Úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 13:43:56 (5506)

1998-04-15 13:43:56# 122. lþ. 104.17 fundur 597. mál: #A úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[13:43]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það hefur verið frekar hljótt um málefni Schengen á Alþingi um skeið en veðrabrigði urðu í þinginu í gær því að þá var dreift meðal þingmanna sérstöku þingmáli sem ber heitið: Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samstarfssamnings milli Schengen-ríkjanna og Íslands og Noregs um afnám persónueftirlits á sameiginlegum landamærum. Þessu þingmáli upp á allnokkrar síður fylgdi í ljósriti, A-4, í fyrsta sinn á Alþingi Íslendinga, samkomulag og sáttmáli sem Schengen byggir á og var þó sérstakur samningur undirritaður af hálfu Íslands 19. desember 1996 um þetta mál.

[13:45]

Það er fyrst á Alþingi í gær sem menn fá að sjá pappírana sem varða það mál sem þarna var gerður formlegur gerningur að af hálfu Íslands fyrir einu og hálfi ári eða nálægt því. Út af fyrir sig er þakkarvert að Alþingi Íslendinga og almenningur fái að sjá málið, fái að sjá innihaldið í málinu og er það að vísu aðeins hluti málsins sem var lagður fram í gær. Jafnframt er ljóst að þeir pappírar sem eru lagðir fyrir af ríkisstjórninni varðandi málið eru ekki lagðir fram til staðfestingar því að málið liggur alls ekki þannig fyrir nú að gerðum breytingum á vegum Evrópusambandsins síðasta sumar að hægt sé að staðfesta samninginn þótt vilji væri til af meiri hluta á Alþingi Íslendinga.

Það hefur e.t.v. ýtt við ráðuneytunum að undirritaður lagði fram fyrirspurn nokkru fyrir páska og óskaði eftir skriflegu svari, sem hefur ekki borist enn þá í mínar hendur. Fyrirspurnin var til hæstv. ráðherra utanríkis- og dómsmála þar sem spurt var m.a.: ,,Hvað veldur því að samstarfssamningur Íslands og Schengen-ríkjanna frá 19. des. 1996 hefur hvorki verið birtur opinberlega hérlendis né lagður fyrir Alþingi ásamt fylgigögnum í formi viðauka, reglugerða og handbóka sem þegar liggja fyrir í íslenskri þýðingu? Er ríkisstjórnin reiðubúin að veita Alþingi og öðrum aðgang að þessum gögnum... ?

Svarið kom óbeint inn í þingið í gær í formi till. til þál. og samkomulagsins og sáttmálans sem að baki liggur upp á a.m.k. 142 gr. sem er Schengen-sáttmálinn og hann liggur hér. Enn þá hafa ekki komið viðaukar, regugerðir og handbækur sem hæstv. dómsmrh. hét þó hátíðlega hér á Alþingi þegar þetta mál var rætt fyrir allnokkru að yrðu lögð fram fyrir þingið. Ég vænti þess að úr því verði bætt.

En því nefni ég þetta í upphafi máls míns, virðulegur forseti, að ég er að mæla fyrir þingmáli sem varðar þetta Schengen-mál, það stóra mál sem verið er að vinna að í framhaldi af þeim gjörningi sem gerður var í árslok 1996. Ég hef flutt sérstaka till. til þál. um málið og hana er að finna á þskj. 1010, það er 597. mál, og varðar úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna. Tillagan er svohljóðandi, virðulegur forseti:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að beita sér fyrir að gerð verði vönduð úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins, í samvinnu við önnur ráðuneyti og samtök sem berjast gegn fíkniefnum. Alþingi verði gefin skýrsla um málið strax og það kemur saman haustið 1998.``

Sú tillaga sem flutt er gerir ráð fyrir að dómsmrh. láti í samvinnu við önnur ráðuneyti og aðra sem láta sig varða baráttuna gegn fíkniefnum gera sérstaka úttekt á líklegum áhrifum aðildar Íslands að Schengen á ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins. En meðal ráðuneyta sem vinna að málinu, þ.e. fíkniefnamálum, auk dómsmrn. eru félmrn., heilbr.- og trmrn. og menntmrn. Slíka úttekt hefði að sjálfsögðu þurft að gera strax og Schengen-aðild kom á dagskrá hérlendis. Til þess hvatti m.a. sá sem hér talar ítrekað í umræðum á Alþingi. Enn er ekki um seinan að gera slíka úttekt og því er tillagan flutt og lagt til að henni verði að lokinni umræðunni vísað til hv. allshn. þingsins. Ég vænti þess að hún fái þar skjóta afgreiðslu svo brýnt og sjálfsagt sem þetta mál ætti að vera og varðar eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum landsins og mál sem er félagslega afar stórt mál. Hér hafa menn sett sér háleit markmið um að gera Ísland að fíkniefnalausu landi eða a.m.k. Reykjavíkurborg fíkniefnalausa árið 2002 en á sama tíma vinna íslensk stjórnvöld að gerð samnings sem afnemur vegabréfaeftirlit til landsins og gerir mun torveldara en verið hefur að fylgjast með ólöglegum innflutningi fíkniefna. Engin skilmerkileg grein hefur verið gerð fyrir því hvernig menn ætla að koma í veg fyrir þann aukna ófarnað sem stefnir í vegna þessa samnings að því er þennan málaflokk varðar.

