Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 13:57:41 (4920)

1998-03-19 13:57:41# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[13:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur Jóhann frá Gunnarsstöðum gerir mér þann heiður að rifja upp ræðu sem ég flutti í fyrra. Hann telur að í þeirri ræðu hafi ég farið fram með verðskuldaða ádeilu á hæstv. utanrrh. en nú hlaði ég hann hins vegar óverðskulduðu lofi.

Það er rétt að í fyrra og hittiðfyrra deildi ég talsvert hart á ríkisstjórnina og kannski einkum á hæstv. utanrrh. fyrir það sem mér fannst ekki vera nægileg eftirfylgja við málstað Eystrasaltsþjóðanna. Ég lýsti því hins vegar í ræðu minni fyrr í dag að þegar til fundarins í Madrid kom þá stóðu Íslendingar mjög fast að baki Eystrasaltsþjóðunum. Ég ætla ekki að halda því fram að ræða mín hafi skipt einhverju máli um það en hins vegar kom fram mjög eindreginn vilji í þinginu í þá veru að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. gerðu það. Ég sagði það einfaldlega sem mér fannst mála sannast, að ríkisstjórn Íslands hefði haldið vel á hlut Eystrasaltsríkjanna í þessu máli. Ég held að a.m.k. hafi ríkisstjórn Íslands átt einhvern hlut að því að Eystrasaltsþjóðirnar voru sérstaklega nefndar sem væntanlegir eða mögulegir kandídatar í framtíðinni.

Ég gleðst hins vegar yfir því að það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon finnur nú helst að öllu þessu máli sé að tiltekin þrjú ríki, hann á þá væntanlega við Eystrasaltsríkin, hafi verið skilin frá. Ég lít svo á að hv. þm. sé með þessu að lýsa stuðningi við viðleitni þeirra og þjóðanna sem einhuga eru að baki ríkisstjórnum sínum í að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það er ein þeirra röksemda sem hann hefur beitt í dag.