Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 16:33:40 (4957)

1998-03-19 16:33:40# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[16:33]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og um bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Þetta er 8. mál þingsins á þskj. 8 og flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Kristín Halldórsdóttir og Margrét Frímannsdóttir.

Herra forseti. Þetta frv. mun vera endurflutt í fimmta sinn hér með, eða hvort það er sjötta, mig brestur nú minni til að muna það, en það er ljóst að þetta frv. hefur verið á dagskrá af og til allt frá árunum 1984--1985 eða 1985--1986 þegar það kom fyrst fram. Það hefur í raun verið flutt að mestu leyti óbreytt, nema hvað það var lagfært lítillega í fyrsta eða öðrum endurflutningi í samræmi við þróun sem þá hafði orðið á því sviði sem hér á við. Hefur þá sérstaklega verið haft mið af löggjöf um friðlýsingu Nýja-Sjálands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Þegar 1. flm. samdi þetta frv. hafði hann til hliðsjónar drög að frv. eða frumvarpsuppkast sem þá lá fyrir nýsjálenska þinginu, flutt af þáv. forsætisráðherra Nýja-Sjálands, David Lange, sem síðar var lögfest eins og frægt varð og olli nokkrum deilum milli Nýsjálendinga og Bandaríkjamanna sem tóku því þunglega að löggjöfin hefti á einhvern hátt t.d. umferðarrétt bandarískra herskipa í nýsjálenskri lögsögu. Síðan er þó nokkurt vatn til sjávar runnið og nefndur David Lange hefur fyrir löngu látið af embætti sem forsætisráðherra Nýja-Sjálands en eftir stendur löggjöfin og er í gildi og reyndar hluti af víðtækara svæði sem nú er orðið viðurkennt kjarnorkuvopnalaust í Kyrrahafinu á grundvelli svonefnds Rarotonga-samnings um friðlýsingu Suður-Kyrrahafs.

Herra forseti. Að sjálfsögðu er hægt að vitna og vísa í fyrri framsöguræður og umræður sem orðið hafa um þetta frv. og kannski ekki ástæða til að hafa um það mörg orð hér og nú, a.m.k. ekki hvað varðar efni frv. og grundvallarupplýsingar í greinargerð sem eru kunnar og hefur verið farið yfir áður. Ég ætla því aðallega að fara lítillega yfir það sem ég tel vera nýjast í stöðu þessara mála. Ég ætla fyrst renna lauslega yfir uppsetningu mála í þessu frv. sem, eins og 1. gr. kveður á um, mundu ef að lögum yrði, gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað væri að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn. Sömuleiðis yrði umferð kjarnorkuknúinna farartækja bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.

Markmið laganna er eins og greint er frá í 2. gr. að gera íslenskt yfirráðasvæði að slíku kjarnorku- og eiturefnalausu svæði og afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar. Að dómi okkar flutningsmanna væri með því dregið úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland, og síðast en ekki síst stuðlað að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Í 3. gr. frv. eru hugtök skilgreind, eins og hvað sé átt við með hugtakinu ,,kjarnorkuvopn`` þ.e. sjálfa sprengjuna. Hvað sé átt við með ,,eiturefnavopn``, ,,hinu friðlýsta svæði`` o.sv.frv.

4. gr. leggur kvaðir á alla íslenska borgara og/eða einstaklinga sem hafa varanlegt dvalarleyfi á Íslandi um að undirgangast þær skyldur sem lögin fela í sér. Frv. er því bindandi bæði fyrir þjóðríkið, fyrir Ísland, en einnig fyrir borgara þess og leggur skyldur á Ísland og alla Íslendinga.

Í 5. til og með 13. gr. er nánar lýst þeim takmörkunum eða bannákvæðum sem frv. byggir á. Í 5. gr. er bann við staðsetningu kjarnorkuvopna, meðhöndlun eða geymslu þeirra. Í 6. gr. bann við flutningi, í 7. gr. tilraunabann sem segja má að þegar sé orðið að veruleika í formi alþjóðasamningsins sem Ísland hefur gerst aðili að, og svo á reyndar við um fleira af þessu tagi að það er að sumu leyti uppfyllt nú þegar í formi alþjóðlegra skuldbindinga, en að sjálfsögðu mundi ekki saka að það væri jafnframt undirstrikað í sjálfstæðri íslenskri löggjöf. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að kjarnorkufriðlýsingin sem slík ætti sem grundvallarregla að koma einnig inn í stjórnarskrá landsins.