Schengen-málið hefur síðan marga aðra þætti sem eru ekki viðfang þessarar till. til þál. sem hér er flutt og verður rætt í annan tíma. Það skýrist kannski að einhverju ef inn í þingsali berst væntanlega skriflegt svar við fyrirspurn minni til tveggja hæstv. ráðherra um stöðu málsins á vegum stjórnvalda sem er full ástæða til að komi fram. Kannski væri ástæða til að ræða þetta mál og stöðu þess hér sérstaklega áður en þinghaldi lýkur vegna þess að unnið er að þessu máli á fullri ferð á vegum hæstv. ríkisstjórnar að tengja Ísland við samninginn sem er nú orðið viðfangsefni Evrópusambandsins með beinum hætti eins og sá sem hér talar hefur bent á um árabil að stefndi í en lítið var hlustað á og lítið gert með.

Virðulegur forseti. Með aðild að Schengen verður mönnum heimilt að fara yfir innri landamæri aðildarríkja Evrópusambandsins og annarra þeirra sem tengjast samnings\-ákvæðunum án þess að sæta nokkru eftirliti. Í samræmi við það verður allt vegabréfaeftirlit hérlendis gagnvart ferðamönnum sem koma frá Schengen-landi fellt niður. Yfirvöld vita þar af leiðandi ekki hverjir eru á ferð. Ég nefni í þessu sambandi, því að oft er borið við að menn séu að bjarga norræna vegabréfasambandinu frá stóra strandinu sem hefur auðvitað blasað við lengi, að í þessum samningi er ekki að finna sömu ákvæði og eru í gamla norræna vegabréfasamstarfinu um að heimilt sé að taka ferðamenn og óska eftir skilríkjum með svonefndum stikkprufum. Engar heimildir eru um það í þessum samningi þannig að til þess að fara að biðja menn um skilríki þurfa menn að hafa sérstakar ástæður til þess, þ.e. að viðkomandi sé grunaður um það að vera með eitthvað ólöglegt í pokahorninu.

Ég vænti að allir sjái í hvert efni stefnir þó að tolleftirlit sé hér eftir sem áður eins og ég kem hér að á eftir. Tolleftirlit á landamærum heyrir hins vegar sögunni til í Evrópusambandinu en vegna þess að Ísland eins og Noregur er ekki aðili að Evrópusambandinu helst heimild að formi til til tolleftirlits, þar á meðal með farangri farþega, á meðan ekki er samið um annað sérstaklega. Að þessu leyti hefðu Ísland og Noregur sem aðilar að Schengen sérstöðu. En hversu lengi hún helst og í hvaða formi heimildunum verður beitt er hins vegar óljóst. Líklegt er að um verði að ræða stöðugan þrýsting á Noreg og Ísland sem samstarfsaðila að Schengen að sleppa eftirliti með farangri eins og gerist annars staðar á Schengen-svæðinu eða halda slíku eftirliti í lágmarki. Ég vek athygli á því að eftir að Ísland væri orðinn aðili að Schengen værum við orðnir vörsluaðilar ytri landamæra Evrópusambandsins, þurfum að gæta ytri landamæranna, sem á að hækka og þétta, það er viðfangið, það er efnið, hækka og þétta ytri landamærin og allt eftirlit þar en hins vegar að halda opnu innan svæðisins. Auðvitað verður þrýst á það úr mörgum áttum að tolleftirlitið verði hér ekki framkvæmt með burðugum hætti af hálfu íslenskra yfirvalda þó að hitt sé jafnljóst að formlegar heimildir eru til þess að óbreyttu.

