Gjaldþrotaskipti

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:27:12 (5495)

1998-04-15 11:27:12# 122. lþ. 104.12 fundur 325. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:27]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Samviskan er greinilega að naga hv. þm. vegna þess að hann talar fyrir því að þetta mál komi til 2. umr. og ég fagna því, herra forseti, vegna þess að þetta er það góður og ljúfur drengur, hv. þm. Jón Kristjánsson, að hann vill greinilega standa við það sem hann segir. Ég treysti þá á það að hv. þm. hjálpi okkur í félmn. til að fá þetta mál aftur inn í þingið og til atkvæðagreiðslu þannig að hægt sé að láta reyna á það.

Þegar hv. þm. talar um að engin svik séu þá ætla ég bara að nefna hér eitt í lokin, sem ég að vísu nefndi í ræðu minni áðan, skuldbreytingu aldarinnar sem þeir boðuðu. Þegar það kom inn í þingið var ráðherrann gerður afturreka með það vegna þess að þær reglur sem höfðu verið í gildi um skuldbreytingu frá 1993--1995 veittu 2.000 manns fyrirgreiðslu. Athugað var að ef reglur nýja frv. ráðherrans, um skuldbreytingu aldarinnar, hefðu verið í gildi frá 1993--1995 þá hefðu aðeins 400 fengið fyrirgreiðslu en ekki 2.000. Kallar hv. þm. þetta virkilega ekki svik aldarinnar?