8. og 9. gr. fjalla um eiturefnavopnin, 10. gr. um kjarnorkuknúin farartæki, og 11. gr. um kjarnorkuúrgang. 12. gr. hefur að geyma ákvæði sem nauðsynleg eru vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands, að heimilt sé að veita þær undanþágur sem okkur er skylt að gera vegna alþjóðaskuldbindinga og kveða t.d. á um rétt til frjálsrar gegnumferðar, friðsamlegrar umferðar utan 12 mílna marka ríkja og á alþjóðlegum siglingaleiðum.

Það var reyndar sambærilegt ákvæði sem bakaði nokkurn vanda við lagasetninguna á Nýja-Sjálandi þar sem sundið milli norður- og suðureyja Nýja-Sjálands er það mjótt að ekki er neitt svæði utan 12 mílna lögsögunnar. Þar varð því að reyna á rétt til alþjóðlegrar umferðar um sundið, þótt innan óumdeilanlegrar 12 mílna landhelgi Nýja-Sjálands væri.

13. gr. felur í sér algert bann við komu kafbáta, herskipa eða herloftfara inn fyrir 12 sjómílna land- eða lofthelgi Íslands eða heimsóknir slíkra farartækja til hafna eða flugvalla, nema óyggjandi teljist að í því felist ekki brot á friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Síðan er fjallað um það nánar hvernig fara skuli með mál í vafatilvikum.

14. gr. leggur þá skyldu á herðar stjórnvalda, og væntanlega fyrst og fremst utanrrh. í þessu tilviki, að afla hinu friðlýsta svæði viðurkenningar.

15. gr. er refsiákvæðagrein og 16. gr. kveður á um að lögin skuli heyra undir utanrrh. en utanrrh. geti haft samráð við aðra ráðherra um framkvæmd þeirra. Að síðustu fjallar síðan 17. gr. um gildistöku.

Eins og áður sagði, herra forseti, er þetta frv. endurflutt og hefur verið alllengi á dagskrá, sömuleiðis það mál sem það tekur til, þ.e. að treysta í sessi með lögum kjarnorkufriðlýsingu eða friðhelgi Íslands. Eins og mönnum er kunnugt er sú yfirlýsta stefna Íslands í gildi og undirstrikuð m.a. af sameiginlegri ályktun á Alþingi að hér skuli aldrei vera kjarnorkuvopn. Í fljótu bragði séð ætti það ekki að saka og ekki valda í sjálfu sér miklum vandkvæðum þótt ákveðið yrði að festa þá stefnu enn frekar en ella í lögum, en því miður hafa menn reist andstöðu við þetta mál, mér að vísu af illskiljanlegum ástæðum, og þá aðallega þeim að það brjóti í bága við skuldbindingar okkar og aðild að NATO. Því miður virðist það vera svo að menn taki þær skuldbindingar fram yfir að svo miklu leyti sem þær rekast á við rétt okkar til að ákveða sjálfstætt að við viljum að allt íslenskt yfirráðasvæði sé óumdeilanlega og með tryggilegum hætti kjarnorku- og eiturefnalaust og friðlýst fyrir slíku.

