Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 12:02:40 (4916)

1998-03-19 12:02:40# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SP
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[12:02]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir tillöguna og greinargerðina sem henni fylgir. Það er mikið fagnaðarefni að stækkun Atlantshafsbandalagsins í austurátt sé loks að verða að veruleika en árum saman hefur bandalagið stuðlað að auknum og bættum samskiptum við ríki Mið- og Austur-Evrópu og það á ekki einungis við um þau þrjú ríki sem nú hefur verið boðin aðild, Pólland, Tékkland og Ungverjaland.

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði í ræðu sinni að um mjög stórt mál væri að ræða og það er vissulega alveg rétt. En ég er ekki sammála honum um að þessu máli fylgi aukin ófriðarhætta, þvert á móti. Hér er verið að treysta nýtt öryggisfyrirkomulag í Evrópu og þjóðir Mið- og Austur-Evrópu vilja auðvitað taka þátt í því verkefni til að efla enn frekar þá lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í þessum löndum. Þetta eru óskir frá frjálsum ríkjum og verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu hv. þm. Alþb. munu taka í málinu hér á hinu háa Alþingi. Það kom fram í andsvörum þeirra áðan að þeir hafa verið að ræða um og skilgreina hugtök en ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að þetta eru sjálfstæð ríki sem hafa fullt frelsi til að óska eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Eins og fram kemur í greinargerð þáltill. hæstv. utanrrh. hefur Atlantshafsbandalagið á undanförnum árum lagað sig að breyttum aðstæðum í evrópskum öryggismálum og fjölþættari viðfangsefnum. Má þar telja Evró-Atlantshafssamvinnuráðið, friðarsamstarfið, samstarfsráð bandalagsins og Rússlands og samstarfsnefnd bandalagsins og Úkraínu. Þá hafa tvíhliða samskipti bandalagsins verið efld við önnur ríki sem lýst hafa áhuga á aðild, að ógleymdri þeirri stækkun bandalagsins sem stendur nú fyrir dyrum. Á leiðtogafundi bandalagsins í júlí sl. var enn fremur skýrt tekið fram að dyr bandalagsins stæðu áfram opnar lýðræðisríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Þrátt fyrir endalok kalda stríðsins eru öryggis- og varnarmál enn gífurlega mikilvægur málaflokkur í evrópskum stjórnmálum. Ógnir við öryggi álfunnar geta stafað af þjóðernisátökum, útbreiðslu gereyðingarvopna, skipulagðri glæpastarfsemi, umhverfisvá og þannig mætti lengi telja. Einungis með virku samstarfi sín á milli geta ríki Evrópu tryggt öryggi og frið í álfunni. Nýtt öryggisfyrirkomulag álfunnar er enn í mótun þar sem ólíkar fjölþjóðastofnanir vinna saman að tryggingu öryggis og friðar. Ég vil þó í þessu sambandi leggja áherslu á áframhaldandi grundvallarmikilvægi Atlantshafsbandalagsins. Bandalagið er eina stofnunin í evrópskum öryggismálum sem hefur reynst fær um að koma á og viðhalda friði í Bosníu-Hersegovínu enda er Atlantshafsbandalagið helsti vettvangur náinnar samvinnu ríkja Evrópu og Norður-Ameríku í öryggis- og varnarmálum. Atlantshafsbandalagið bindur saman hagsmuni Evrópu og Norður-Ameríku og á vettvangi bandalagsins mynda stjórnvöld þessara ríkja náin tengsl sem leggja ber áherslu á að viðhalda og rækta. Alls sækjast nú tólf ríki eftir aðild að bandalaginu sem þau telja öðru fremur geta tryggt öryggi sitt, stuðlað að stöðugleika í álfunni og stutt við bakið á þróun lýðræðis og eflingu mannréttinda.

