Ný markmið í framhaldsmenntun

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 12:06:13 (5500)

1998-04-15 12:06:13# 122. lþ. 104.14 fundur 499. mál: #A ný markmið í framhaldsmenntun# þál., Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[12:06]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Á hinu háa Alþingi hefur legið um nokkurn tíma till. til þál. um ný markmið í framhaldsmenntun. Flutningsmenn eru sá hv. þm. sem hér stendur, Sigríður Jóhannesdóttir og hv. þingmenn Alþb. Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að standa fyrir sérstöku átaki til þess að efla starfsmenntun í framhaldsskólum. Við undirbúning átaksins skal meðal annars hugað að eftirfarandi þáttum:

a. hvernig unnt er að styrkja kennslu í verklegum greinum,

b. hvernig unnt er að stuðla að því að boðið verði fram fjölbreyttara starfsnám en nú er, m.a. styttri og sveigjanlegri námsleiðir á framhaldsskólastigi,

c. hvernig unnt er að tryggja að veitt verði aukið fjármagn til starfsmenntunar, t.d. með sérstökum framlögum í því augnamiði að efla starfsmenntun í framhaldsskólum,

d. hvernig unnt er að tryggja, t.d. með sérstökum samningum milli menntamálaráðuneytisins og Kennaraháskóla, að starfsmenntakennurum fjölgi á næstu árum og að endur- og símenntun þeirra verði styrkt sérstaklega,

e. hvernig tryggja má með skipulegum aðgerðum að samningar takist við atvinnulífið þannig að starfsemi flestra fyrirtækja verði skipulögð með hliðsjón af starfsmenntunarkröfum,

f. hvernig best er að setja markmið um að 80--90% af hverjum árgangi ljúki einhvers konar framhaldsnámi.``

Með þáltill. fylgir eftirfarandi greinargerð:

Löngum hefur verið talað mikið um að auka vægi list- og verkgreina í íslenska grunnskólanum og um það gefin góð fyrirheit. Því miður hefur reynst svo hingað til að hlutur verk- og listgreina í grunnskólanum hefur ekki aukist. Hefur því verið borið við að kennsla sé dýrari í þessum greinum en öðrum, bekkjardeildir séu stórar og í slíkum greinum þurfi að skipta bekkjunum og af því sé mikið óhagræði í skólastarfi. Síðast en ekki síst hafa einfaldlega verið of fáir tímar til skiptanna. Nú hefur kennslustundum í grunnskóla verið fjölgað nokkuð og þá vaknar sú spurning hvort unnt sé að tryggja að nægur hluti af viðbótartímunum fari til aukinnar kennslu í áðurnefndum greinum. Áfram þarf að gera ráð fyrir að stórum bekkjardeildum sé skipt, en verkgreinakennurum hefur reynst afar erfitt að hafa umsjón með yfir 25 börnum í einu í þessum greinum þar sem þau þarfnast oft mikillar einstaklingstilsagnar. Leita þarf leiða til að auka veg list- og verkgreina og leggja þarf aukna áherslu á að árangur í þeim verði metinn ekki síður en annað þegar nemendur eru brautskráðir úr grunnskóla. Árangur nemenda í verklegum greinum hefur mikið forsagnargildi þegar metið skal hvaða börn eru líkleg til að standa sig vel í framhaldsnámi og hver ekki.

Margar leiðir hafa á síðustu árum verið ræddar til að auka framboð á svokölluðum ,,styttri starfsnámsbrautum`` í framhaldsskóla. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar og sumar mjög góðra gjalda verðar. Þó verður að segja að hvati til að fara í slíkt nám hefur ekki verið fyrir hendi því að þokkalega hefur gengið hjá ungu fólki að komast út í atvinnulífið og afla sér starfsreynslu, sem gefur möguleika til starfsframa, án þess að það hafi tekið sérstök próf. Þá hefur ekki verið nægur vilji hjá atvinnurekendum og verkalýðsfélögum til að semja um að þeir sem hafa slíkt starfsnám fái sérstakan launaauka umfram þá sem sjálfir hafa orðið sér úti um starfsreynslu utan skóla. En margt bendir til að þeir tímar, þegar ungt fólk gat gengið út í atvinnulífið strax eftir grunnskóla og aflað sér starfsreynslu og starfsframa, séu nú liðnir. Virðist það stutt af því að vaxandi hluti ungs fólks er langtímum saman á atvinnuleysisskrá. Það veldur því áhyggjum að ungir Íslendingar afla sér framhaldsmenntunar í miklu minni mæli en ungt fólk í nágrannalöndum og nýjustu tölur sýna að aðeins um 55% þeirra ljúka einhvers konar framhaldsnámi. Þetta hlutfall verður að bæta.

Erfitt hefur verið á niðurskurðartímum undanfarinna ára að tryggja það fjármagn sem þarf til að byggja upp starfsmenntun um allt land.

