Réttarfarsdómstóll

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:09:57 (5536)

1998-04-16 11:09:57# 122. lþ. 105.3 fundur 656. mál: #A réttarfarsdómstóll# frv., Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:09]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um réttarfarsdómstól sem væri nýmæli í dómstólakerfinu og réttarkerfinu í landinu og hefur verið til í öðrum löndum mjög lengi en ekki á Íslandi. Tilgangurinn er sá að stundum kemur fyrir að dómstólarnir eru beðnir um að taka upp mál sem þeir hafa kveðið upp dóma í. Fyrir því eru oft gild rök. Þrátt fyrir það er þessu hafnað og það er gjarnan að sögn vegna þess að dómstólar eins og Hæstiréttur eru kannski að kveða upp úrskurð í eigin málum. Þetta varð hljóðbærast í þessu landi í fyrrasumar þegar Hæstiréttur hafnaði endurupptöku á máli Sævars Ciesielskis þar sem ýmsir töldu að væru mikil rök fyrir því að málið væri tekið upp aftur. Út af fyrir sig felli ég engan dóm í þeim efnum, ég hef ekki vit á því máli. Ég hygg hins vegar að skynsamlegra hefði verið fyrir þjóðina að einhver önnur stofnun en Hæstiréttur hefði getað fjallað um málið. Þess vegna er frv. til laga um réttarfarsdómstól flutt.

Frv. er í átta greinum og byggist að nokkru leyti á ákvæðum danskra laga um hliðstæð efni þar sem eru ákvæði um ,,den særlige klagerett`` eins og það heitir á dönsku, sérstakan kvörtunardómstól sem hefur að vísu talsvert víðtækara hlutverk en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Í frv., sem er sjö efnisgreinar, er byrjað á því að segja:

,,Setja skal á stofn dómstól er nefnist réttarfarsdómstóll. Hann fjallar um kröfur um endurupptöku opinberra mála.

Í dómnum eiga sæti þrír menn. Ráðherra skipar dómara við dómstólinn til fimm ára í senn. Einn þeirra skal vera hæstaréttardómari og er hann jafnframt forseti dómsins en hinir tveir héraðsdómarar. Aðeins má skipa sama dómara til setu í dómnum tvisvar í röð.``

Ég vek athygli á þessu. Hér er sem sagt ekki um það að ræða að ég sé að gera tillögu um fasta stofnun heldur um dómstól sem kemur saman þegar þörf krefur og óskað er og rök eru fyrir að komi saman.

Ég sé það þannig fyrir mér að til að byrja með yrði allmikið leitað til dómstólsins. Þegar fram í sækti mundi hann móta sínar starfsreglur þannig að ég hygg að það yrði ekki um að ræða verulega ásókn á starfsemi hans þannig að ég tel ekki að um sé að ræða nýja stóra stofnun heldur fyrst og fremst eins konar öryggisventil í kerfi okkar.

Í 3. gr. frv. segir svo:

,,Nú hefur óáfrýjaður héraðsdómur eða hæstaréttardómur gengið í opinberu máli og verður málið þá ekki tekið upp á ný nema til þess séu þau skilyrði sem hér segir:``

Þau eru síðan talin upp. Þau eru þessi:

1. Eftir kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, skal taka mál upp á ný:

a. ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk,

b. ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hefur verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn.

2. Ef einhver sá sem að lögum á að vinna að rannsókn eða meðferð opinberra mála fær vitneskju eða rökstuddan grun um atriði sem í 1. tölul. segir ber honum að veita dómfellda vitneskju um það.

3. Eftir kröfu ríkissaksóknara skal taka mál, þar sem ákærði hefur verið sýknaður eða dæmdur fyrir mun minna brot en hann var borinn, upp á ný:

a. ef ákærði hefur síðan dómur gekk játað að hafa framið það brot sem hann var borinn eða önnur gögn hafa komið fram sem benda ótvírætt til sektar hans,

b. ef ætla má að falsgögn eða refsiverð hegðun dómara, ákæranda, rannsóknara eða annarra í því skyni að fá fram ákveðin málalok hafi valdið dómsniðurstöðu að nokkru leyti eða öllu.

