Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:50:55 (4803)

1998-03-17 22:50:55# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:50]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Bara til þess að leiðrétta það sem ég gat lesið út úr orðum hv. þm. hér áðan að ég hefði fullyrt að hv. þm. hefði sagt að menn hefðu átt að gera þetta 1991. Það er af og frá. Ég tók bara dæmi um það að ef menn hefðu gert þett árið 1991, þá hefði þróunin orðið sú sem ég var að rekja áðan. Það eigum við að láta okkur verða víti til varnaðar og þurfum því að huga mjög vel að því hvernig að þessu verður staðið.

Mergur málsins er þessi: Ríkisstjórnin eða viðskrh. tók ákvörðun í september 1995 um að fikra okkur út úr verðtryggingunni í ákveðnum áföngum á þeirri leið sem endar eins og ég segi árið 2000. Nú er árið 2000 ekki komið og talsverður tími til stefnu þannig að við höfum tíma til að leggjast yfir þessa hluti, þ.e. hvernig sé skynsamlegast að halda áfram eða hvort --- ég vil líka spyrja þeirra spurningar --- það sé yfir höfuð skynsamlegt að halda áfram. Hv. þm. fullyrðir að svo sé. Ég treysti mér ekki til þess að gera það akkúrat hér og nú. Ég hef hins vegar sagt í þessari umræðu að ég er tilbúinn til þess að skoða þá leið og hef hugsað mér að gera það. Ég hef ekki nákvæmlega ákveðið hvernig ég mun gera það. Það er ekkert óeðlilegt kannski að gera það á svipaðan hátt og með þessari vaxtamyndunarnefnd sem fór af stað árið 1994 og skilaði skýrslu 1995. Ég mun skoða þá hluti en ítreka það sem hv. þm. hefur líka sagt: Menn verða að vanda sig í þessu og það má ekki rasa um ráð fram því enginn okkar vill að niðurstaðan verði sú að vextirnir hækki.