Það blasir við að í litlu skólunum svokölluðu, litlu framhaldsskólunum, sem hefur verið þrengt svo mjög að á undanförnum árum að það eru fyrst og fremst bóknámsbrautirnar sem eru eftir vegna þess að þær eru ódýrastar í rekstri. Það eru þessar fáu tilraunir til verknámsbrauta á þessum stöðum sem hafa verið lagðar niður og ég verð að tiltaka það hér að vantrú mín sem ég hef áður látið í ljós úr þessum stóli á hinu háa Alþingi á líkön sem eiga að stjórna fjárútlátum til skóla, þar á meðal framhaldsskóla, tengist ekki síst þessum þætti, að þetta vill verða til þess að mjög er þrengt að möguleikum smærri skóla í hinum dreifðari byggðum til að bjóða upp á verknámsdeildir.

Viðbúið er að í fyrstu verði þar um frekar smáa hópa að ræða sem þurfa samt að njóta forgangs í fjárveitingum svo að eðlileg þróun geti orðið. Því er nauðsynlegt að ræða hvernig unnt sé að eyrnamerkja fjármagn til að nota til uppbyggingar á þessu sviði og veita þar með þróun og uppbyggingu í þessum greinum forgang. Þetta mætti tengja eftir því sem unnt væri endurmenntun og símenntun í viðkomandi greinum og örva þannig þróun í verkmenntum og starfsmenntun.

Á undanförnum árum hefur starfsréttindanám fyrir verkmenntakennara því miður ekki verið stöðugt í boði fyrir alla sem hafa viljað stunda það. Það hefur orðið til þess að allt of stóran hluta þeirra sem eru við kennslu í verkmenntagreinum og hafa góða faglega menntun vantar kennslufræðilega þekkingu og hefur það háð þróun í greinunum. Gera þarf réttindanámi starfsmenntakennara hærra undir höfði og hafa það stöðugt í boði fyrir þá sem vilja stunda slíka kennslu og hafa til þess faglegan grunn.

Ég vil benda á að því miður liggur nú fyrir Alþingi frv. til nýrra lögverndunarlaga um starfsréttindi kennara og útlit er fyrir að knúið verði mjög á um afgreiðslu þess fyrir vorið. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að minnka kröfur til þeirra kennara sem stunda kennslu í verklegum greinum. Í stað þess að auka framboð á námi og gera þeim sem það vilja stunda auðveldara að stunda námið, þá var gripið til þess að minnka kröfurnar. Þetta er alveg ótrúlegt metnaðarleysi og bendir ekki til þess að þeir sem geisast hér um landið í gullnum vagni og boða nýja skólastefnu ætli sér virkilega að gera nokkuð sem máli skiptir fyrir starfsmenntabrautirnar og verkmenntabrautirnar.

[12:15]

Til þess að slíkt nám væri ávallt í boði þyrfti að gera sérstakan samning milli Kennaraháskóla og menntmrn. Eins mætti hugsa sér að slíkt nám væri hægt að stunda í fjarnámi en við eigum ekki að minnka kröfurnar. Það er ekki rétta leiðin.

Mjög brýnt er að stuðla að samkomulagi milli ráðuneytis, atvinnulífs og verkalýðsfélaga um aukið framboð stuttra starfsmenntabrauta þar sem allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi og að slíkt nám njóti virðingar og tilhlýðilegs forgangs. Til þessa verks þarf að ganga skipulega um land allt.

Æskilegt er að átakið miði að því að að minnsta kosti 80--90% íslenskra ungmenna útskrifist með einhvers konar starfsmenntun til að byggja framtíð sína á. Til þess að það markmið náist þarf að beita öllum tiltækum ráðum og má í því sambandi benda á mikilvægi náms- og starfsráðgjafar. Einnig má minna á að ávallt þurfa að bjóðast tækifæri til að fólk geti bætt við starfsmenntun sína og aukið þannig tækifæri sín í greininni.

Því miður hefur það brunnið við í skólakerfi okkar að við höfum verið með allt of mikið af lokuðum götum þannig að fólk hefur alltaf þurft að byrja á núllpúnkti ef það hefur viljað skipta um fag eða fara í annan farveg. Þetta er ákaflega slæmt. Ég vil benda t.d. á nýtt fag sem er byrjað að kenna í Danmörku og heitir social- og sundhedsarbejdere. Í allt er hægt að taka fjögur ár en jafnframt aðeins eins árs nám. Eftir eins árs nám getur maður unnið einn við heimilishjálp en samt undir yfirstjórn. Maður getur tekið tveggja ára nám til að verða fullgild heimilishjálp. Taki maður þriðja og fjórða árið er hann þar að auki fullgildur sjúkraliði og svo má halda áfram inn í háskólanám. Þar er hægt að taka hjúkrunarfræði eða hvað það sem hugurinn girnist. Námið á undan er ávallt metið að fullu.

Svona þurfum við að búa um hnútana svo að unga fólkið lendi ekki í blindgötum. Það þarf að vera nauðsynlegur sveigjanleiki í kerfinu svo þeir sem áður hafa aflað sér starfsmenntunar í fagi sem hefur ekki leitt af sér viðunandi atvinnutilboð geti lagt stund á annað fag þar sem betra útlit er með atvinnu og geti fengið metið á sanngjarnan hátt það sem það hafði áður lokið við.