Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:20:00 (5623)

1998-04-21 15:20:00# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:20]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur satt að segja svolítið á óvart að hv. þm. skuli halda sig svo mjög við þessar lágu fjárhæðir sem hann veit fullvel að eru innan skekkjumarka. Hér er fyrir öllu vel séð. Það hefur verið þannig, t.d. á síðasta hausti stóðu sakir þannig að við aukafjárlög þurfti aðeins að hnika til tölum í sambandi við þær áætlanir sem samgrn. hafði lagt fyrir Alþingi en í engu tilviki var það þannig að upp á vantaði fjármuni. Hv. þm. getur því ekki sagt að reynslan sé sú af þeim áætlunum sem ég hafi lagt fram um tekjuöflun að þær hafi ekki staðist. Ég skil þess vegna ekki hvers vegna hv. þm. talar í þessum tón.

Ég vil jafnframt taka það fram eins og ég sagði áður að ég tel að ekki þurfi að koma til þess að flugvallargjald hækki um næstu áramót, ekki einu sinni í samræmi við verðlag. Flugvallargjaldið hefur ekki hækkað í sex ár. Það hefur lækkað að raungildi ár frá ári. Þess vegna er ég að segja að ég á enn erfiðar með að skilja málflutning hv. þm.

Ég vil líka segja að það verða önnur mál og viðameiri í tengslum við flugmál til afgreiðslu og umræðu fyrir næstu fjárlagagerð og er ég þá að sjálfsögðu að hugsa um það hvernig verði staðið að endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar en ég skal ekki fara út í það enda er nú verið að vinna að undirbúningi þess máls sem væri auðvitað lengra kominn ef deiliskipulag hefði legið fyrir og tæknilegir möguleikar hefðu verið á því að ráðast fyrr í flugvallargerðina.