Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 18:53:01 (4769)

1998-03-17 18:53:01# 122. lþ. 89.4 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[18:53]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það stendur allt sem ég sagði að frv., þ.e. hugmynd um bindandi álit er alls ekki slæm. Þetta frv. er hins vegar illa unnið af því að það tekur ekki á tilteknum meginþáttum málsins eins og hæstv. forsrh. ræddi reyndar um, um frestina. Það er alveg opið með fresti hjá ríkisskattstjóra sem kveði upp um bindandi álit. Það tel ég ekki vera góða útfærslu. Ég bendi á að í 5. gr. frv. segir:

,,Álitsbeiðandi getur kært bindandi álit ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar.`` Það er eðlilegt að þá skoði menn hvaða meðferð mál fá hjá yfirskattanefnd. Þar benti ég á 8. gr. laga og þá staðreynd að núgildandi lög eru margbrotin varðandi starfsemi yfirskattnefndar. Ég tók reyndar vel eftir hvað hæstv. forsrh. sagði um væntanlegt frv. yfirskattanefndar en hann gat ekkert um hvort efnisatriði í því frv. væru það að taka eitthvað á 8. gr., þ.e. fresti þess, eða breyta starfsemi yfirskattanefndar þannig að hún stæði lög og gæti skilað áliti innan einhvers tiltekins tíma.

Aðalmálið er að þetta verði löggjöf sem feli í sér einhverja réttarbót, ekki bara slagorð út í loftið eins og mér fannst hæstv. forsrh. fara um málið. Þegar hann fór aðeins að hugsa um málið sá hann að auðvitað þurfti að vera ákvæði um fresti í málinu. Auðvitað sér hann það. Hæstv. forsrh. er lögfræðingur og hann áttar sig á því að það þurfa að vera skýr ákvæði hvað varðar áfrýjunarferilinn sem er til yfirskattanefndar. Það þarf að vera skýrt kveðið á um hvernig frestir eru haldnir. Það er ekkert mjög flókið. Þetta mál er illa unnið en ég er sannfærður um það, herra forseti, að hv. efh.- og viðskn. getur snúið þessu til betri vegar. Hún hefur gert það við fleiri mál hæstv. ríkisstjórnar.