Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):
Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 951 sem er 560. mál þingsins, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og fylgifrv. þess til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum um fjármálaeftirlit á þskj. 952 sem er 561. mál þingsins.
Árið 1996 skipaði ég nefnd til að endurskoða opinbert eftirlit með fjármálastofnunum, þ.e. það eftirlit sem er nú er í höndum tveggja stofnana, bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlits. Nefndin skilaði mér niðurstöðum sínum nú fyrir áramótin en fjórir nefndarmenn af fimm stóðu að meirihlutaálitinu. Niðurstöður eru þessar helstar:
Í fyrsta lagi að virkast eftirlit með fjármagnsmarkaði náist með því að setja á stofn eitt almennt fjármálaeftirlit sem nái til allra greina markaðarins.
Í öðru lagi að slík stofnun eigi að vera sjálfstæð stofnun sem stjórnsýslulega heyri undir viðskrh.
Í þriðja lagi að tryggð verði starfstengsl stofnunarinnar við Seðlabanka Íslands til þess að hann geti í starfsemi sinni nýtt sér þær upplýsingar sem aflað er innan eftirlitsstofnunarinnar og öfugt.
Í fjórða lagi að eftirlitsskyldir aðilar sem falla undir eftirlit hinnar nýju stofnunar standi undir kostnaði við svipað og vátryggingafélögin gera nú en eins og kunnugt er hefur Seðlabankinn greitt kostnað vegna bankaeftirlitsins án sérgreindrar gjaldtöku.
Frv. það um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem ég mæli hér fyrir er byggt á niðurstöðu nefndarinnar. Rétt er að fara nokkrum orðum um rök fyrir sameiningu núverandi eftirlitsstofnana í eina.
Ljóst er að nú er boðin blönduð fjármálaþjónusta vátryggingafélaga og annarra fjármálastofnana. Einnig hefur þróunin verið sú að mynda fjármálasamstæður. Þannig hafa lánastofnanir, vátryggingafélög og verðbréfafyrirtæki verið tengd saman annaðhvort sem dóttur- og móðurfyrirtæki eða í gegnum eignarhaldsfélög. Mörg atriði sem snerta eftirlit með svo samþættum markaði geta valdið erfiðleikum.
Flest bendir til þess að sameinað eftirlit verði öruggara og árangursríkara en eftirlit fleiri aðskildra stofnana, þótt úr ýmsum ókostum megi bæta með samvinnu eftirlitsstofnana og upplýsingaflæði milli þeirra. Líklegt er að þróun næstu ára muni þrýsta enn á og auka þörfina á samræmdu eftirliti á einni hendi.
Þegar litið er til nágrannalandanna kemur í ljós að öll þróun er í átt til sameiningar eftirlitstofnana. Þannig starfa sameinaðar eftirlitsstofnanir í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Í Finnlandi er einnig rætt um sameiningu eftirlita. Þá liggur fyrir breska þinginu frumvarp sem gerir ráð fyrir miklum breytingum á eftirliti breska fjármagnsmarkaðarins sem fela í sér hliðstæðar kröfur um eftirlit.
Almennt má segja að eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands hafi gefist vel. Eftir því sem umfang eftirlitsins hefur aukist og fleiri svið fjármagnsmarkaðarins hafa verið felld undir bankaeftirlitið má þó segja að þessi þáttur í starfsemi bankans hafi fjarlægst hið eiginlega hlutverk Seðlabankans. Rök eru fyrir því að eftirlit með fjármálastofnunum falli undir Seðlabanka þar sem hann er lánveitandi til þrautavara. Eftirlit með öðrum sviðum fjármálageirans, svo sem með verðbréfaviðskiptum, lífeyrissjóðastarfsemi eða vátryggingastarfsemi, eru fjarlægari hlutverki bankans.
Mikilvægt er að eftirlitsstofnun fái að starfa óháð öðrum hagsmunum en þeim sem í eftirlitinu felast. Þetta verður best tryggt með því að tryggja þessari starfsemi sjálfstæði.
Þrátt fyrir þetta er nauðsynlegt að tryggja góð tengsl eftirlitsstofnunarinnar og Seðlabanka Íslands. Mikilvægt er að Seðlabankinn fái áfram notið þeirrar upplýsingaöflunar og þekkingar sem nú er til staðar í bankaeftirlitinu, og að ekki þurfi að koma til tvíverknaðar við upplýsingaöflun. Að sama skapi er brýnt að ný eftirlitsstofnun haldi góðum tengslum við Seðlabankann. Báðum stofnununum er þetta nauðsynlegt þannig að þær geti gegnt hlutverki sínu á sem árangursríkastan hátt.
Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði af eftirlitsstarfseminni. Rétt er þó að hafa í huga að nýlega voru samþykkt lög á Alþingi sem kveða á um fullt eftirlit bankaeftirlits yfir lífeyrissjóðum. Kann það að auka umfang opinbers eftirlits á fjármagnsmarkaði.
Starfsemi bankaeftirlits og Vátryggingaeftirlits nú er fjármögnuð með ólíkum hætti. Þannig stendur Seðlabankinn straum af kostnaði bankaeftirlitsins og aflar með starfsemi sinni tekna til þess að standa undir þeim kostnaði. Hins vegar standa vátryggingafélög og vátryggingamiðlarar undir kostnaði af eftirliti Vátryggingaeftirlitsins. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 60/1994 er kostnaði sem jafnað er árlega á vátryggingafélögin, jafnað á þau í hlutfalli við bókfærð iðgjöld samkvæmt ársreikningi viðkomandi reikningsárs.
