Málefni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:31:44 (5438)

1998-04-06 17:31:44# 122. lþ. 102.10 fundur 575. mál: #A málefni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:31]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Það var ánægjulegt að í þessu tilviki var engin hætta á því að um villandi eða rangar upplýsingar væri að ræða þar sem svörin komu frá brjósti hæstv. ráðherra.

Ég tel einnig mjög mikilvægt að Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hafi bakstuðning viðskrh. á hverjum tíma til að sinna hlutverki sínu og ég tel að hæstv. ráðherra hafi afdráttarlaust veitt Samkeppnisstofnun og samkeppnisráði slíkan stuðning í svörum sínum. Það væri afar óheppilegt ef yfirvöld samkeppnismála störfuðu í einhverju tómarúmi hvað varðaði hið pólitíska bakland bæði löggjafans og framkvæmdarvaldsins. Það er Alþingi sem hefur sett samkeppnislögin og falið viðskrh. að hafa yfirumsjón með framkvæmd þeirra mála og með óbreyttum lögum er auðvitað mjög mikilvægt að það bresti ekki stuðning við að samkeppnisyfirvöld sinni hlutverki sínu en það er það sem þau eru að gera hér.

Ég tek síðan undir það að að mörgu leyti er eðlilegt að fyrirtækin sem eru stór á markaði í fákeppni, svo ekki sé sagt einokunaraðstöðu, væli þegar Samkeppnisstofnun er á ferðinni vegna þess að eðli málsins samkvæmt er líklegast að aðgerðir og ákvarðanir samkeppnisyfirvalda beinist einmitt að þessum aðilum. Það liggur í hlutarins eðli. Það veit á gott, það veit á að Samkeppnisstofnun er að störfum þar sem hún á að vera að störfum ef þessum aðilum er órótt.

Auðvitað er alveg ljóst að á Íslandi er mikið fákeppnisumhverfi á fjölmörgum sviðum viðskipta, samgöngum, flutningum, bönkum, tryggingafélögum, olíufélögum o.s.frv. og það verður að líta á þessi mál í því ljósi. Ég tel að löggjöfin hafi verið að þróast eðlilega og framkvæmdin verið að mótast og það séu engin tilefni til að rjúka upp og fara að breyta lögunum þó að umræður og jafnvel átök hafi orðið um einstaka úrskurði. Að sjálfsögðu er ekkert heilagt í þessum efnum, ekki lögin og ekki starfsaðferðir Samkeppnisstofnunar. Það geta verið tilefni til að endurmeta þá hluti en það á að gera í rólegheitum og yfirvegað en ekki í tengslum við upphlaup út af einstökum úrskurðum.