Vextir, dráttarvextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 22:52:48 (4804)

1998-03-17 22:52:48# 122. lþ. 89.13 fundur 562. mál: #A vextir, dráttarvextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[22:52]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lagt mikla áherslu á það í málflutningi mínum að þetta er alvörumál og það ber að tala af varkárni um vaxtabreytingar, ég tala nú ekki um kerfisbreytingar. Umræðan hefur ekki verið í neinum upphrópunarstíl eins og oft vill verða um vaxtamál. Við höfum skipst efnislega á skoðunum um þetta. Hæstv. viðskrh. útilokar svo sem ekkert í þessum efnum og kýs að skoða e.t.v., ég skil hann þannig, hvort ástæða er til að endurmeta þennan feril sem hann lýsti.

Ég tel hins vegar rangt að í frv. verði þessar opnu heimildir til Seðlabanka og viðskrh. eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held þvert á móti að skynsamlegt væri að taka um þetta stefnumarkandi ákvörðun á hinu háa Alþingi. Alþingi er alveg til þess bært. Það má vel vera að þessi umræða þurfi einnig að eiga sér stað innan flokkanna því að ég veit og við vitum að innan stjórnaflokkanna eru vafalítið ýmsir sem mundu vilja styðja þann málflutning sem ég hef haldið fram. Sumir kannski vegna þess að þeir voru alltaf á móti þessu en margir vegna þess að nú eru breyttar forsendur.

Ég hef verið í hópi þeirra sem hefði ekki talað svona fyrir tveimur eða þremur árum eins og ég geri í kvöld. Ég hefði ekki talið það vera tímabært. Ég hefði talið vera vissa áhættu fólgna í því tali. Ég tel hins vegar að núna séu aðstæður með þeim hætti að þetta sé skynsamlegt, það sé efnahagslega skynsamlegt að gera það einmitt í þeirri umfjöllun sem við erum núna í um vaxtalögin. Það er ekki áhætta fólgin í því. Vitaskuld verðum við að vanda okkur við það. Ég kýs að túlka ráðherra þannig að vafi sé í huga hans hver endanleg niðurstaða á að vera í þessum efnum. Menn hafa alltaf rétt til þess að skoða mál betur og koma síðar með skýrari afstöðu. Ég held að það sé einmitt tilefni til að gera það eins og við leggjum málið upp vegna þess að málið mun bera hér að í formi atkvæðagreiðslu fyrr eða síðar á hinu háa Alþingi. En við teljum að málið þoli ekki bið.