Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 16:12:27 (4678)

1998-03-12 16:12:27# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[16:12]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. bregður ekki vana sínum og nú er hann byrjaður í samsæriskenningunum og þá verð ég að játa það að þar er hann á heimavelli og miklu hæfari en ég vegna þess að hann þekkir samsæriskenningar greinilega mjög vel. Nú virðist hann vera að reyna að ýja að því að í frv. sé fólgið heilmikið samsæri. Þegar hefur margoft komið fram, og núna síðast í andsvari mínu við málflutning hans, að tilgangur okkar sem flytjum frv. sé einfaldlega sá að eignaraðilar Brunabótafélagsins fái að ráðstafa sínum eignarhlut, fái að ráðstafa eign sinni.

Það liggur fyrir að í fyrsta skipti í sögu Brunabótafélagsins er staðan sú að félagið er ekki að fást við brunatryggingar né taka þátt í tryggingastarfsemi heldur er um að ræða orðið ,,eign`` sem hægt er að ráðstafa strax. Ég segi að það er orðin grundvallarbreyting á þessu félagi. Það liggur alveg í augum uppi.

Mér finnst mjög sérkennilegt að verið sé að reyna að gera það tortryggilegt þegar vilji okkar stendur til þess að þeir sem eigi eignina fái að ráðstafa henni, það sé allt í einu orðið mjög tortryggilegt og gefi eitthvert tilefni til að setja á hér einhverjar samsæriskenningar um það að við teljum að það sé eitthvað óeðlilega að verki staðið. Þetta er auðvitað ekki þannig.

Ég ítreka að þeir sem standa að þessu félagi eru hinir mætustu menn, standa sig vel í starfi sínu og hafa greinilega reynt að ávaxta þetta pund. Það hefur skilað þeim árangri núna að í fyrsta skipti, aldrei fyrr, í fyrsta skipti eru sveitarfélögin að fá 100 millj. kr. eftir að frv. hefur komið fram og það er auðvitað vel að svo sé.