Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:14:27 (5547)

1998-04-16 12:14:27# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:14]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 2. þm. Reykn. kærlega fyrir það óvænta umburðarlyndi að banna mér ekki að hugsa um þessi efni. Ég vil hins vegar segja við hv. þm. að þessi umræða er miklu meira en tímabær. (ÖS: Er þetta ráðherrastarf?) Þessi umræða er bráðnauðsynleg. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að ef við ætlum að stíga það skref að aðstoða greinina með fjárframlögum á einhvern hátt, þá stæðum við frammi fyrir alls konar vandamálum. En ég var ekki í þessu sambandi eingöngu að tala um það eða sérstaklega að tala um það.

[12:15]

Ég var eingöngu að tala um að eðlilegt væri að opinberir stofnlánasjóðir, eins og Lánasjóður landbúnaðarins, ef ég man heiti hans rétt, og Byggðastofnun, þar sem undirritaður á reyndar sæti í stjórn, taki frumkvæðið nú þegar og bjóði það fram að afborganir lána séu frystar til að koma í veg fyrir þá óskaplegu vá sem annars mun dynja yfir þessa mikilvægu atvinnugrein. Hér er ekki bara um að ræða hefðbundna hrossarækt, eins og ég nefndi áðan, heldur miklu, miklu meira. Meðal annars er þetta snar þáttur í ferðaþjónustu í landinu og mér er auðvitað kunnugt um það eins og öllum öðrum hér að hestaferðir eru að verða æ vinsælli þáttur í ferðamennsku okkar. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að þetta hefur þegar haft lamandi áhrif á allt markaðsstarf á komandi sumri í þessum efnum. Þess vegna er það gríðarlega mikið þjóðhagslegt spursmál fyrir okkur að okkur takist að reyna að verja þessa atvinnugrein eins og við getum. Og það er einfaldlega þannig að menn gætu staðið bara frammi fyrir því, vegna tekjumissisins, yrði þessi atvinnugrein einfaldlega ekki til, að vera ekki til sem fyrirtæki, að vera ekki til sem hrossaræktendur ef þetta gengur eftir og menn þurfa að standa skil á öllum þeim afborgunum og lánum sem þeir hafa tekist á hendur vegna þessa alvarlega tekjubrests.