Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:29:25 (4872)

1998-03-18 15:29:25# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:29]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst geta þess að hv. þm. Guðjón Guðmundsson hefði verið viðstaddur þessa umræðu ef hann hefði átt þess nokkurn kost og ég vil geta þess að hann er í meginatriðum sammála mínum málflutningi.

Ég vil geta þess líka að allt efni sem ég flyt hér er byggt á fyrirliggjandi gögnum. Ég beini þessari umræðu fyrst og fremst, herra forseti, til ráðherra sem ég tel að eigi hlut að máli, hæstv. samgrh. og sérstaklega umhvrh.

[15:30]

Í þrjú og hálft ár hefur staðið yfir þref og þjark um vegarlagningu frá Flókadalsá, þar með talin brúargerð á Flókadalsá, og veg þaðan að Kleppsjárnsreykjum. Meiri hluti sveitarstjórnar Reykholtsdalshrepps hefur, allt frá því að umræðan hófst, verið á móti tillögu 1 sem er tillaga Vegagerðar um að skera í sundur túnin að Stóra-Kroppi að endilöngu með nýrri vegalagningu. Ekki er þörf á að lýsa ítarlega þeim innansveitarátökum og þjáningum sem þetta mál hefur valdið samfélaginu í Reykholtsdalshreppi en þessar stjórnsýsluaðfarir eru með hreinum ólíkindum.

Til þess að fá Vegagerðina til að skoða aðra möguleika varð hæstv. samgrh. að gefa fyrirskipun um þar að lútandi og þar kom að víðtæk sátt virtist hafa náðst um tillögu, þ.e. tillögu 3 a sem gerð var af verkfræðistofunni Hönnun hf. Meðal þeirra sem samþykkir voru þeirri tillögu voru sveitarstjórn Reykholtsdalshrepps, Vegagerðin, skipulagsstjóri ríkisins, umhvrh. og sennilega meiri hluti þingmanna Vesturl. Skipulagsstjórn ríkisins hafði einnig fallist á þá leið sem ásættanlega niðurstöðu.

En hvað gerist þá? Umhvrh. setur málið á byrjunarreit að ráði Skipulagsstofnunar samkvæmt bréfi sem undirritað er af Stefáni Thors. Sá hinn sami hafði ráðlagt sveitarstjórn Reykholtsdalshrepps hvernig réttast væri að vinna frá upphafi málsins. Í því bréfi er ótrúlegur tónn. Þar segir:

,,Í ljósi þess mikla ágreinings sem er um legu Borgarfjarðarbrautar í Reykholtsdalshreppi og verulegrar andstöðu við að brautin verði í svokallaðri legu 3 a er það álit Skipulagsstofnunar að ástæða sé til þess að fallast á það álit sem vísað var til.``

Það er sem sagt farið að kröfu oddvita nærliggjandi hreppa og tveggja minnihlutamanna en ekki hlustað á meiri hluta Reykholtsdalshreppstjórnar. Hvernig má svona lagað verða, hæstv. umhvrh.? Þessi gjörð er sambærileg við það að Hafnarfjörður væri að hlutast til um vegagerð í Garðabæ, Reykjavík eða Kópavogi. Afleiðing þessa er að margra ára væntingar um samgöngubætur eru að engu gerðar á þeim vikum sem ákveðið var að setja málið á byrjunarreit.

Ég vitna til bréfs meiri hluta sveitarstjórnar Reykholtsdalshrepps varðandi þetta efni til hæstv. umhvrh., með leyfi forseta:

,,Við sem erum kjörnir lýðræðislegir fulltrúar okkar sveitarfélags og ber að afgreiða mál sem falla undir okkar lögsögu samkvæmt sveitarstjórnarlögum sættum okkur illa við það sem við fyrstu athugun og án betri rökstuðnings frá ráðuneytinu virðist ekki vera á eðlilegum rökum reist af ráðuneytisins hálfu.``

Að framangreindu vil ég segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi skora ég á hæstv. umhvrh. að draga þennan úrskurð til baka og svara því í sinni ræðu að svo verði gert.

Í öðru lagi spyr ég: Hvernig stendur á því að úrskurður sá er hér um ræðir er byggður á áðurnefndum bréfum oddvita aðliggjandi hreppa en ekki rætt við meiri hluta Reykholtsdalshreppsnefndar um þau álitaefni? Ég held því fram að andmælaréttur sé ekki virtur. Hvernig stendur á því?

Í þriðja lagi spyr ég: Hvers vegna hafnar umhvrn. vilja löglega kjörins meiri hluta sveitastjórnar Reykholtsdalshrepps og bendir á þann möguleika að stofna samvinnunefnd með sveitarfélögum sem ekki hafa lögsögu í málinu en vísar á um leið að ný byggingar- og skipulagslög beri með sér aukið vald einstakra sveitarstjórna?

Herra forseti. Ég beini eftirfarandi spurningum til hæstv. samgrh.

Fyrri spurningin er: Kemur til greina að byggja upp núverandi Borgarfjarðarbraut þar sem hún nú er frá og með brú á Flókadalsá að Kleppjárnsreykjum? Vegstæði 1 er í algerri andstöðu við íbúa Flókadals og leiddi nærri því til þess að sameiningartillagan sem um voru greidd atkvæði um síðustu helgi yrði felld. Vill hæstv. ráðherra beita sér fyrir þeirri lausn?

Seinni spurningin er, herra forseti: Er viðunandi fyrir æðsta vald samgöngumála að stjórnsýslukerfið geti komið í veg fyrir nauðsynlegar vegbætur eins og í þessu tilviki? Væri ekki betra að þeir fjármunir sem þarna hafa verið geymdir árum saman væru nýttir til annars í kjördæminu?