Eðlilegt er að þeim aðilum sem nú falla undir eftirlit bankaeftirlits verði gert að greiða fyrir eftirlitið með svipuðum hætti og vátryggingafélögin gera nú. Raunar verður að telja þá breytingu nauðsynlega þó nýju sameiginlegu Fjármálaeftirliti yrði ekki komið á fót. Flest mælir með því að eðlilegt sé að koma á jafnræði milli fyrirtækja á fjármagnsmarkaði að þessu leyti.
Í nágrannalöndunum er eftirlitsskyldum aðilum almennt gert að standa undir kostnaði af eftirlitinu.
Rétt er að leggja áherslu á að frumvarpið um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gerir ekki ráð fyrir aukinni eftirlitsstarfsemi á fjármagnsmarkaði. Einungis er gert ráð fyrir að eftirlit það sem nú fer fram í bankaeftirliti og Vátryggingaeftirliti sé á einni hendi. Það eftirlit sem þessar stofnanir hafa með höndum er forsenda þess að hægt sé að gera fjármagnsmarkaðinn heilbrigðari og verjast áföllum á fjármagnsmarkaðinum. Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru gerðar ríkari kröfur um slíkt eftirlit og hefur starfsemi núverandi eftirlitsstofnana verið aðlöguð að EES-samningnum.
Helstu efnisatriði frv. eru þessi: Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að komið verði á fót nýrri stofnun, Fjármálaeftirlitinu, sem annast skal þá starfsemi sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitið hafa nú með höndum. Starfsemi og úrræði verða svipaðar því sem nú er. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið verði sjálfstæð ríkisstofnun með sérstakri stjórn. Gert er ráð fyrir að stofnunin heyri stjórnskipulega undir viðskrh. en jafnframt tryggt að hún njóti sjálfstæðis gagnvart ráðherra í starfsemi sinni.
Lagt er til að þriggja manna stjórn fari með yfirstjórn stofnunarinnar. Með daglega stjórn fari forstjórinn. Stjórnendum og starfsmönnum verði sett ströng hæfisskilyrði. Þá starfi sérstök ráðgjafarnefnd eftirlitsskyldra aðila í tengslum við stofnunina. Hún hafi það hlutverk að taka þátt í stefnumótun og koma á framfæri viðhorfum sínum til starfsátta og reksturs. Lögð er á það áhersla að náin samskipti verði milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands þannig að báðar stofnanirnar hafi stuðning hvor af annarri og komið verði í veg fyrir tvíverknað en fjármálastofnanir hafa lagt á það áherslu að umfang upplýsingaöflunar verði ekki aukið við breytingarnar. Tengsl þessara stofnana eru enn frekar tryggð með því að gert er ráð fyrir að Seðlabankinn tilnefni einn mann í stjórn Fjármálaeftirlitsins.
Gert er ráð fyrir sérstakri kærunefnd þannig að skjóta megi þangað ákvörðun stofnunarinnar gagnvart eftirlitsskyldum aðilum. Kærunefnd er óháð ráðherra í starfi sínu og er Hæstarétti ætlað að tilnefna nefndarmenn og velja formann hennar. Þá verði öllum eftirlitsskyldum aðilum gert að greiða kostnað af eftirlitinu svipað og vátryggingafélögin gera nú.
Frv. þessu fylgir frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum um fjármagnsmarkaðinn þar sem lagðar eru til breytingar á hugtökum til samræmis við þetta frv., þ.e. að tilvísunum í bankaeftirlit og Vátryggingaeftirlit verði breytt.
Þá verður á næstu dögum lagt fram frv. til laga um breyting á lögum um Seðlabanka Íslands en í því eru m.a. lagðar til breytingar vegna stofnunar Fjármálaeftirlitsins. Við vinnslu frumvarpanna hefur verið haft samráð við forsvarsmenn samtaka fjármálastofnana, Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitið. Þessir aðilar hafa komið athugasemdum sínum á framfæri og lít ég svo á að frv. sé lagt fram í sátt við alla þessa aðila þó þeir kunni að hafa efnislegar athugasemdir við einstök útfærsluatriði.
Herra forseti. Þær miklu breytingar sem nú eiga sér stað á íslenskum fjármagnsmarkaði með stofnun hlutafélags um ríkisviðskiptabankana, sameiningu fjárfestingarlánasjóðanna og hina almennu þróun markaðarins leiða til þess að áhættuþáttum í starfsemi fjármálastofnana fjölgar. Þetta kallar á að stjórnvöld tryggi að eftirlit með þeim sem starfa á þessum markaði sé vel í stakk búið til að fylgjast með starfsemi fjármálastofnana og koma í veg fyrir stór slys í fjármálaumsýslunni.
Augljóst er að hörð samkeppni og nýjar greinar þjónustu kalla á gott opinbert eftirlit sem er til þess bært að fylgjast með því að farið sé að lögum og reglum og að rekstur fjármálafyrirtækja sé heilbrigður og eðlilegur. Með þetta í huga eru frumvörp þessi lögð fram.
Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvörpunum verði vísað til efh.- og viðskn.