gjaldtöku fyrir aðgang að ljósleiðaranum?

Tilefni fyrirspurnarinnar eru umkvartanir sem komið hafa m.a. frá mínu kjördæmi að hindranir séu í vegi fyrir eðlilegri dreifingu á vegum ljósvakamiðla, t.d. Íslenska útvarpsfélagsins, til einstakra staða á landsbyggðinni. Ástæðan sem borin er við er mismunandi gjaldtaka, byggð á kílómetragjaldi í gjaldskrá Landssímans hf. og valdi það því að dreifingaraðilar hiki við að koma sínum sendingum til notenda þar eð þeir hafa ekki lagt í það að mismuna eftir mismunandi gjaldskrá sem þarna hefur legið til grundvallar.

Íslenska útvarpsfélagið skiptir við Landssímann fyrir um 130 millj. kr. á ári og greiðslur vegna dreifingar á sjónvarps- og útvarpsmerkjum hafa verið 60 millj. á ári hverju. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenska útvarpsfélaginu hefur það greitt kílómetragjald fyrir afnot af ljósleiðaranum. Af þessu leiðir að því lengra sem merkið þarf að fara því hærri verður dreifingarkostnaðurinn á hvern íbúa eða áskrifanda. Í hringtengingunni mundi þetta gjald hafa verið hið sama en fyrir leggi út úr hringnum, eins og innan Austfjarða og á Vestfjörðum, hefur verið tekið 20% álag. Þetta er tilefni þessarar fyrirspurnar og almennt um leið hvort ekki sé eðlilegt að reynt verði að tryggja bæði sem mest not af þeirri miklu fjárfestingu sem er ljósleiðarinn og að tryggja jafnræði landsmanna og þeirra fyrirtækja sem skipta við hann í sambandi við nýtinguna. Hér er stórt mál á ferðinni, jafnræðismál og jafnframt menningarmál.