Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:58:21 (4746)

1998-03-17 16:58:21# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þess sem hæstv. ráðherra var nú að lýsa yfir, að ekki ætti að ganga á eigið fé sjóðanna þá er bara ein niðurstaða og hún er þessi: ríkisstjórnin ætlar að hækka vexti. Það er eina leiðin sem ríkisstjórnin hefur til að koma í veg fyrir að gengið verði á eigið fé sjóðanna sem nemur vaxtamun á lánum þeirra. Ég tel því rétt að ítreka þá fyrirspurn sem ég bar fram við hæstv. forsrh. og bera hana fram við hæstv. félmrh.: Ætlar ríkisstjórnin að hækka vextina á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna?

Varðandi ríkisábyrgð á lánunum kemur skýrt fram í þessu stjfrv. að: ,,... verður í náinni framtíð hægt að afnema ríkisábyrgð ...`` Það er ekkert ef --- það er stefnumörkun --- verður hægt í náinni framtíð. Þetta er yfirlýsing fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sem hæstv. félmrh. hefur lýst sig ósammála. Ég vek athygli á að mikill ágreiningur er milli stjórnarflokkanna um þennan þátt stjfrv.