Virðulegur forseti. Ítrekaðar viðvaranir hafa komið fram af hálfu innlendra aðila um málið, þ.e. hættuna á auknum ólöglegum innflutningi fíkniefna. Það er þekkt úr nágrannalöndum okkar, og vísa ég þar til Svíþjóðar og Noregs, þar sem Svíar sem aðilar að Evrópusambandinu hafa fellt niður allt eftirlit með tolli, að þar hefur innflutningur ólöglegra fíkniefna stóraukist og um leið þrýstingurinn á Noreg með ólöglegan innflutning á þeim löngu landamærum sem eru milli Noregs og Svíþjóðar og hafa Norðmenn þó reynt að herða mjög tollgæslu á landamærum sínum. Þeir hafa tekið þar mun meira eftir að tolleftirlit var afnumið milli Svíþjóðar og annarra landa Evrópusambandsins eins og gerðist með aðild Svía að Evrópusambandinu. Sumir löggæslumenn í Noregi hafa ítrekað lýst áhyggjum sínum vegna fíkniefnasmygls í kjölfar Schengen-aðildar Noregs sem er í hliðstæðri stöðu og Ísland gagnvart Evrópusambandinu en hefur hins vegar geysilöng sameiginleg landamæri við Svíþjóð. Þess er getið í greinargerð, virðulegur forseti, að formaður samtaka löggæslumanna í lénum Noregs, Arne Johannesen, hefur ítrekað lýst áhyggjum sínum af aukningu fíkniefna sem og því verkefni að eiga að gæta ytri landamæra Evrópusambandsins á hinni löngu Noregsströnd.

Nokkrir íslenskir tollgæslummenn hafa í einkasamtölum lýst þeirri skoðun sinni við flm. þessarar tillögu að Schengen-aðild muni gera eftirlit með ólöglegum innflutningi fíkniefna til landsins mun erfiðara en nú er. Sama sjónarmið kom fram í grein eftir Kristján Pétursson, fyrrverandi deildarstjóra, sem hann ritaði í Morgunblaðið 18. jan. 1997 um þessi efni. Þar varar hann eindregið við hættunni á auknum innflutningi fíkniefna um Keflavíkurflugvöll verði af aðild Íslands að Schengen. Hann segir það eindregna skoðun þeirra löggæslumanna sem vinni við eftirlit og rannsóknir fíkniefnamála að Schengen-samningurinn geri þeim illmögulegt að viðhalda því eftirliti sem verið hefur, hvað þá að efla það. Orðrétt segir í þessari grein Kristjáns, með leyfi forseta:

,,Í langflestum tilvikum þegar fíkniefni finnast hjá farþegum við komu til landsins liggur að baki mikil og oft flókin upplýsingaöflun tollgæslu og fíkniefnadeildar lögreglunnar. Svo hægt sé að hafa hendur í hári grunsamlegra komufarþega, innlendra sem erlendra, verður að skoða skilríki þeirra, [þ.e. vegabréfaeftirlit] þar sem oftast er um að ræða ókunna aðila (burðardýr). Eftir að vegabréfaskoðun Schengen-farþega verður lögð af er ekki lengur fyrir hendi nein aðstaða til slíks eftirlits í flugstöðinni.``

Með ,,ekki nein aðstaða`` er átt við að það eru engar heimildir.

Undir forustu lögreglustjóraumdæmisins í Keflavík vinnur tollgæslan samræmt að vegabréfaeftirliti eða samvinna er á milli vegabréfaskoðunar og tollgæslu. Auðvitað sjá allir að þegar annar hlekkurinn er rofinn og menn vita ekkert hverjir eru á ferðinni hvaða aðstöðu tollurinn hefur til þess að grípa inn í. Það verða aðrar aðstæður sem menn starfa þá við og erfiðari.

Í Schengen-samningnum er vissulega kafli um fíkniefni en hann varðar fyrst og fremst gæsluna á ytri landamærum. En uppspretta fíkniefna er í ríkum mæli í löndum Evrópusambandsins. Menn þekkja deiluna milli Frakklands og Hollands í sambandi við þetta þar sem Frakkar hafa neitað að staðfesta Schengen-samninginn í bili (Forseti hringir), virðulegur forseti, og nota neyðarákvæði í samningnum til þess að leggja ekki niður tollafgreiðslu gagnvart Belgíu og Lúxemborg, vegna þess að þeir treysta ekki stefnu Hollendinga í fíkniefnamálum. (Forseti hringir.) Nú eru Ítalir og fleiri ríki, þar sem fíkniefni eru meðhöndluð á annan hátt, orðnir aðilar að þessu opna svæði, Spánn og önnur ríki (Forseti hringir.) og fyllsta ástæða er til þess að sú úttekt verði gerð hið snarasta sem hér er lögð til, virðulegur forseti.