Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 17:24:09 (4751)

1998-03-17 17:24:09# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[17:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur að staða ríkissjóðs versni um tvo milljarða. Eins og ég hef margoft reynt að segja þá er staðan gagnvart gamla kerfinu söm og fyrr. Það er óbreytt kerfi nema að það mun auðvitað minnka ár frá ári eftir því sem lánum fækkar. Sú staða er söm og fyrr.

Til frádráttar auknum kostnaði við vaxtabótakerfið koma þær 275 millj. kr. sem menn þurfa ekki að bæta við. Síðan er um að ræða flýtigreiðslur sem hægt er að leggja saman upp á um 500 millj. kr. Það mun jafnast út á 5--8 ára tímabili eins og glöggt hefur komið fram í umræðum um málið. Þetta liggur, hygg ég, nokkuð ljóst fyrir.

Varðandi það hvort það stangist á að flýting á greiðslunum eigi sér stað við hið nýja kerfi en ekki í því gamla þá held ég að enginn vafi sé á því að það fær algjörlega staðist. Það er ekki verið að skekkja í neinu stöðu þeirra sem fyrir voru í kerfinu. Á hinn bóginn er verið að skapa við hið nýja kerfi, við hina breyttu skipan og við hina auknu þýðingu vaxtabótanna, tiltekin skilyrði sem kosta okkur í flýtingu tiltekna peninga. Það er ekki hins vegar verið að ákveða að það skuli gerast afturvirkt gagnvart öllum öðrum lánum sem fyrir hendi eru. Enda ættu menn þá að fara að reikna hvað það mundi kosta í flýtikostnaði, sem eru gríðarlegar upphæðir.