Loftferðir

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 16:44:12 (5639)

1998-04-21 16:44:12# 122. lþ. 108.5 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv. 60/1998, Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[16:44]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Það er að sönnu hárrétt sem hefur komið fram við 3. umr. málsins að hér er svo sannarlega um að ræða grundvallarlagasetningu. Það var að sönnu áréttað við 2. umr. málsins að verið er að færa til nútímahorfs lög sem hafa verið lengi í gildi í þessum málaflokki, í málaflokki sem hefur tekið sannarlega örum tæknilegum breytingum á síðustu árum og áratugum þannig að ekki er seinna vænta að Alþingi grípi í taumana og reyni að færa ýmsa tæknilega þætti til nútímahorfs og huga að öðrum mikilvægum og pólitískum rekstrarlegum þáttum sem drepið er á.

[16:45]

Ég ætla að reyna að endurtaka ekki það sem kom fram við 2. umr. málsins. Hún var um margt ágæt þó að segja megi að margar þær ábendingar og athugasemdir sem komu frá hv. 17. þm. Reykv. hafi legið að mörgu leyti óbættar hjá garði, þ.e. að lítil svör hafi fengist hjá hæstv. samgrh., lítil viðbrögð við því meginstefi, þ.e. hvaða framtíðarsýn hann hefur á grundvelli þeirrar nýju lagasetningar sem verður væntanlega að veruleika innan skamms.

Ég fór mjög ítarlega yfir það við þá umræðu og leitaði eftir því, einmitt í ljósi reynslunnar eins og 17. þm. Reykv. nefndi áðan hvernig hann sæi fyrir sér að framtíð þessara mála yrði, ekki síst í ljósi þeirra mjög svo víðfeðmu og víðtæku heimilda sem honum eru skammtaðar í 7. gr. frv.

En áður en ég vík að því er rétt að nefna annað lykilatriði sem ég saknaði líka dálítið við 2. umr. málsins. Það lýtur að mikilvægi þess að skilið sé mjög glögglega á milli framkvæmdarvalds annars vegar og eftirlitsvalds hins vegar. Það var tekið mjög myndarlega á því, skulum við segja, að mörgu leyti, við þær ákvarðanir sem teknar voru um hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Þegar Pósti og síma var hent út á markað voru menn alltént sammála um að það eftirlits- og framkvæmdarvald í skjóli opinberra aðila sem Póstur og sími hafði með höndum gæti ekki gengið lengur að óbreyttu þegar félagið væri komið út á markað í formi hlutafélags. Þess vegna var gripið til þess ráð að setja á stofn viðamikla og valdamikla stofnun sem heitir Fjarskiptastofnun. Margt í þeirri löggjöf var svo sem umdeilanlegt en ég ætla ekki að rekja það hér. En allt að einu reyndu menn að nálgast það viðfangsefni skýrt og afmarkað að það færi einfaldlega ekki saman að sama stofnun hefði stjórnsýsluvald á hendi og eftirlitsvald með sjálfri sér og öðrum hugsanlegum samkeppnisaðilum.

Það hefur hins vegar ekki verið gert í þessu frv. Ég nefndi það við 2. umr. málsins, og ekki er verið að ljóstra upp neinu leyndarmáli í því sambandi, að ýmsir sérfræðingar sem til okkar komu í samgn., þar á meðal sérfræðingur ráðuneytisins sjálfs, nefndu að þess væri væntanlega ekki langt að bíða að við yrðum knúnir til þess að skilja þarna á milli. Að alþjóðlegir samningar sem við höfum undirgengist, m.a. í tengslum við Evrópu, gerðu það að verkum að við gætum ekki gengið fram með óbreyttum hætti. Það væri enginn bragur á því að Flugmálastjórn væri framkvæmdaaðili, hugsanlega núna eftir samþykkt þess frv. framkvæmdaaðili með öðrum hagsmunaaðilum, fyrirtækjaeignandi með Flugleiðum eða Íslandsflugi, fyrirtækjaeigandi með einhverjum öðrum rekstraraðilum eða eignaraðilum flugvalla eða flugstöðva vítt og breitt um landið einn daginn. Síðan kemur flugmálastjóri í vinnuna næsta dag og ætlaði sér að úrskurða um ágreiningsefni eða kæruefni sem upp kæmu gagnvart þessum sömu aðilum.