Sem formaður Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins langar mig að geta þess að öll viðkomandi ríki hafa árum saman haft aukaaðild að þinginu. Norður-Atlantshafsþingið hefur á undanförnum árum haft frumkvæði að nánum samskiptum við þjóðþing fyrrum aðildarríkja Varsjárbandalagsins, þar á meðal rússneska þingið. Á haustfundi Norður-Atlantshafsþingsins í London, árið 1987 var ákveðið að reyna að koma á nánu samstarfi við þjóðþing umræddra ríkja og árið 1990 gerðust fimm þeirra aukaaðilar að Norður-Atlantshafsþinginu, þar á meðal rússneska þingið. Í dag eiga þjóðþing 15 ríkja Mið- og Austur-Evrópu aukaaðild að Norður-Atlantshafsþinginu og hafa fulltrúar þeirra verið virkir í störfum þingsins. Það er trú mín að þessi tengsl hafi m.a. orðið til að efla gagnkvæmt traust, ekki síst hvað varðar Rússland og Úkraínu. Því kom ekki á óvart að í fyrrnefndum samstarfssamningum sem Atlantshafsbandalagið hefur nýverið gert við Rússland og Úkraínu er þess sérstaklega farið á leit við Norður-Atlantshafsþingið að það stuðli áfram að nánum samskiptum við þjóðþing viðkomandi ríkja og jafnvel að það efli þau enn frekar.

Virðulegi forseti. Á vettvangi Norður-Atlantshafs\-þings\-ins hef ég og félagar mínir ítrekað tekið þátt í að álykta með stækkun Atlantshafsbandalagsins í austurátt. Þar hafa sumir raunar viljað stíga stærri skref en aðrir en Íslandsdeildin hefur lagt áherslu á að ekki mætti færast of mikið í fang í senn, heldur bæri að fara með gát að stækkun. Bandalagið þarf svigrúm til að laga sig að auknum fjölda aðildarríkja og með því að fara varlega í sakirnar verður hægara um vik en ella að halda stækkun bandalagsins áfram.

Í greinargerð með tillögunni er lýst markmiðum stækkunar Atlantshafsbandalagsins og þróun sem á sér stað í þeim efnum. Þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:

,,Af hálfu Atlantshafsbandalagsins hefur ávallt verið lögð áhersla á að fyrirhuguð stækkun leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu og komi til með að styrkja enn frekar þá lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í ríkjunum þremur. Bandalagið hefur jafnframt ítrekað að stækkunin sé eingöngu einn liður í margþættri viðleitni þess til að stuðla að auknum stöðugleika og öryggi í Evrópu.``

Enn fremur segir í greinargerðinni:

,,Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madrid 8. og 9. júlí 1997 var ákveðið að bjóða Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi að hefja aðildarviðræður við bandalagið. Jafnframt var ítrekað að bandalagið yrði áfram opið lýðræðisríkjum í Evrópu sem gætu stuðlað að framkvæmd markmiða Norður-Atlantshafssamningsins óháð landfræðilegri legu. Hvað varðar önnur umsóknarríki var sérstaklega getið þróunar í átt til lýðræðis og réttarríkis í Rúmeníu og Slóveníu og árangurs í eflingu stöðugleika og samvinnu ríkja á Eystrasaltssvæðinu.``

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði einmitt stöðu Eystrasaltsríkjanna að umræðuefni í þessu sambandi hér áðan, og ræddi sérstaklega um aðstoð og stuðning Íslands og að afstaða ríkisstjórnarinnar til stækkunar NATO hafi bætt stöðu þeirra í þessu sambandi. Þetta er að sjálfsögðu allt ákaflega mikilvægt að hafa í huga og ljóst að stór verkefni eru fram undan í þessu sambandi eins og hæstv. utanrrh. fjallaði um í framsögu sinni.

Virðulegi forseti. Atlantshafsbandalagið hefur brugðist við áskorunum sem það hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum af framsýni. Mér er því sérstök ánægja að lýsa stuðningi mínum við þá tillögu sem hér er til umfjöllunar um aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands að Atlantshafsbandalaginu.