Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:55:26 (5543)

1998-04-16 11:55:26# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Hér er vissulega mjög athyglisvert mál á ferðinni sem ég held að þrátt fyrir allt hafi ekki verið gefinn nægjanlega mikill gaumur. Hér er um ákaflega alvarlega atburði að ræða. Hrossasóttin, sem breiðst hefur um landið þrátt fyrir að reynt hafi verið að grípa til allra hugsanlegra aðgerða til að koma í veg fyrir hana, hefur hreinlega lamað þann hluta landbúnaðarins sem hvað mestar vonir hafa verið bundnar við, þ.e. hrossaræktina.

Það hefur orðið gífurlegur vöxtur í þessari atvinnugrein. Þetta er ekki bara tómstundagaman þéttbýlisbúa eins og stundum er látið í veðri vaka heldur er þetta mikilvæg atvinnugrein sem skiptir miklu máli í mörgum sveitum og hefur jafnvel verið þrautalendingin fyrir marga þá sem hafa staðið frammi fyrir minnkandi tekjum vegna samdráttar í hefðbundnum landbúnaði.

Við erum í raun að tala um tvenns eða þrenns konar vandamál. Í fyrsta lagi er um að ræða sérhæfðan hrossabúskap þar sem fjölskyldur hafa eingöngu framfæri sitt af slíkri atvinnustarfsemi í ýmsum tilvikum. Við erum einnig að tala um atvinnustarfsemi sem er mjög þýðingarmikil stoð við hefðbundinn landbúnað. Loks er um að ræða þýðingarmikinn þátt í lífsmunstri fjölda fólks í þéttbýlinu sem engin ástæða er til að gera lítið úr.

Ég tel því að hér liggi fyrir skynsamleg þáltill. Það sem ég tel hins vegar kannski skipta meira máli í bráð varðandi þetta, er að gripið sé til aðgerða til að mæta þeim óskaplega vanda sem menn standa frammi fyrir í atvinnugreininni. Við skulum ekki gleyma því að þegar slík vá sem þessi hefur dunið yfir í einstökum atvinnugreinum, þó sennilega sé erfitt að finna hliðstætt dæmi, þá hefur verið reynt að forða samfélaginu frá tjóni. Í því sambandi hefur sérstaklega verið horft til opinberra lánasjóða eins og t.d. Stofnlánadeildarinnar, hins nýja Lánasjóðs landbúnaðarins og sjóða á borð við Byggðastofnun svo dæmi séu tekin. Þessir sjóðir hafa þarna fjárhagslegra hagsmuna að gæta.

Ég tel að það væri eðlileg krafa og eðlilegt að stjórnvöld, sem auðvitað hafa fullt vald á málinu, beittu sér fyrir því að þau lán í opinberum stofnlánasjóðum af þessu taginu, sem hafa veitt hafa verið hrossaræktendum, yrðu fryst í tvö ár, afborganir slíkra lána yrðu frystar í tvö ár.

Í þessu sambandi bendi ég á að til slíkra aðgerða hefur oft verið gripið, t.d. í sjávarútvegi. Eins var gripið til slíkra fjárhagslegra aðgerða á sínum tíma til að forðast tjón varðandi loðdýraræktina. Að lokum var tekið á þeim málum svo skynsamlega að sú grein komst í gegnum öldudalinn, þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir mikinn tekjubrest komst sú grein að lokum í gegnum öldudalinn. Ef við hefðum ekki gripið til mikilla aðgerða á þessu sviði á síðasta kjörtímabili er ég viss um að þessi atvinnugrein, sem nú skilar miklum tekjum inn í þjóðarbúið og lifir góðu lífi í sveitum landsins, væri tæplega til. Í ljósi þess hversu hrossaræktin er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein í okkar þjóðfélagi og í ljósi þess að hestamennska er orðin snar þáttur í samfélagsmyndinni á þéttbýlisstöðunum held ég að full rök séu fyrir því að grípa til sérstakra aðgerða í þessu sambandi.

[12:00]

Við skulum átta okkur á því að þeir sem stunda þessa atvinnugrein nú hafa í flestum tilvikum verið tekjulausir í tvo mánuði, átta vikur eða þar um bil. Ekki þannig að tekjurnar hafi minnkað eða dregist saman. Menn eru tekjulausir, tekjur er engar vegna þess að það sem hefur gerst er að hrossasala til útlanda hefur ekki bara dregist saman, hún hefur líka dregist mjög mikið saman og jafnvel stöðvast í mörgum tilvikum innan lands. Þetta er mjög alvarleg staða.

Ég nefndi áðan að hrossabúskapur væri líka orðinn mikilvæg stoðgrein við hefðbundinn annan landbúnað. Á þessum mánuðum eru menn einmitt að festa kaup á áburði, þurfa að leggja fram tryggingar eða verulega fjármuni til þess að standa straum af slíkum útgjöldum og bændur, m.a. í mínu kjördæmi, hafa haft samband við mig og bent mér á að þessi staða núna muni valda þeim óskaplegum vandræðum.

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið sem þessi þáltill. gefur til þess að vekja máls á þessu alvarlega máli. Það er hárrétt sem hér er verið að segja, að við þurfum að komast að því hvað hér er á ferðinni, hvað í raun og veru hefur gerst. Hér er um að ræða mjög alvarlegt fár. Sumir tala um að það geti staðið í tvö ár og menn geta þá hreinlega staðið frammi fyrir því að vera tekjulausir eða tekjulitlir í tvö ár. Þannig er um heila atvinnugrein sem menn hafa talað um að gæti jafnvel verið að velta milljörðum þegar allt er tekið til þannig að það gefur auga leið að við þurfum að komast að eðli og umfangi þessa máls.

Hinu er ekki að neita, og við verðum að horfast í augu við það, að hinar fjárhagslegu afleiðingar af þessu ástandi eru að verða mjög sárar. Þetta er farið að koma mjög víða við heimili í landinu, fjölskyldur sem hafa haft framfæri sitt af þessari atvinnugrein að einhverju eða öllu leyti og þess vegna er það okkar skylda sem hér erum að ræða þessi mál hispurslaust. Það hefði verið mjög æskilegt ef hæstv. landbrh. hefði getað verið við og tekið þátt í þessari umræðu. Ég kom því miður sjálfur nokkuð seint til umræðunnar. Engu að síður tel ég að hér sé mál sem eðlilegt er að við ræðum og vonandi kemst til skila á annan hátt.