Samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 18:00:30 (4972)

1998-03-19 18:00:30# 122. lþ. 91.5 fundur 402. mál: #A samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum# þál., Flm. SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[18:00]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 723, 402. mál, um aukið samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að kanna möguleika aukins samstarfs Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum, þar á meðal á sviði veiðarfæranotkunar, vísindarannsókna, markaðssetningar og málflutnings um umhverfismál og fiskveiðar á alþjóðavettvangi.``

Sjálfbær nýting sjávarafurða er mikilvægt hagsmunamál Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna. Fiskveiðar hafa frá alda öðli verið órjúfanlegur hluti af menningu og lífi fólks í þessum löndum og þjóðirnar veiða að hluta úr sömu fiskstofnum. Samstarf um sjálfbæra nýtingu fiskstofna liggur því í hlutarins eðli. Þjóðirnar fjórar eru smáþjóðir á alþjóðlegum mælikvarða. Því hefur þeim reynst örðugt að koma málstað sínum á framfæri á alþjóðavettvangi, svo sem í sel- og hvalveiðum, og gildir þá einu hversu góðum rökum hann er studdur. Órökstuddur áróður fyrir banni við þorskveiðum í Norður-Atlantshafi hefur birst í auglýsingum erlendis. Auðveldara væri fyrir þjóðirnar að bregðast við slíku og sýna fram á sjálfbæra nýtingu auðlinda ef fiskveiðar væru stundaðar með svipuðum hætti í efnahags lögsögu landanna allra. Því er eðlilegt að þær starfi saman í auknum mæli.

Markmið samstarfs landanna fjögurra skulu vera eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að tryggja sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og verndun lífríkis sjávar með svipaðri fiskveiðistjórn sem tæki m.a. til veiðarfæranotkunar og vísindarannsókna.

Ég held að það sé samdóma álit flestra að stórefla þurfi vísindarannsóknir á fiskstofnunum. Að mínu mati væri mjög æskilegt að við hefðum svipaða fiskveiðistjórnun á þessu svæði. Hún er ekki eins í dag. Færeyjar eru með sóknarmark og við erum með kvótakerfi, fórum úr sóknarmarkinu. Það er að sjálfsögðu himinn og haf má segja sem skilur þar á milli en ég held að mjög æskilegt væri að þessar þjóðir skoði það að reyna að vera með veiðistjórn sem væri sambærilegri en hún er í dag og þá er ég að sjálfsögðu að vonast til þess að Færeyingarnir taki frekar upp annað kerfi en þeir nota núna.

Í öðru lagi ætti markmið samstarfsins að vera að bæta vígstöðu ríkjanna í baráttu gegn ofverndunarsjónarmiðum í sjávarútvegi, t.d. með samræmdum málflutningi á alþjóðavettvangi.

Og í þriðja lagi að vinna gegn mengun Norður-Atlantshafsins svo sem vegna úrgangs kjarnorkuendurvinnslustöðvar í Sellafield.

Það mál hefur talsvert verið rætt á samnorrænum vettvangi. Í Gautaborg 27. febrúar á þessu ári kom yfirlýsing frá umhverfisráðherrum þessara landa, samnorrænu landanna, og sendu þeir bréf til umhverfisráðherra Bretlands þar sem þeir lýstu miklum áhyggjum yfir mengun frá Sellafield. Þeir báðu Bretana um að stöðva þá mengun eins og hægt væri þangað til afleiðingar af slíkri mengun væru kunnar og menn hefðu skoðað betur að setja upp öflugri hreinsibúnað. Umhverfisráðherra Svíþjóðar, Anna Lindh, fór fyrir hópi umhverfisráðherra Norðurlandanna og sagði í yfirlýsingu sinni að sjávarsvæðið í Norður-Atlantshafi væri viðkvæmt fyrir mengun og Bretarnir ættu að taka tillit til þess.

OSPAR-samningurinn er líka mál sem kemur upp í hugann þegar maður ræðir mengun í hafi. Í Morgunblaðinu í morgun er einmitt grein eftir hæstv. umhvrh. Þar er komið inn á Sellafield og þar segir, með leyfi forseta:

,,Ákvæði samningsins eins og þau eru nú munu ein og sér ekki koma í veg fyrir t.d. losun teknesíums frá Sellafield-verinu, sem verið hefur í fréttum undanfarna mánuði, en þau leggja þá kvöð á bresk stjórnvöld að sýna fram á að hún sé hættulaus fyrir umhverfið og munu auka enn þrýsting á að stöðva þessa losun, þar sem samningurinn er vettvangur umræðna og sameiginlegra ákvarðana um umhverfismál.``

Hér er um við að taka jákvætt skref með þessum OSPAR-samningi líka.

