Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:57:13 (5360)

1998-03-31 19:57:13# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Fram komu tvær spurningar og önnur vegna Leifsstöðvar. Það er allt í fullum gangi með undirbúning að fyrsta áfanga í stækkun Leifsstöðvar sem er reiknað með að kosti 1.100 millj. og framkvæmdir geti hafist síðla sumars eða næsta haust. Gert er ráð fyrir því á lánsfjárlögum þannig að þar hefur engin breyting orðið á.

Hvað varðar VES þá hefur stefna Íslands ekkert breyst í þeim efnum. Við höfum skilið það þannig og ég held að það sé ótvírætt að engin þjóð getur orðið fullgildur aðili að VES nema vera í Evrópusambandinu. Ég veit ekki til þess að því hafi verið breytt af hálfu Evrópusambandsins. Þjóðir sækja ekki um aðild að VES. Það er boðið til slíkrar aðildar og mér vitanlega hefur ekkert slíkt boð komið til Íslands, Noregs eða Tyrklands.

Ég vildi, herra forseti, aðeins að lokum vegna þess að tíminn er naumur, þakka fyrir ágæta umræðu um utanríkismál, þakka fyrir hlý orð í garð utanríkisþjónustunnar. Ég vil jafnframt þakka fyrir málefnalega gagnrýni sem hér hefur komið fram og ég tek undir þau sjónarmið að að sjálfsögðu er nauðsynlegt að ræða allar hliðar utanríkismálanna og það er okkur sem starfa í utanríkisþjónustunni nauðsynlegt að heyra þær raddir. Í mörgum tilvikum verður það til þess að við tökum mið af þeim og breytum okkar áherslum. Hins vegar er alveg ljóst að lýðræðisleg umræða verður ekkert ávallt til þess að menn fallist á allt sem sagt er, en slík umræða er nauðsynleg í lýðfrjálsu landi.