Listaverkakaup Listasafns Íslands

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:27:59 (4607)

1998-03-11 15:27:59# 122. lþ. 84.9 fundur 502. mál: #A listaverkakaup Listasafns Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: Hversu miklu fjármagni hefur Listasafn Íslands varið árlega til listaverkakaupa síðastliðin fimm ár?

Svarið er að fjárveiting til listaverkakaupa hefur sl. fimm ár verið árlega 12 millj. kr.

Þá er spurt eftir hvaða reglum er farið við val á þeim listaverkum sem keypt eru. Og svarið er: Í 2. gr. laga um Listasafn Íslands, undir a-lið, segir: ,,Leitast skal við að afla verka sem endurspegla sem best nýja strauma og stefnur í íslenskri myndlist á hverjum tíma.`` Í 9. gr. laga um Listasafn Íslands segir: ,,Við val listaverka til safnsins ber að fara eftir listrænu gildi þeirra og hafa í huga hvað safnið á eftir sama höfund.`` Innkaupanefnd safnsins hefur þessi ákvæði að leiðarljósi við kaup listaverka til Listasafns Íslands.

Í þriðja lagi er spurt: Hvað ræður verðlagningu á þeim listaverkum sem keypt eru?

Um verðlagningu listaverka sem safnið kaupir má segja eftirfarandi. Safnið kaupir listaverk, m.a. á sýningum, uppboðum eða af einstaklingum. Á sýningum er fast verð sem listamaðurinn setur á verk sín. Sama gildir í raun um þau verk sem einstaklingar bjóða safninu til kaups, yfirleitt fylgir ákveðið verð slíkum tilboðum. Á uppboðum eru listaverk seld hæstbjóðanda sem kunnugt er. Varðandi fram sett, fast verð metur safnið það í hverju tilviki fyrir sig hvort gera skuli gagntilboð eða ekki.

Í fjórða lagi er spurt: Er talið að fölsuð verk hafi verið keypt til safnsins á síðustu fimm árum og ef svo er, hve mörg?

Teikning sem talin er eftir Jóhannes Kjarval og safnið keypti á uppboði 1994 er meðal þeirra verka sem kærð hafa verið af Ólafi Jónssyni forverði vegna gruns um fölsun. Rétt er að taka fram að listaverkaeign safnsins eru tæp átta þúsund verk.

Í fimmta lagi er spurt: Stendur til að breyta reglum um kaup á listaverkum og ef svo er, hvernig?

Safnið eða safnráð hafa engin áform um að gera tillögur um breytingar á reglum um innkaup safnsins.

[15:30]

Í sjötta lagi er spurt hvaða reglur gildi um lán á listaverkum til stofnana. Svarið er að þessar reglur byggja á 12. gr. laga nr. 58/1988, um Listasafn Íslands, og 10. gr. reglugerðar 231/1995 sem sett var á grundvelli þeirra laga. Þar sem ákvæði reglugerðarinnar eru ítarlegri skal efni þeirra rakið hér að nokkru, með leyfi hæstv. forseta. Í upphafi 10. gr. reglugerðarinnar segir:

,,Heimilt er að lána listaverk safnsins til tiltekinna opinberra stofnana enda sé meiri hluti safnráðs því samþykkur og eftirfarandi skilyrðum fullnægt:``

Síðan eru skilyrðin talin upp, en þau varða m.a. upphengingu verkanna og ábyrgð lántaka á meðferð þeirra. Þá er kveðið á um að verkum skuli skilað úr sendiráðum og ráðuneytum við sendiherra- og ráðherraskipti en að öðru leyti fari skipti á verkum fram á þriggja ára fresti. Þess skal getið að þessi ákvæði í reglugerð safnsins eru nú til endurskoðunar að frumkvæði menntmrn.