Það skal tekið fram, herra forseti, að framsetning þessa máls er eftir því sem höfundur gat framast tryggt á þann veg að hún er í samræmi við þau alþjóðlegu kjarnorkufriðlýstu svæði sem fyrir hendi eru í dag, eins og Tlatelolco-svæðið í Suður-Ameríku, og Rarotonga-samninginn um kjarnorkufriðlýsingu Suður-Kyrrahafsins. Þetta er í samræmi við þær hugmyndir sem mótaðar hafa verið og ræddar á Norðurlöndunum um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, þar á meðal í samræmi við samþykkt Norðurlandaráðs frá því 1989, ef ég man ártalið rétt, í Mariehamn á Álandseyjum þar sem ríkisstjórnum Norðurlandanna var falið að vinna að framgangi hugmyndarinnar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Ber auðvitað vel í veiði að spyrja hæstv. utanrrh. hvernig ríkisstjórn Íslands hafi að sínu leyti unnið að því máli sem Norðurlandaráð samþykkti að beina til ríkisstjórnanna að gera með þeirri ályktun á sínum tíma.

Það er auðvitað heilmikil þróun í gangi í þessum efnum, herra forseti, og þar ber kannski hæst og nýjast að umræður eru komnar verulega á skrið um að gera heila heimsálfu og þá aðra en Antarktíku, sem út af fyrir sig má segja að sé friðuð, að kjarnorkuvopnalausu svæði og þar á ég við Afríku. Það mál hefur verið á dagskrá, m.a. Einingarsamtaka Afríkuríkja, og ég veit ekki betur en að unnið sé áfram að því, án þess ég hafi af því alveg nýjar fréttir en ég kynnti mér það fyrir um ári síðan og þá var nokkur þróun orðin í því máli.

[16:45]

Í tengslum við þær miklu breytingar sem orðið hafa ekki síst í Evrópu og víðar auðvitað og borið hefur ítrekað á góma í Norðurlandaráði --- m.a. hafa öryggismál og utanríkismál orðið að föstum dagskrárlið í starfi Norðurlandaráðs og í norrænni samvinnu, þetta voru áður meira og minna bannorð --- þá lifir þar hugmyndin um kjarnorkufriðlýsingu góðu lífi. Umræður hafa verið talsverðar í Mið-Evrópu um þann möguleika, sem reyndar bar á góma í umræðum nokkru fyrr í dag þegar rædd var stækkun NATO, að menn ættu að nota tækifærið sem nú væri uppi í Evrópu og reyna að búa til kjarnorkufriðlýst svæði eða belti sem gæti hafist á Norðurlöndunum eða a.m.k. út frá hlutlausu ríkjunum á Norðurlöndunum, Svíþjóð og Finnlandi, og teygt sig niður eftir Evrópu og breikkað til beggja handa eftir því sem því væri unnið fylgi. Þannig mætti vísa til umræðna víða, herra forseti, um þessi mál.

Herra forseti. Ég er ekki í neinum vafa um að frv. sem hér er flutt eða stefnumótun í þá veru nýtur mikils stuðnings á Íslandi. Ég gæti fært fyrir því ýmis rök. Það hefur reyndar komið fram t.d. í skoðanakönnunum. Ég get nefnt það líka, herra forseti, að ég hef fengið heilmiklar stuðningsyfirlýsingar við þetta frv., þar á meðal þúsundir undirskrifta sem væri við hæfi að afhenda virðulegum forseta Alþingis við tækifæri. Þær voru mér afhentar fyrir um ári síðan og áhugasamt fólk, ekki síst ungt fólk í landinu, hafði tekið sig til og safnað þeim máli þessu til stuðnings. Ég held að það sé í samræmi við okkar hefð og arfleifð sem vopnlausrar smáþjóðar að við viljum gjarnan ganga eins tryggilega frá því og við getum og í okkar valdi stendur að land okkar sé ekki notað eða misnotað með því að vopn eða ófögnuður af þessu tagi, eins og kjarnorkuvopn og eiturefnavopn eru, komi inn í okkar lögsögu.

Herra forseti. Í nágrannalöndum okkar, t.d. á Grænlandi og í grænlenskum stjórnmálum, hafa líka orðið atburðir sem hafa vakið athygli á Íslandi og minna okkur því miður á að ástæða getur verið til þess fyrir okkur að taka með varúð því sem að okkur er rétt af kjarnorkuveldunum og trúa ekki öllu án eigin gagnrýnnar skoðunar sem af þeirra hálfu er haldið fram.