Í fjórða lagi tel ég að markmiðið með samstarfi þessara fjögurra landa, Grænlands, Íslands, Færeyja og Noregs ætti að vera að fjölga sóknarfærum í markaðssetningu á sjávarafurðum, t.d. með vísan í hreinleika afurðar og umhverfisvæna nýtingu auðlindarinnar í Norður-Atlantshafi. Þetta hefur einnig verið að einhverjum hluta skoðað á samnorrænum vettvangi en norræna ráðherranefndin hefur skipulagt upplýsingaherferð sem heitir Græna bylgjan. Markmiðið með henni er að upplýsa annars vegar almenning á Norðurlöndum um sjávarútveg og tengsl sjávarútvegsins við umhverfið og hins vegar, sem er alls ekki síðri tilgangur, á þessi upplýsingaherferð að upplýsa fólk á helstu markaðssvæðum okkar sjávarútvegs, þ.e. fólkið sem kaupir fiskinn. Þetta er m.a. gert vegna þess að ýmsir aðilar hafa verið með upplýsingar um rányrkju á fiskveiðum víða um heim en þar eru samtök svo sem Unilever og World Wildlife Fund sem hafa mest haft afskipti af þeim málum og þessi samtök eru í dag að undirbúa eins konar umhverfismerkingar eða einhvers konar gæðastimpil á fisk sem er veiddur með sjálfbærum aðferðum. Með slíkum merkingum ættu neytendur að geta haft áhrif á þau ríki sem stunda fiskveiðar og þvinga þau til að stunda sjálfbærar veiðar.

Það er hins vegar áhyggjuefni ef þessi samtök, World Wildlife Fund og Unilever, ákveða einhliða hvernig að slíkum umhverfismerkingum eigi að standa þar sem þessi samtök hafa verið mjög misvísandi í málflutningi sínum í sambandi við ofveiði. Af þessum sökum hefur hópur á vegum norrænu ráðherranefndarinnar verið settur á stofn til að skoða möguleika á umhverfismerkingum á sjávarfangi og eftir hvaða reglum ætti þá að fara og hvaða skilyrði um sjávarfang ætti að uppfylla til að geta fengið þessa merkingu. Þetta mál hefur í gegnum þann vettvang verið tekið upp við FAO, Alþjóða matvæla- og landbúnaðarstofnunina en fékk, að mér skilst, eitthvað dræmar viðtökur þar.

Varðandi þessa upplýsingaherferð, Grænu bylgjuna, sem Norðurlöndin standa að er ágætt að koma því á framfæri hérna að sú herferð er að hefjast og til stendur að fara í víðtæka skoðanakönnun um viðhorf til fiskveiða og tengsl þeirra við sjálfbæra þróun. Spyrja á fjölda manns m.a. í einhverju hinna norrænu ríkja sem stunda fiskveiðar. Ég veit ekki hvort búið er að ákveða hvort gera á það hér á Íslandi en ég vona það. Einnig á að spyrja fólk í markaðslöndunum. Þessi könnun á að kosta 4 millj. íslenskra króna en nú þegar er búið að nota 8 millj. í undirbúning þessarar herferðar, Grænu bylgjunnar. Stefnt er að því að fjármagn komi utan frá í þessa herferð frá svokölluðum ,,sponsurum`` og fé verði einnig tekið af norrænu fjárlögunum á næsta ári býst ég við.

Þótt Íslendingar, Færeyingar, Grænlendingar og Norðmenn séu vissulega smáþjóðir á alþjóðlegan mælikvarða, þá nær sameiginleg efnahagslögsaga þeirra yfir stóran hluta Norður-Atlantshafsins þannig að staða þeirra í umhverfismálum er mun veigameiri en stærð þjóðanna gefur til kynna. Með því að auka samstarf í fiskveiðimálum mundu þessi fjögur lönd sýna umheiminum og umhverfisverndarsamtökum að markmið sjálfbærrar þróunar og hagsmunir fiskveiðiþjóða geta og eiga að fara saman. Það væri því mun auðveldara að útskýra fyrir alþjóðasamfélaginu hvaða fyrirkomulag við höfum á veiðunum, að þær séu sjálfbærar og byggt sé á vísindalegri ráðgjöf. Samstarfið væri líka gott fordæmi fyrir aðrar þjóðir eins og t.d. Evrópusambandsþjóðirnar sem löngum hafa átt í miklum erfiðleikum með fiskveiðistjórn og eftirlit. Þá yrði um leið tryggt að þessi sameiginlega rödd þjóðanna fjögurra mundi heyrast betur á alþjóðavettvangi en rödd hvers lands fyrir sig.

Ég ræddi á sínum tíma þessa hugmynd við nokkra aðila í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Það er eitt af því góða við norrænt samstarf að maður getur haft beinan aðgang að valdamönnum í hinum norrænu ríkjunum og ég tók þetta mál upp í andsvari við Edmund Johansen á síðasta þingi Norðurlandaráðs. Í svari hans kom fram að hann er nokkuð jákvæður gagnvart þessari hugmynd en hann er reyndar að fara frá núna eins og heyrst hefur í fréttum í dag og í gær. Ég tók þetta mál líka upp við Paaviaaraq Heilmann, sjávarútvegsráðherra Grænlands og einnig Peter Angelsen, sjávarútvegsráðherra Noregs. Hafa þessir aðilar lýst a.m.k. jákvæðum viðhorfum til aukins samstarfs að þessu leyti.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir þessari þáltill. Það er nú svo merkilegt að yfirleitt vill maður fá miklar umræður um tillögur sínar en ég á að vera mætt annars staðar kl. 6.30 og því miður verð ég að mæta þar, þannig að ég vona að ég fái einhver viðbrögð en að umræðum verði samt stillt í hóf.