Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 17:16:08 (5210)

1998-03-27 17:16:08# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, Frsm. 1. minni hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta sjútvn. við frv. til laga um Kvótaþing, 606. mál, nál. er á þskj. 1061 og brtt. 1. minni hlutans á þskj. 1062. Í nál. kemur fram að nefndin hefur kynnt sér málið og m.a. fengið á sinn fund ýmsa aðila sem þurfa undir að búa eða koma að framkvæmd þegar frv. verður að lögum eða hafa komið að undirbúningi frv. Auk þess bárust nefndinni umsagnir frá Vinnslustöðinni hf., Lýsingu hf. og SP-fjármögnun.

Áður en ég geri grein fyrir einstökum tillögum 1. minni hluta vil ég taka fram vegna þessa máls að það sem mest skilur á milli nefndarmanna, ekki síst nefndarmanna sem hafa skipað meiri hluta nefndarinnar, er að hér er á ferðinni það þingmál af þeim fjórum sem við ræðum í dag, sem virðist líklegast til að hafa afdrifaríkust áhrif, ásamt ákvæðunum í brtt. við lögin um stjórn fiskveiða, á möguleika útgerða, sérstaklega hinna smærri útgerðarfyrirtækja til að ná fram hagræðingu í starfsemi sinni. Það er alveg ljóst að ef svo fer fram sem menn álíta og hafa haft af miklar áhyggjur, að afkomumöguleikar þessara fyrirtækja verði miklu verri, verða bein áhrif á sama veg á tekjumöguleika þeirra sjómanna sem hjá þeim starfa. Ekki einasta mun það hafa áhrif á tekjumöguleika sjómanna og útgerðarfyrirtækjanna, heldur leiðir það aftur til þess að útgerðarfyrirtækin verða að verja minni fjármunum en ella hefði verið til viðhalds á skipum sínum, tækjabúnaði eða til endurbóta eða endurnýjunar skipanna. Það mun aftur leiða til alvarlegra áhrifa á aðrar starfsgreinar í þjóðfélaginu og um allt það samfélag sem hver útgerð starfar í þegar þær þurfa að draga verulega saman aðkeypta þjónustu til reksturs síns. Það er líka líklegt, herra forseti, að með skerðingunum á framsalsrétti veiðiheimilda muni það verða til þess að fyrirtæki sem fram að þessu hafa stundað veiðar utan lögsögunnar í einhverjum mæli verði af þeim ástæðum að draga að sér hendina í þeirri sókn og þá fara menn að sjá jafnvel enn þá meiri áhrif á þau verðmæti sem útgerðirnar draga í þjóðarbúið.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við þurfum að ganga mjög varlega um þær dyr og ég get ekki talið að með þessum aðgerðum sé gengið um gleðinnar dyr, síður en svo. Ég tel rétt að geta þess aftur að það hversu mjög skilur milli nefndarmanna, eftir að hafa kynnt sér þessi mál mjög vel, er merki um hversu réttmætt það er að hafa fullar áhyggjur af þeim áhrifum og afleiðingum sem munu fylgja í kjölfar þessarar löggjafar.

Vík ég þá að þeim tillögum sem 1. minni hluti leggur til við þetta mál. Hann vill fyrst taka fram að viðmælendur nefndarinnar létu í ljósi þungar áhyggjur yfir þeim alvarlegu afleiðingum sem ákvæði frv. valda með takmörkunum sínum á möguleika útgerða til að flytja aflamark milli skipa og hagræða þannig veiðiheimildum sínum. Einn nefndarmanna, sem skipar þennan 1. minni hluta, telur að veita ætti frekari undanþágu frá skyldu til að byggja færslu aflamarks milli skipa á viðskiptum á Kvótaþingi og gerði hann fyrirvara um þetta atriði, eins og kemur fram við undirritun nál.

Þá kom fram í nefndinni sú skoðun að lagfæra þurfi þau ákvæði frv. sem varða framkvæmd viðskiptanna á Kvótaþinginu þannig að þau verði þjálli og jafnframt verði gætt fyllsta öryggis, en það orð að viðskiptin geti orðið þjálli felur jafnframt í sér að þeir sem vilja eiga slík viðskipti þurfi ekki að mæta eða senda gögn í fleiri en eina stofnun sem um á að fjalla.

Mér þykir það sjálfsögð aðgerð til að gera mönnum auðveldara að búa við lög og reglur, að þeir geti lagt fram sín erindi við opinbera aðila og þá sem eru að lögum sem skyldumarkaðir fyrir viðskipti þeirra. Slík erindi gætu komið fram á einum stað og fengju þar alla umfjöllun sem þyrfti. Þar gætu menn lokið viðskiptunum og þyrftu ekki að leita annað.

Í þessu efni telur 1. minni hluti nauðsynlegt að á næstu mánuðum, við undirbúning að framkvæmd laganna, verði ákvæði þeirra grandskoðuð með tilliti til þessa. Þá leggur 1. minni hlutinn til að frv. verði samþykkt með breytingum sem koma fram á sérstöku þskj. sem ég hef áður nefnt, þskj. 1062, en í þeim felst í fyrsta lagi að lagt er til að viðurlagaákvæði 18. gr. verði breytt verulega og ekki verði um að ræða þær refsingar sem frv. gerir ráð fyrir heldur verði seljanda gefinn kostur á að afhenda hið selda en jafnframt er opnað fyrir heimild til að útiloka slíkan seljanda frá frekari viðskiptum á Kvótaþingi, nema að fullnægðum tilteknum og tiltölulega þungum skilyrðum. Til slíkra útilokana yrði þó vart gripið nema brotið væri sýnilega framið af ásetningi eða ef um ítrekuð brot væri að ræða.

Þá er lagt til að bætt verði við frv. ákvæði til bráðabirgða, líkt og ég hef gert grein fyrir varðandi tvö önnur frv. hér á undan, en það leggur þá skyldu á herðar sjútvrh. að leggja fyrir Alþingi skýrslu fyrir árslok 1999 þar sem gerð verði grein fyrir áhrifum þeirra breytinga sem frv. felur í sér á íslenskan sjávarútveg og sérstaklega hvað varðar stöðu og möguleika einstaklingsútgerðar. Lagt er til að sambærilegu bráðabirgðaákvæði verði einnig bætt við hin fyrrnefndu þingmál.