Vinna í nefndum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 10:35:30 (4884)

1998-03-19 10:35:30# 122. lþ. 91.91 fundur 265#B vinna í nefndum# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef látið skrifa út þau þingmál sem hafa verið lögð fram af ríkisstjórninni síðan 3. mars og í gær var 18. mars þegar væntanlega síðasta málið kom. Þetta eru 28 mál og flest þeirra hafa kannski komið fram eins og ég sé á einu blaðinu, ein 19 þeirra bara frá 10. mars. Það er merkilegt til þess að hugsa að af þessum 19 málum sem lögð voru fram eftir 10. mars var þorri þeirra afgreiddur með hraði til efh.- og viðskn. í fyrrakvöld af því að nefndin var að halda sérstakan fund, heils dags fund og rúmlega það um venjuleg þingmál. Herra forseti. Ég tek það sérstaklega fram vegna þess að það hefur gerst á hverjum vetri að efh.- og viðskn. hefur haldið sérstakan langan dagsfund um sérstök afmörkuð þung mál sem hefur blasað við að kæmu til hennar eins og lífeyrissjóðamál. En nú var verið að taka rispuvinnu í málum sem rétt eru komin inn í þingið og eru komin til nefndar.

Þegar maður lítur yfir listann er augljóst að stefnt er að því að þessi mál komist til nefndar og verði afgreidd sem þingmál í vor og því blasir við, virðulegi forseti, að það eru líklega um 80--100 mál í nefndum þingsins á ferðinni sem menn gera sér vonir um að verði afgreidd þaðan út og gerð að lögum í vor. Auðvitað eru það engin vinnubrögð af ráðherrunum að koma með öll þessi frv. sem þeir vilja fá afgreidd undir vorið og það þarf að breyta þeim vinnubrögðum. Það hefur verið mjög góð samstaða þingflokksformanna og forseta að halda starfsáætlun, búa til starfsáætlun fyrir veturinn og halda hana. En nú er allt í uppnámi. Verið er að ræða um að ljúka þinginu hugsanlega 22. apríl. Nefndirnar eru farnar að athafna sig eins og þær séu komnar í lokarispu fyrir jól eða vor af því að það er búið að gefa út þá mynd að nú eigi að hætta fyrr. Þó má vel vera að þrátt fyrir svokallaða þéttingu þingdaga verðum við eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir, en miðað við það eru þessi vinnubrögð algerlega óviðunandi, herra forseti, og ég óska eftir því að við getum tekið upp þá góðu samvinnu sem ríkt hefur milli þingflokksformanna og forseta um að koma okkur saman um hvernig sé staðið að vinnunni í þinginu en lendum ekki inni í þeirri bendu sem nú er að gerast.