Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 21:49:42 (4794)

1998-03-17 21:49:42# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[21:49]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 953 sem er 562. mál þingsins, um vexti, dráttarvexti og verðtryggingu.

Fram til ársins 1987 voru í gildi lög um bann við okri, dráttarvexti o.fl., hin svonefndu okurlög, nr. 58/1960. Samkvæmt þeim og ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands frá 1961 var bankanum heimilt að ákveða lágmarksvexti innlána og hámarksvexti útlána. Vextir í almennum viðskiptum manna á meðal máttu ekki vera hærri en almennir útlánsvextir banka og sparisjóða. Seðlabankinn nýtti fyrrgreinda lagaheimild og ákvað alla almenna vexti í landinu til febrúar 1984. Þá heimilaði Seðlabankinn bönkum og sparisjóðum að ákveða vexti á innlánum sem bundin voru til minnst sex mánaða og millibankalánum.

Árið 1987 voru sett lög um vexti er komu í stað okurlaganna frá 1960. Með vaxtalögunum var staðfest almennt frelsi til samninga manna á milli um vexti, þó ekki um dráttarvexti sem enn eru ákveðnir af Seðlabankanum. Með vaxtalögunum var Seðlabankanum falið að birta opinberlega upplýsingar um vexti hjá bönkum og sparisjóðum, honum falið að ákveða dráttarvexti innan tiltekinna marka og að auglýsa meðalvexti á skuldabréfalánum banka og sparisjóða til almennrar notkunar í viðskiptalífinu.

Frá því að vaxtalög gengu í gildi og almennu samningsfrelsi um aðra vexti en dráttarvexti var komið á hefur íslenskur fjármagnsmarkaður tekið margvíslegum breytingum. Hér skal einungis þeirra helstu getið:

Bankar, sparisjóðir og aðrar helstu lánastofnanir hafa tekið upp kjörvaxtakerfi útlána. Í kjörvaxtakerfi eru lántakendur flokkaðir í nokkra kjörvaxtaflokka eftir fjárhagslegum styrkleika og tryggingum sem þeir geta sett fyrir lánum. Vextir í hverjum flokki eru ákveðnir sem álag á hlutaðeigandi kjörvexti (grunnvexti). Jafnframt hefur fjölbreytni innlánsreikninga aukist.

Síðustu gjaldeyrishöftin voru afnumin í árslok 1994 en þar með tengdist íslenskur fjármagnsmarkaður erlendum fjármagnsmörkuðum traustari böndum en áður.

Hlutabréfamarkaður hefur eflst.

Lánsfjáröflun ríkissjóðs hefur tekið stakkaskiptum með markaðsútboðum og samkomulagi fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans um að bankinn veiti ríkissjóði ekki fyrirgreiðslu í formi yfirdráttarlána.

Aukin áhersla er hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum á að afla lánsfjár með sölu skuldabréfa á verðbréfamarkaði í stað hefðbundinna bankalána.

Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu skapaði aukna möguleika erlendra fjármálafyrirtækja til að veita þjónustu hér á landi.

Viðskiptaráðherra skipaði nefnd í ágúst 1994 til að endurskoða vaxtalög. Nefndin skyldi taka mið af reynslu frá setningu laganna, breytinga á fjármagnsmarkaði og ákvæða hliðstæðra laga erlendis. Sér í lagi var nefndinni falið að skoða fyrirkomulag á ákvörðun dráttarvaxta, hvaða vexti úr bankakerfinu Seðlabankinn birtir opinberlega og hvaða meðalvexti hann reiknar út. Nefndin lauk störfum í október 1995 og skilaði frv. til nýrra innheimtulaga um vexti og verðtryggingu. Í grg. með frv. er getið um hverjir sátu í nefndinni og ætla ég ekki að rekja það hér.

Nefndin lagði til að ný lög kæmu í stað vaxtalaganna frá 1987. Í áliti nefndarinnar var jafnframt lögð til sú grundvallarbreyting í vaxtamálum að dráttarvextir yrðu gefnir frjálsir, þannig að þeir réðust af samningum manna í milli.

Frá því að nefndin lauk störfum hefur frumvarpið verið til skoðunar í viðskiptaráðuneytinu. Ráðuneytið gerði allnokkrar breytingar á frumvarpi vaxtalaganefndarinnar þó svo að frumvarpið sem hér birtist byggist að verulegu leyti á vinnu hennar.

Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar á sviði vaxtamála:

Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að Seðlabankinn ákveði einhliða dráttarvexti af öllum peningakröfum verði lögaðilum heimilt í lánssamningum að semja um dráttarvexti upp að vissu marki. Talið er nauðsynlegt að auka svigrúm lögaðila til að semja um dráttarvexti, m.a. vegna aukinnar alþjóðavæðingar á fjármagnsmarkaðnum. Fyrirtæki eiga nú greiðari aðgang en áður að alþjóðlegum fjármagnsmarkaði og geta þannig samið um dráttarvexti og lántökur erlendis. Lögaðilar hafa samkvæmt frumvarpinu heimild til að semja um álag ofan á samningsvexti en álagið má þó ekki vera hærra en 10 hundraðshlutar. Meginreglan verður hins vegar sú að Seðlabankinn ákveður dráttarvexti eins og verið hefur. Sú breyting verður hins vegar að dráttarvextir af peningakröfum í erlendri mynt verða ákveðnir með sama hætti og dráttarvextir af kröfum í innlendri mynt. Ef lögaðilar semja ekki sérstaklega um álag ofan á samningsvexti munu dráttarvextirnir verða ákveðnir af Seðlabankanum eins og nú gildir. Samkvæmt frumvarpinu munu einstaklingar ekki eiga kost á því að semja um dráttarvexti, heldur munu dráttarvextir ákveðnir af Seðlabankanum. Hér er ekki gengið jafnlangt í frelsi til ákvörðunar dráttarvaxta og vaxtalaganefndin mælti með. Talið er rétt að stíga ekki stærra skref til dráttarvaxtafrelsis á þessu stigi. Reynslan af nýju fyrirkomulagi getur hins vegar virkað sem hvatning til að auka enn frekar heimildir einstaklinga og fyrirtækja til þess að semja um dráttarvexti.

Í öðru lagi er lagt til að aðilar verði hvattir til að semja um ákveðna vexti sín á milli en nota ekki í blindni almenna viðmiðun við vexti á markaðnum, eins og nú tíðkast, t.d. meðalvexti hjá bönkum og sparisjóðum. Þessir meðalvextir eru ýmsum annmörkum háðir. Þannig hefur orðið æ erfiðara fyrir Seðlabankann að velja vogir til að reikna meðalvexti eftir því sem kjörvaxtakerfi banka og sparisjóða hefur orðið fjölbreytilegra. Að auki eru við útreikning á þessum meðalvöxtum notaðir allir vextir af skuldabréfalánum banka og sparisjóða, þ.e. lánum á lágum vöxtum til traustra aðila með góðar tryggingar og lánum á háum vöxtum til aðila með lakari tryggingar og allir vextir þar á milli. Þessir meðalvextir eru síðan notaðir í ríkum mæli í samningum manna á milli utan bankakerfisins án þess að tillit sé tekið til mismunandi aðstæðna lántakenda. Þetta getur þýtt að aðilar sem taka lán utan bankakerfisins með góðum tryggingum greiða í raun hærri vexti en eðlilegt getur talist. Einnig má finna dæmi um hið gagnstæða. Lagt til að í stað þess að reikna út og birta meðalvexti banka og sparisjóða, sem aðilar geta notað í viðskiptum sín á milli, verði Seðlabankanum falið að birta vexti sem taka mið af lægstu vöxtum nýrra útlána viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Ekkert er því til fyrirstöðu að samið sé um tiltekið frávik frá þessum vöxtum eða aðstæðum hverju sinni. Þetta mun leiða til betri vaxtamyndunar á lánsfjármarkaði.

Í þriðja lagi er lagt til að vextir af skaðabótakröfum verði hækkaðir frá því sem nú gildir, þ.e. úr vöxtum af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum í vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum. Vextir af skaðabótakröfum munu því hækka verulega enda verður að telja það mikið ranglæti að sá sem á skaðabótakröfu þurfi að sæta því að fá ekki nema sparisjóðsvexti á kröfu sína.

Í fjórða lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða. Flestir fjárfestingarlánasjóðirnir lúta nú sömu meginreglum og viðskiptabankar og sparisjóðir, samanber lög um lánastofnanir aðrar en viðskptabanka og sparisjóði. Því þykir óeðlilegt að sér\-ákvæði gildi um vaxtakjör fjárfestingarlánasjóða.

Í fimmta lagi er lagt til að misneytingarákvæði vaxtalaga og ákvæði um endurgreiðslu á ofteknum vöxtum verði að mestu fellt brott. Ákvæði þessi eiga rætur sínar að rekja til þess tíma þegar ekki ríkti frjálsræði í samningum um vexti. Þörf fyrir ákvæðin nú, þegar frelsi í samningum um vexti hefur fest sig í sessi, er því lítil. Hafa ber í huga að hin almennu misneytingarákvæði hegningarlaga eiga við um samninga um vexti.

Að lokum eru lagðar til þær breytingar á verðtryggingakafla vaxtalaganna að heimildir til að binda skuldbindingar íslensku krónunnar við erlenda gjaldmiðla verði þrengdar og tekinn af allur vafi um að Seðlabankanum sé heimilt að fengnu samþykki viðskrh. að leggja bann við verðtryggingu á tilteknu tímabili. Að öðru leyti standa ákvæði vaxtalaga um verðtryggingu óbreytt.

Herra forseti. Vaxtalögin frá 1987 hafa að flestu leyti reynst vel. Breytingar á fjármagnsmarkaðnum hafa hins vegar verið slíkar á undanförnum áratug að aðstæður eru til að taka vaxtalögin til endurskoðunar. Endurskoðun á vaxtalögum þarf hins vegar að vanda og krefst mikillar yfirlegu. Að lokinni umræðunni óska ég þess að frv. verði vísað til efh.- og viðskn.