Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 18:47:35 (5172)

1998-03-25 18:47:35# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[18:47]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu síðasta hv. þm. Árna Mathiesens kom fram að hann hefði þær óskir fram að færa að ef miklir ágallar kæmu fram á frv. í hv. sjútvn. þar sem ég á sæti muni það væntanlega verða leitt til lykta þannig að báðir aðilar gætu orðið nokkuð sáttir. Það kom fram í máli hæstv. sjútvrh. í dag að meginlínurnar eru lagðar fram í þessum þremur frv. svo og í lagasetningunni sjálfri. Það hefur líka komið fram að menn hafi áhyggjur af mönnunarmálum um borð í skipum og óttist að þetta komi sjómönnum og sérstaklega útgerðarmönnum ekki til góða því að verið er að sporna við framþróun í tæknibúnaði skipanna. Því miður er ekki málið svona einfalt. Málið er það að allt of mörg slys verða um borð í fiskiskipum vegna mannfæðar og það er svo merkilegt að þegar gengið er þann veginn af hálfu útgerðar að fækka um borð í skipum þá sjást þeir oft ekki fyrir um hversu margir þurfa raunverulega að vera um borð. Dæmi eru um það að skipstjórinn er bæði að hugsa um að stjórna skipi og hífa upp tröllaukin veiðarfæri með miklum þunga í átökum í miklum sjó og fjórir til sex menn á dekkinu og alls ekki er fylgst með hvernig þarna er staðið að eða unnið. Hvergi er meiri slysatíðni en meðal sjómanna, fiskimanna.