4. Ríkissaksóknara er rétt að óska eftir endurupptöku máls til hagsbóta fyrir dómfellda ef hann telur að svo standi á sem í 2. tölul. segir.

[11:15]

Í 4. gr. er fjallað um hvernig dómstóllinn tekur ákvörðun um endurupptöku máls og fjallar um beiðni þar að lútandi eða eins og þar stendur:

,,Nú er beiðandi sviptur frelsi og skal yfirmaður fangelsis`` --- þetta getur einnig átt við þegar beiðandi er sviptur frelsi --- ,,þá taka við og bóka beiðni eftir ósk hans og koma henni á framfæri. Skylt er þá eftir ósk beiðanda að fá honum skipaðan réttargæslumann.

Greina skal í beiðni þau atriði sem vefengd eru í dómi og þær ástæður sem til vefengingar eru taldar liggja. Skjöl, sem kunna að vera til styrktar beiðni, skulu fylgja henni eftir því sem unnt er.

Ríkissaksóknari sendir beiðnina til dómstólsins ásamt skjölum málsins og tillögum sínum, svo og umsögn dómara ef um héraðsdóm er að tefla.

Dómstóllinn getur mælt fyrir um öflun nauðsynlegra gagna varðandi endurupptökubeiðni samkvæmt reglum 2. mgr. 156. gr. laga um meðferð opinberra mála.``

Í 5. gr. er síðan fjallað um hvernig réttarfarsdómstóllinn tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um endurupptöku máls.

Í 6. gr. segir: ,,Dómar réttarfarsdómstólsins eru endanlegir og verður ekki áfrýjað.``

Í 7. gr. segir: ,,Um þau atriði viðvíkjandi meðferð mála sem ekki er kveðið á um í lögum skal hafa hliðsjón af lögum um meðferð opinberra mála svo sem við getur átt.``

Í vetur var samþykktur mikill lagabálkur um dómstóla og þá spurði ég hæstv. dómsmrh. að því hvort hann teldi ekki eðlilegt að taka þetta mál þar inn í. Hann neitaði því og sagði að það stæði ekki til og engin áform væru uppi um það í dómsmrn. Ég harma það vegna þess að það er ein forsenda réttarríkis að fólk geti treyst því að þær stofnanir sem fjalla um mál þess séu óvilhallar. Ekki er hægt að halda því fram að dómstóll sem kveður upp úrskurð í eigin máli sé óvilhallur í málinu. Þess vegna er mikilvægt réttarfarsatriði í þjóðfélagi okkar að stofnun af þessu tagi verði til þangað sem fólk getur skotið málum sínum.

Herra forseti. Eins og ég sagði er þetta algerlega nýtt mál, hefur aldrei áður verið flutt í þessari stofnun áður svo ég kannist við og ég skil vel að menn þurfi tíma til að skoða það. Ég þurfti sjálfur þó nokkurn tíma til að setja mig almennilega inn í málið. Ég tek fram að ég naut hjálpar nefndadeildar Alþingis og nokkurra lögfræðinga, kunningja minna, þó að ég beri að sjálfsögðu ábyrgð á málinu í einstökum atriðum. En ég teldi æskilegt að það færi til umsagnar og meðferðar í sumar og hv. allshn. sendi það til umsagnar þannig að hægt verði að endurflytja málið í haust ef fólk telur ekki unnt að gera málið að lögum núna, ef það er talið hægt að bestu manna yfirsýn.

Satt að segja rann mér til rifja hvernig farið var með mál Sævars Ciesielskis í fyrrasumar. Mér þótti leiðinlegt að sjá hvernig Hæstiréttur lenti á milli tannanna á fólki vegna þess hvernig hann fjallaði um málið. Þá er ég ekki að taka afstöðu til niðurstöðu Hæstaréttar en ég tel að það sé líka mikilvægt fyrir réttarríki að Hæstiréttur njóti trausts. Þetta frv. hefur líka þann tilgang að stuðla að því að Hæstiréttur njóti þess trausts.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði svo að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.