Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 16:05:56 (4675)

1998-03-12 16:05:56# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[16:05]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég eyddi öllum ræðutíma mínum áðan í að reyna að fjalla um það að ég áttaði mig ekki á því af hverju frv. er komið fram í fyrsta lagi og af hverju rökstuðningur með frv. er allur þess eðlis eins og væri verið að slíta gagnkvæmu vátryggingafélagi því að það er alveg ljóst að þessu gagnkvæma vátryggingafélagi var breytt í eignarhaldsfélag 1994 með tilgangi sem kemur fram í 3. gr.

Ég gerði reyndar að gamni mínu áðan að fá útprentun á því af því að hér eru a.m.k. þrír af þeim hv. þingmönnum sem eru flutningsmenn þessa frv., sem voru á þingi þegar þessi breyting var gerð, þegar að þessu gagnkvæma vátryggingafélagi var breytt í eignarhaldsfélag með tilgangi eins og segir í 3. gr. Atkvæðagreiðslan féll þannig að allir þeir þingmenn sem þá sátu á þingi og greiddu atkvæði greiddu þessu jáyrði sitt, að breyta gagnkvæmu vátryggingafélagi yfir í eignarhaldsfélag með nýjan tilgang. Þar á meðal voru hv. þm. Árni Ragnar Árnason, einn flutningsmanna, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, einn flutningsmanna og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, einn flutningsmanna.

Nú er ég ekki að segja að menn geti ekki skipt um skoðun, aldeilis ekki. Það eina sem ég er að segja er það af hverju leggja menn núna fram frv. til þess að slíta félagi sem ekki er til vegna þess að þessu gagnkvæma vátryggingafélagi var breytt 1994 í eignarhaldsfélag. Það er mjög undarlegt að vera að leggja fram frv. núna um að slíta félagi sem var lagt niður með lögum 1994. Hins vegar segi ég það líka, virðulegi forseti, að menn geta vitaskuld skipt um skoðun en ég kalla eftir frekari rökstuðningi en menn settu fram áðan og rökstuðningurinn má ekki snúa að því hvort menn séu hæfir til að sinna stjórn í einhverju félagi o.s.frv. Hann á að snúa að því af hverju hlutirnir eru lagðir fram eins og þeir eru lagðir fram.