Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:23:18 (4640)

1998-03-12 12:23:18# 122. lþ. 86.8 fundur 353. mál: #A málefni aldraðra# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:23]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar athyglisvert mál um breyting á lögum um málefni aldraðra. Það er athyglivert að einn þingmaður stjórnarinnar er viðstaddur þessa umræðu og ég tel að það sé vel og vil nefna hann. Það er hv. þm. Pétur Blöndal. Ég fagna því að hann skuli vera við þessa umræðu. Umræðan er um málefni aldraðra og verið er að ræða um að hafa skuli samráð við heildarsamtök aldraðra og þeirra aðildarfélög um opinbera stefnumörkun og ákvarðanir er varða hag og kjör aldraðra. Þetta mál tel ég vera sjálfsagt og þótt ég sé ekki einn hv. flm. þá kem ég að málinu sem slíkur.

Ég tel að umræðan um og meðferð á málefnum aldraðra hafi verið á nokkuð annan veg en æskilegt er. Ég hygg að hugsun flestra sé á þann veg að aldraðir eigi skilið ævikvöld í góðu umhverfi þar sem þeir geti notið farsældar eftir að hafa skilað hlutverki til samfélagsins hver á sínu sviði og að fólk geti búið nokkurn veginn þar sem það óskar á ævikvöldinu. Réttindi til aðgengis að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi en því miður hefur orðið skerðing á þessum réttindum og jafnvel tel ég að þau réttindi hafi verið brotin. Þjónusta við aldraða hefur verið skorin niður. Fjölmargir aldraðir eru á biðlistum eftir aðgerðum. Skammsýn umræða um sparnað hefur verið í fyrsta sæti. Það er frekar kaldranalegt viðhorf sem kom fram í grein eftir Methúsalem Þórisson, í Morgunblaðinu 22. okt. 1996, að sjúklingar og aldraðir séu baggi á þjóðinni rétt eins og hver og einn verði ekki gamall og allir geti ekki orðið sjúkir. Þetta finnst mér rétt að koma með inn í þessa umræðu. Auðvitað má velta því fyrir sér hvort þetta sé rétt aðbúð. Það er slæmt ef laun erfiðis og þjónustu við þjóðfélagið birtist í skerðingu kjara aldraðra eins og hefur verið að gerast á undanförnum árum.

Reglugerð sem sett var í maí 1996 og bitnar öðrum fremur á öldruðum, mun skerða uppbót vegna lyfjakostnaðar og mikillar umönnunar þannig að hjá þeim sem hafa meira en 75 þús. kr. í tekjur á mánuði að meðaltali eða eiga 2,5 millj. í sparifé leiðir hún til skerðingar. Ef einstaklingur hefur 75 þús. kr. í tekjur eru dregnar af honum 7--8 þús. kr. í staðgreiðslu. Eftir standa 68 þús. kr. Auðvitað er lágmark að ætlast til þess að niðurskurður sé miðaður við nettótekjur. Það gerir einstaklingum jafnara undir höfði í þessum málum. Það má ekki koma því á að aldraðir fái það á tilfinninguna að þeir séu einhverjir þurfalingar og vísa ég þar til upphafs ræðu minnar um ævikvöld í góðu umhverfi.

Ísland skipaði sér sess meðal velferðarþjóðfélaga í fremstu röð með setningu laga um almannatryggingar sem sett voru 1946. Það verður að játa að undanfarin ár hefur hver skerðingin rekið aðra í kjölfar lagasetninga. Ég er ekki að reyna að létta af Alþingi þeirri ábyrgð sem það ber en ég vil vísa til þess að skerðingaráformin verða til í fjmrn. og lagasetningar eru varðar af meiri hluta þeirra sem standa að ríkisstjórn hverju sinni. Sjaldan hafa komið fram harðari viðbrögð hjá stjórnarandstöðu en vegna þeirrar skerðingar sem lagasetning um fjármagnstekjuskatt leiddi yfir aldraða þegar þau lög voru sett og allt kom fyrir ekki, það var alveg sama hver viðbrögð aldraðra voru eða stjórnarandstöðunnar á þinginu.

Ég tel það mjög vafasamt að ellilífeyrir hafi fylgt verðlagsþróun. Hann er nú um 14 þús. kr. fyrir einstakling og tekjutryggingin er um það bil 25--26 þús. kr. á mánuði. Ég segi bara að sá sem ekki hefur annað er illa settur. Rétt er að benda á að tekjutrygging skerðist um leið ef fólk hefur einhverjar aðrar tekjur.

