Ábyrgðarmenn

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 14:56:58 (4664)

1998-03-12 14:56:58# 122. lþ. 86.11 fundur 310. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[14:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg það til baka sem ég sagði að hv. þm. ætti að skipta um flokka. Ég er ekki viss um að nokkur flokkur vildi taka við honum.

Ég segi það hins vegar, herra forseti, að mér finnst það alveg með ólíkindum að heyra hérna tvo hv. þm., hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, vera að því er mér finnst með allt að því hótanir í garð þessa máls. Hérna endurtekur hv. þm. Pétur Blöndal það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði fyrr í dag, að það væri ekki til bóta fyrir þetta mál að vera að rifja eitthvað upp fortíð Sjálfstfl. Ég segi nú bara við ykkur, hv. þingmenn.: Annaðhvort stendur þetta mál á sínum eigin forsendum sem hv. þm. hafa einmitt sagt að væru ansi burðugar eða það fellur. Það er svo einfalt mál. En að koma hingað eins og tveir hv. þm. hafa gert og sagt að það væri ekki málinu til bóta að menn væru í einhverjum sandkassaleik. Hvað felst í því að vera í sandkassaleik? Það er þeirra mat að maður sé í sandkassaleik ef það vill svo til að menn leyfa sér að rifja upp fortíð flokka og jafnvel einstaklinga í málum sem þessum eða einhverjum öðrum. Það vill svo til að samtíðin á sér alltaf eitthvað að baki og það heitir fortíð og það gildir um Sjálfstfl. alveg eins og aðra flokka að hann á sér fortíð. Það getur vel verið að hv. þm. Pétur Blöndal sé ekkert stoltur af fortíð síns flokks í þessum efnum. Ég hef tekið það skýrt fram að hann ber enga ábyrgð á henni. En það er einfaldlega svo að hlutirnir eiga sér einhvern aðdraganda og ég hef einungis leyft mér það sem e.t.v. er munaður í augum þessara hv. þm. að ræða hérna í aukasetningum aðdraganda að þeirri stöðu sem þetta mál er í núna og það hefur bersýnilega sett þennan skjálfta í taugakerfi þeirra að þeir eru algerlega úr skorðum hrokknir.