Lögreglulög

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:57:19 (4618)

1998-03-11 15:57:19# 122. lþ. 85.8 fundur 520. mál: #A lögreglulög# (eftirlit með meðferð áfengis) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögreglulögum.

Frv. þetta er samið í dómsmrn. í framhaldi af starfi nefndar sem skipuð var aðstoðarmönnum fjögurra ráðherra. Nefnd þessi vann að heildstæðri endurskoðun á reglum varðandi áfengi og tóbak hér á landi. Frv. er lagt fram samhliða frv. til áfengislaga.

Í frv. er gert ráð fyrir að við það hlutverk sem ríkislögreglustjóri hefur nú með höndum bætist starfræksla áfengiseftirlitsdeildar. Lagt er til að ríkislögreglustjóri hafi yfirumsjón með og annist skipulag áfengiseftirlits á landsvísu, gefi fyrirmæli til lögregluembætta og setji þeim starfsreglur á þessu sviði, auk þess að skipuleggja sérstök átaksverkefni í samræmi við einstök lögregluembætti og eftir atvikum skatta- og tollayfirvöld. Þá er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri muni halda heildarskrá yfir birgðageymslur, áfengisveitingahús og áfengisútstölustaði og heildarskrá yfir leyfishafa til innflutnings, framleiðslu, sölu og veitinga áfengis. Eðlilegt verður að teljast að ríkislögreglustjóri hafi yfirumsjón með þessu eftirliti en lögreglustjórar hver í sínu umdæmi fari með daglegt eftirlit. Þá er þetta í samræmi við það hlutverk sem ríkislögreglustjóra er ætlað í frv. til áfengislaga en þar er honum falið að veita leyfi til innflutnings, heildsölu og framleiðslu áfengis. Frv. þetta stuðlar að virkara og öflugra eftirliti með meðferð áfengis.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.