Það síðasta sem ég vil nefna í bili eru lögin um fjármagnstekjuskatt sem gengu í gildi á sínum tíma og skertu tekjutryggingar frá 1. september 1996. Ástæða er til að minna á þetta mál því það bitnar óþyrmilega á mörgum öldruðum núna.

Auðvitað má velta því fyrir sér af hverju kerfið er haft svona flókið. Oft hefur verið rætt um að einfalda kerfið og nefndir hafa verið skipaðar til þess. En hvað hefur gerst? Kerfið er orðið svo flókið að fólk botnar æ minna í því hvaða leiðir það á að fara, hvernig það á að sækja sinn rétt. Þetta er ákveðinn partur af því sem er að varðandi málefni aldraðra. Það er meira að segja svo að fólkið sem starfar við kerfið á í mestu erfiðleikum með að finna allar þær götur og leiðbeiningar sem til þarf til að aldraðir njóti þeirra réttinda sem þeir eiga. Í síðasta tölublaði blaðs aldraðra, Listinni að lifa, kemur í ljós að miklu fleiri eiga rétt á alls konar bótum frá heilbrigðiskerfinu eða tryggingakerfinu, en njóta þeirra eða fá þær. Þetta er ekki sent heim til fólks. Það verður að sækja þetta með hörðum höndum.

Nú væri gaman að rifja upp ályktun Sjálfstfl. um málefni aldraðra. Ég vil nefna að hafdjúp er á milli áforma og aðgerða hjá Sjálfstfl. en það undarlega er að 45% aldraðra styðja samt skerðingarstefnuna sem snýr gegn þeim. Þetta er ótrúlegt en það er ekki hægt annað en ræða þetta í þessu samhengi. Sjálfstæðismenn segja að þeir vilji gera aðgerðir í samráði við aldraða. Og ég spyr: Hverjar eru efndirnar? Það eru þær tilskipanir sem hafa verið að koma, eins og hér hefur verið bent á.

[12:30]

Þeir vilja koma í veg fyrir tvísköttun. Þetta er í ályktun sjálfstæðismanna. Og hverjar eru efndirnar? Það er gaman að velta því fyrir sér hvernig staðan er. Sjálfstæðismenn segja að þeir vilji tryggja að ellilífeyrisþegum sé ekki mismunað í sköttum miðað við aðra. Ég spyr: Hverjar eru efndirnar? Í hverju máli á fætur öðru hafa hv. þm. Sjálfstfl. greitt atkvæði með aðgerðum gegn öldruðum. Síðan segja þeir að þeir vilji móta heildstæða stefnu í málefnum aldraðra. Ég velti því fyrir mér hverjar efndirnar eru. Í þeirri ályktun sem lögð var fyrir landsfund Sjálfstfl. eru margir hlutir sagðir. Það er hafsjór, það er langt bil, á milli orða og athafna og ályktana og raunveruleikans og um það snýst málið.

Það er rétt að nefna að ég hef þá trú að í raun vilji allir menn vel í þessum málefnum en mjög margt misferst í aðgerðum. Þá er að knýja þá sem ráða til bættrar breytni, hvort heldur alþingismenn eða aðra. Ég segi að aldraðir hafa styrk og getu til þess en þeir verða að vera sameinaðir og stilla saman kröfur sínar í baráttu fyrir nútíð og framtíð. Ég tel að aldraðir geti best komið málum sínum fyrir þannig að þeir komist til áhrifa í sveitarstjórnum og á sem flestum stöðum í þjóðfélaginu til að koma málum sínum fram. Það fólk sem er núna í forustu fyrir öldruðum hefur bæði hæfni og getu til þess að koma og taka þátt í málum, það á ekki að draga sig út úr. Ég hvet aldraða til að koma málum sínum að núna í komandi sveitarstjórnarkosningum og þeir eiga að gera kröfu um að það séu minnst tveir fulltrúar á hverjum einasta lista í hverju einasta framboði allan hringinn í kringum landið og það er réttlæti. Ég þekki að styrkur sameinaðra samtaka er nægur til að hafa meiri áhrif en verið hefur. Ég minni á það sem ég nefndi áðan, aðgerðir núverandi stjórnvalda gegn öldruðum, og ástæða er til þess að minna á að nánast allt hefur verið á verri veginn.