1998-04-06 15:04:44# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[15:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Staða Alþingis varðandi það mál sem hér er rætt er erfið. Sá vandi sem þingið stendur frammi fyrir er mikill. Hvað á að segja um það að slíkir atburðir skuli gerast, að framkvæmdarvaldið svarar spurningum þingmanna eins og hér um ræðir?

Spurningin er siðferðilegs eðlis fyrst og fremst. Henni verður ekki svarað með endurreiknuðum tölum eða ítarlegri gögnum um það hverjir hafi farið höndum um í Landsbanka Íslands. Spurningin er hvernig viðkomandi sem ábyrgð ber, í þessu tilviki hæstv. viðskrh., ætlar að bregðast við sjálfur. Þetta mál verður ekki hreinsað frá öðruvísi en að þeir sem ábyrgðina bera, hvort sem er að formi eða innihaldi, svari. Og það er eftir því svari sem þingið hlýtur að bíða og biðja um að verði veitt. Alþingi á það inni hjá framkvæmdarvaldinu að það svari af alvöru og þeir sem þar bera hina pólitísku ábyrgð geri hreint fyrir sínum dyrum, gagnvart sjálfum sér ekki síst, en jafnframt gagnvart Alþingi Íslendinga.