Tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 14:02:33 (4567)

1998-03-11 14:02:33# 122. lþ. 84.4 fundur 493. mál: #A tilboð í smíði rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu fyrir hæstv. sjútvrh. þá verður að segja eins og er að hér er ekki um fullnægjandi skýringar að ræða. Það er ekki mjög trúverðugt að reyna að halda því fram að það kínverska risaríkisfyrirtæki sem hér um ræðir, eitt fyrirtækja í stórri keðju, hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa við tilboð sitt. Það er heldur ekki trúverðugt að reyna að halda því fram að þetta risafyrirtæki, ríkisfyrirtæki í Kína, hafi ekki tæknilega getu til að standast þær kröfur sem verkkaupi gerir.

Þeim atriðum sem hæstv. ráðherra nefndi og rakti hefur öllum verið svarað. Því hefur verið svarað af hálfu tilboðsgjafa að unnt væri að koma til móts við öll þessi atriði, unnt hefði verið að reiða fram ISO vottorð og unnt hefði verið með sérstökum tiltækum aðgerðum að koma til móts við kröfur um hljóð. Auðvitað hefði þetta kínverska ríkisfyrirtæki með alla hina kínversku tækniþekkingu að baki hjá fjölmennustu þjóð heims, getað staðið undir þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem það legði á sig með þessu tilboði sínu.

Hér er því miður, virðulegi forseti, ekki um haldbærar skýringar að ræða og það verður að lýsa yfir vonbrigðum með það að þessar ákvarðanir skulu hafa verið teknar og auðvitað er umhugsunarefni hvort hið háa Alþingi þurfi ekki með einhverju móti að fylgja þessu máli eftir. 500 millj. kr. eru ekki litlir fjármunir. Við höfum rifist um minni peninga í þessum sal og haft hátt.