1998-03-31 20:04:28# 122. lþ. 100.11 fundur 617. mál: #A samningur milli Grænlands og Íslands um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[20:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hér aðeins til að fagna því að þessi samningur hefur tekist milli Íslands og Grænlands um gagnkvæmar heimildir til fiskveiða innan lögsögu. Þetta munu vera nokkur tímamót í samskiptum þessara ríkja þó sambærilegir samningar milli Íslands og Færeyja eigi sér alllanga sögu. Þetta er liður í ákaflega jákvæðri þróun núna síðustu missirin í samskiptum Íslands og Grænlands. Mér er jafnframt kunnugt um að í undirbúningi er almennari rammasamningur um samstarf okkar á þessu sviði. Því ber sérstaklega að fagna vegna þess að allmörg óleyst samskiptamál hafa verið í samskiptum Íslendinga og Grænlendinga á sviði fiskveiða. Enn er ólokið samningum um nokkra sameiginlega fiskstofna á hafsvæðinu milli landanna.

Ég fagna því sérstaklega að þróunin í samskiptum þessara landa skuli vera svo jákvæð og það hefur þegar skilað sér í verðmætri samstöðu Íslands og Grænlands. Þar nefni ég t.d. samstöðu þjóðanna um samninga um fiskveiðistjórnun og veiðikvóta á úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Eins hafa Ísland og Grænland sýnt samstöðu í viðræðum um loðnusamninga milli Íslands, Grænlands og Noregs að undanförnu.