Starfsemi Umsýslustofnunar varnarmála

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:44:11 (5398)

1998-04-06 15:44:11# 122. lþ. 102.6 fundur 523. mál: #A starfsemi Umsýslustofnunar varnarmála# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, mér finnast þessi svör hálffátækleg. Það er svo sem ekki við öðru að búast vegna þess að niðurfelling aðflutningsgjalda af vöru sem herinn flytur inn og selur síðan í sinni verslun styðst við afar hæpna lagastoð. Svarið er hið sama annars vegar hjá hæstv. utanrrh. þegar spurt er um það hvort þetta standist samkeppnislög, og hins vegar þegar hæstv. fjmrh. er spurður um lagastoðina fyrir því að fella niður aðflutningsgjöld af vöru. Svarið er nákvæmlega hið sama. Þar er vísað í viðbæti við samninginn sem gerður var við herinn á sínum tíma.

[15:45]

Ef farið er yfir þessa viðbót lið fyrir lið, sem því miður ekki er tími til hér, þá er í raun og veru ekkert þar sem tekur af allan vafa varðandi samkeppnislögin og ekki heldur ákveðin lagaheimild fyrir því að fella niður aðflutningsgjöld af þeirri vöru sem seld er með þeim hætti sem gert er. Þarna er um að ræða, eins og ég kom inn á áðan, verslun með ýmsan varning, notaðan og sjálfsagt að einhverjum hluta nýjan sem herinn hefur ekki þörf fyrir og hefur flutt inn umfram þarfir sínar.

Ég mun, virðulegi forseti, leita eftir svörum við því annars staðar, bæði hjá Ríkisendurskoðun og Samkeppnisráði, hvort eðlilega sé staðið að málum hvað varðar þessa verslun, Sölu varnarliðseigna eða Umsýslustofnun varnarmála eins og hún heitir nú. Ég verð að sætta mig við að hæstv. fjmrh. hefur ekki önnur svör en þau sem hér hafa komið fram.

Ég vil, virðulegi forseti, nota tækifærið hér þar sem frést hefur að hæstv. ráðherra hafi þegar haldið kveðjuhóf og kvatt sína starfsfélaga, þó að við höfum ekki fengið neinar ábyrgar fréttir af því að hann sé að fara, að ef þetta yrði nú síðasta fyrirspurnin sem hann svaraði í sölum þingsins að þakka hæstv. ráðherra fyrir samstarfið á þessu sviði.