Ég vek líka athygli á því að Flugmálastjórn hefur veitingarvald, veitir flugrekstrarleyfi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hvaða stöðu hefur Flugmálastjórn, flugmálastjóri og starfsfólk hans, í því að vera annan daginn í samstarfi og samvinnu við uppbyggingu á völlunum --- hugsanlega í sama fyrirtæki, dótturfyrirtæki, sbr. 7. gr. --- og svo næsta dag ætla þeir að úrskurða í kæruefnum og þrætuefnum og vera dómari í því hvaða aðilar það eru sem uppfylla skilyrði um flugrekstrarleyfi? Það er engin mynd á þessu og þess vegna hefði ég talið eðlilegast og áréttaði það margoft í nefndinni og það kemur fram í nál. minni hlutans að við höfum tekið þetta skref núna til fulls og skilið þarna á milli, fyrst á annað borð var lögð í það vinna að fara í þá grundvallarlagasetningu, sem hér er sannarlega á ferðinni. Þó að við getum verið pólitískt ósammála um ýmsa þætti hennar þá er hér grundvallarlagasetning á ferðinni sem er ávísun á framtíðina. Þá eiga menn ekki að geyma svona þætti.

Ég spáði því og spái því enn að það verði á næsta hausti, ekki seinna en um næstu áramót, sem við stöndum frammi fyrir því að ræða frv. til laga til breytinga á lögum um loftferðir og sem vísar einmitt til þess að það þurfi að skilja á milli framkvæmdasviðsins annars vegar og eftirlitssviðsins hins vegar. Þess vegna árétta ég það og kalla eftir því og spyr hæstv. ráðherra hvort það hafi verið af hálfu hans einhver hugsun hvers vegna ekki var að finna þessi ákvæði í frv. sjálfu og hvort hann hafi þrýst á um það við meiri hluta samgn. að lagfæra ekki frv. í þessa veruna. Sérfræðingur hans í ráðuneytinu hafði skilning á því en hafði auðvitað ekkert vald til þess að koma með neinar tillögur um það enda ekki um það spurt en ég spyr hæstv. ráðherra: Sér hann ekki ljósið í þessu sambandi? Áttar hann sig ekki á því hvað hér er á ferð? Ég spyr líka, ef hann gerir það ekki: Hvaða eðlismunur er á skilum framkvæmdarvalds annars vegar og eftirlitsvalds hins vegar hér og aftur á fjarskiptasviðinu? Af hverju var gripið til þess ráðs að setja á svið Fjarskiptastofnun Íslands sem sjálfstæða og óháða eftirlitsstofnun með því að samkeppnin gæti gengið það vel fyrir sig að þeir sem væru á fjarskiptasviðinu uppfylltu þær reglur sem kveðið væri á um og leyfisveitingar o.s.frv. Af hverju fer betur á því að það virki þar en þegar kemur að loftferðasviðinu þá eigi þetta bara að vera í gamla farinu?

Ég segi það, virðulegi forseti, að við höfum auðvitað búið við þetta svona. Menn hafa vanist þessu en nú eru bara að verða gerbreytingar á og þær breytingar er að finna í 7. gr. frv. sem lýtur að heimildum ráðherrans til þess að setja ákveðna þætti, fáa eða marga, allt eftir efnum og ástæðum, allt eftir vilja hans og löngunum hverju sinni á einkamarkað. Ef þetta verður að lögum hefur hann með öðrum orðum heimild án þess að spyrja kóng eða prest til þess að stofna til hlutdeildarfélaga með hugsanlega flugrekstraraðilum sem eru sérfræðingar á þeim vettvangi, eru auðvitað þeir aðilar sem þekkja sannanlega best til. Hann hefur heimild til þess að stofna ný félög eða láta Flugmálastjórn gera það um hin ýmsu mál og út af fyrir sig gæti hann samkvæmt orðanna hljóðan einkavætt Flugmálastjórn nánast alla. Hann gæti þess vegna skilið flugmálastjóra einan eftir og stofnað nýtt hlutafélag um allt annað samkvæmt þeirri heimild sem hér. Vissulega má segja, þá komum við að þeirri spurningu: Er það eitthvað óskynsamlegt? (Gripið fram í.) Það er sérkapítuli sem ég kem að hér á eftir, ekki virðulegur þm. Árni Johnsen sérstaklega, en það er sú meðferð sem blessað flugráðið fær í meðförum ráðherrans og nefndarinnar. En ég sagði: Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvort það sé skynsamlegt eða óskynsamlegt að ráðast í umfangsmikla einkavæðingu á þessu sviði og ég hlýddi með mikilli athygli á sjónarmið hv. 17. þm. Reykv. í því sambandi. Bíðum aðeins með þá umræðu.