Síðast en ekki síst, herra forseti, þá er það auðvitað svo að fáar þjóðir ef nokkrar eiga meira í húfi en einmitt við Íslendingar að bægja þessum ófögnuði frá okkar ströndum og yfirráðasvæði, þ.e. umferð kjarnorkuknúinna farartækja eða umferð kjarnorkuvígtóla sem hér fara um. Við erum af og til minnt á það í fréttum að á hafsbotninum bæði norðan við land og sunnan við land, liggja og ryðga sundur kjarnorkuknúnir og kjarnorkuvopnaðir kafbátar sem stórveldin hafa verið með og hafa sokkið og eru í raun eins og tifandi tímasprengjur hvað það varðar, ef illa fer, að geislamengun hafsins getur aukist frá því sem nú er.

Herra forseti. Ég bind kannski ekki miklar vonir við að þetta frv. nái fram að ganga og verði að lögum á þessu þingi, bæði í ljósi reynslunnar því að þegar hafa nokkur tilhlaup verið að því gerð og eins hefur svo óheppilega tekist til á þessu þingi að þrátt fyrir að þetta væri eitt af fyrstu málum þingsins þá er verið að mæla fyrst fyrir því hér og nú þegar komið er fram yfir miðjan marsmánuð, og eru auðvitað nokkur vonbrigði að svo skuli hafa tekist til. Ég er samt sem áður bjartsýnismaður og eljumaður og mun halda áfram að halda þessu máli hér á lofti og endurflytja frv. eftir þörfum. Það getur vel verið að ég plagi menn með því að sitja býsna lengi á þingi enn þó ekki væri nema bara til þess að geta endurflutt þetta frv. og haldið þessu máli vakandi því að ég hef þá trú að, eins og hér var sagt fyrr í dag, að dropinn holi steininn og það kunni að gerast fyrr en ýmsa varir að menn taki ekki gamalkunnar klisjur og málflutning um þetta efni sem sjálfgefinn og að sú tíð kunni að koma í landinu að upp rísi t.d. ungt fólk og ákveði einn góðan veðurdag að kjarnorkufriðlýsa Ísland og hafi þá til þess afl að gera það. Ég á mér a.m.k. þann draum og þá framtíðarsýn að ekki verði margir áratugir liðnir af næstu öld áður en ekki bara Ísland heldur öll Norðurlönd og helst sem stærstur hluti heimsins verði laus við þann ófögnuð og þá ógnun við allt líf á jörðinni sem kjarnorkuvopnin og tilvist þeirra eru. Ég get í sjálfu sér ekki trúað því, herra forseti, að neinn hugsandi maður eigi sér aðra framtíðarsýn en þá að heimurinn verði að lokum án þessara vopna. Það liggur nánast í hlutarins eðli að allir réttsýnir og sanngjarnir menn hljóta að hugsa sér framtíðina þannig að við reynum að gæta öryggis í heiminum einhvern veginn öðruvísi en hlaða upp tortímingarvopnum með þeirri ógn sem því fylgir, þó ekki sé nema að hugsa til þess, að þau yrðu einhvern tíma notuð.

Við erum reyndar minnt á það af og til að því miður er heimurinn ekki þannig að tilefni sé til þess að við leyfum okkur að sofna á verðinum í þessum efnum. Ég læt mér nægja að vitna í fréttir sem einmitt þessa dagana eru að berast frá Indlandi um að ný ríkisstjórn þar hyggist nú stíga skrefið til fulls sem menn hafa reyndar lengi óttast og vitað að gæti verið í farvatninu, að Indverjar bætist sannanlega í hóp þeirra þjóða sem hafa komið sér upp kjarnorkuvopnum, með þeim afleiðingum að mjög líklegt er að sú þróun mundi breiðast út til fleiri landa í Asíu og hafa Pakistanar reyndar þegar aðeins látið skína í tennurnar í því sambandi.

Herra forseti. Það er því ekki þannig eins og kannski mætti ætla stundum, að málflutningur af því tagi sem hér er uppi hafður eða áhyggjur af þessu málefni séu óþarfar, því miður.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að lokinni þessari umræðu að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.