Reglugerð um geðrannsóknir

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:55:57 (5402)

1998-04-06 15:55:57# 122. lþ. 102.1 fundur 526. mál: #A reglugerð um geðrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í þeirri greinargerð sem ég nefndi áðan, sem byggð er á starfsemi réttargeðdeildarinnar á Sogni sl. fimm ár, kemur mjög skýrt fram að skilgreiningu vanti á geðrænu sakhæfi og ósakhæfi. Einnig hefur verið bent á að í öllum þeim löndum sem við miðum okkur við og líka þeim sem hæstv. ráðherra nefndi áðan hafi þeim sjúklingum sem dæmdir eru til réttargeðfræðilegrar meðferðar og vistunar fjölgað verulega. Það er m.a. vegna þess að þær þjóðir eru farnar að nota réttargeðlæknisfræðina miklu meira við afgreiðslu eða ákvörðun dóma en hér hefur verið gert, m.a. vegna þess að vistunarúrræði eru miklu fjölbreyttari en hér. Ég held að ástæða sé til að skoða það hvernig staðið er að þessu annars staðar og hvort ekki sé kominn tími til að við séum betur undir það búin að beita réttargeðfræðilegum úrræðum í meðferð og vistun afbrotamanna, hvort sem um er að ræða sakhæfa eða ósakhæfa.