Útboð á hafrannsóknaskipi

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 13:44:08 (4560)

1998-03-11 13:44:08# 122. lþ. 84.3 fundur 486. mál: #A útboð á hafrannsóknaskipi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Þjóðin fagnar þeirri ákvörðun að byggt skuli nýtt skip til að sinna hafrannsóknum. Var það vissulega löngu tímabær ákvörðun og á örugglega eftir að skila auknum verðmætum til þjóðarinnar í framtíðinni. Segja má þó að skuggi hafi fallið á gleðina yfir smíðinni vegna harðrar gagnrýni á meðferð tilboða í smíði skipsins. Vissulega vildu flestir landsmenn að skip af þessum toga yrði smíðað að öllu leyti hér innan lands en samkvæmt upplýsingum mínum mun það ekki vera hægt að öllu leyti af tæknilegum ástæðum. Næstbesti kosturinn hlýtur því að vera sá að skoða hvort einhver hluti smíðinnar geti farið fram hér heima enda mikilvægt að efla íslenskan skipaiðnað.

[13:45]

Markmið útboða hlýtur alltaf að vera það að leita ódýrustu lausnar, þ.e. að fá sem mest gæði fyrir sem minnstan pening. Hér er um að ræða skip í eigu hins opinbera, þó sjávarútvegurinn greiði að vísu kostnaðinn með nokkurs konar auðlindagjaldi. Stjórnvöld hljóta að láta markmið útboða gilda en jafnframt að líta til þjóðarhagsmuna. Á ég þar ekki síst við tengslin við íslenskan skipaiðnað.

Nú þegar mun hafa verið gengið frá samningum. Samkvæmt fréttum og opinberum upplýsingum mun ekki aðeins lægsta tilboði hafa verið hafnað heldur og fimm lægstu tilboðum og gengið til samninga við þá aðila er áttu sjötta lægsta tilboðið. Munur á því og hinu lægsta nemur allt að 500 millj. kr. Fyrir því kunna vitanlega að vera eðlilegar ástæður og skýringar eðlilegar. Ætla má að gæði hinna tilboðanna hafi verið lakari hvað varðar vinnu, efni, vinnutíma o.s.frv. Nú er mér hins vegar tjáð að þeir er áttu lægsta tilboð hafi varla verið virtir viðlits og naumast gengið eða leitað eftir frekari viðræðum við þá. Kínverska skipasmíðastöðin mun vera ein sú stærsta í veröldinni og búa að langri reynslu af smíði skipa, m.a. með svonefndum vestrænum tæknibúnaði. Þá er mér tjáð að tilboðsgjafar hafi verið búnir að ná samkomulagi við Slippstöðina á Akureyri um að hún annaðist eftirlit með verkinu og smíðaði hluta þess.

Sé það rétt hlýtur það að teljast gagnrýnivert. Mér er jafnframt tjáð að fulltrúar smíðanefndar hafi lagt land undir fót og heimsótt tilboðsgjafa bæði í Tævan og Chile til að kanna tilboð þeirra aðila nánar en látið hjá líða að koma við í Kína, þó skammt sé til Kína frá Tævan eins og kunnugt er. Miðað við þessar forsendur virðist málið allt hið furðulegasta, a.m.k. séu höfð að leiðarljósi eðlileg markmið með útboðum. Því spyr ég hæstv. sjútvrh. hvort áhersla hafi verið lögð á að smíða skipið að öllu leyti eða hluta til innan lands, og í öðru lagi hvort leitað hafi verið upplýsinga um möguleika lægstbjóðanda á að smíða skipið.