Birting milliríkjasamninga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:07:42 (4988)

1998-03-23 15:07:42# 122. lþ. 92.1 fundur 266#B birting milliríkjasamninga# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:07]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra og ráðuneytinu hefur eiginlega verið komið í opna skjöldu varðandi þetta efni því að það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra hafi ekki meiri upplýsingar um mál sem er búið að vera í umræðu í þó nokkra daga áður en það kemur hér til umræðu, t.d. þannig að hann gæti gert Alþingi grein fyrir hvaða samningar hafi ekki hlotið gildi vegna þessa dráttar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Ætlar hann að upplýsa Alþingi um það? Þessi margra ára dráttur sem hefur komið fram er ámælisverður. Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Mun hann láta kanna sérstaklega hvort af þessu hafi hlotist fjárhagslegt tjón einstaklinga og fyrirtækja? Mér er alveg ljóst að ráðherrann veit það ekki frekar en annað um málið. En mun hann leggja sig í líma við að fá upplýsingar um þetta mjög svo sérstaka mál?