Hitt er ekki síður alvarlegt að Alþingi Íslendinga ætlar sér ekki að hafa neinar skoðanir á því, ætlar sér einfaldlega að skilja við málið með þeim hætti að hæstv. ráðherra og framkvæmdarvaldið geti bara haft það eins og það vill frá einum tíma til annars. Þetta er að verða lenska í stjórn þessarar ríkisstjórnar og ég er satt að segja að verða æ meira undrandi eftir því sem á kjörtímabilið líður hvað hv. stjórnarþingmenn láta hafa sig í að þeir skuli trekk í trekk í hverju málinu á fætur öðru hafa sig í það að knýja á og keyra í gegn lagafrumvörp sem eru klæðskerasaumuð fyrir framkvæmdarvaldið þar sem sagt er einfaldlega: framkvæmdarvaldinu er heimilt að hafa þetta eins og það vill. 7. gr. frv. um loftferðir er nákvæmlega dæmi af þeim toga. Hæstv. samgrh. má hafa það eins og hann vill. Þannig ætti 7. gr. frv. að hljóma og þannig ættum við auðvitað að hafa það, þannig ættum við að ganga frá lagatextum að þeir segi það sem þeim er ætlað að meina.

Ég er þessu algerlega ósammála og hef ekkert undirgengist þá framsalskvöð sem mér virðist að stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi hafi gert. Það sé eitthvað sjálfgefið að þótt menn sitji í þessum enda salarins fái þeir allar heimildir á silfurfati og geti nánast ráðskast með hlutina eins og þeir vilja. Ég veit t.d. að hv. þm. sem gengur nú í salinn, hv. þm. Egill Jónsson, er ekkert hrifinn af svona ráðslagi innst inni. Hann vill ekkert hafa það að einhverjir ráðherrar geti farið sínu fram án þess að spyrja kóng eða prest. Hann vill auðvitað að Alþingi hafi um það eitthvað að segja og ráði því frá einum tíma til annars. Vissulega má segja með sanni að einhver örlítill áfangasigur hafi náðst í þessum efnum og Alþingi eilítið reist við virðingu sína, þ.e. stjórnarmeirihlutinn. Við skulum hafa það eins og það er því að eftir 2. umr. eða við lok hennar öllu heldur kom hæstv. samgrh. fram og lagði eitthvað til málanna í þessum ræðustól þar sem hann gerði að tillögu sinni að fjárveitingar skv. 7. gr. skyldu vera samkvæmt heimild í fjárlögum og flugmálaáætlun, eins og það hljómar. Sú brtt. er síðan til umræðu og afgreiðslu og þess er að vænta að allnokkur sátt verði um að það horfi þó til bóta. Á hinn bóginn er engan veginn gengið nógu langt, þ.e. þessi brtt. er þannig úr garði gerð að maður veltir því dálítið fyrir sér hver virkni hennar verður þegar til kastanna kemur því að auðvitað gefur auga leið að við fjárlagagerð á komandi hausti er samgrh. það einfaldlega í lófa lagið að setja það inn undir einn lið. Nú vil ég, virðulegi forseti, biðja um áheyrn hæstv. samgrh. því að það er tillaga hans sem við erum að ræða og mig langar að biðja um álit á því ...

(Forseti (GÁ): Forseti biður um að menn fækki fundum í salnum og hlýði á ræðumann.)

(Gripið fram í: Hvað mega þeir vera margir?) (Gripið fram í: Hvað telst vera fundur að mati forseta?)

(Forseti (GÁ): Það telst vera fundur þegar þrír hafa sest saman og tala hver við annan. --- En nú hefur ræðumaður hljóð að nýju og getur haldið áfram ræðu sinni.)

Ég þakka fyrir það, virðulegi forseti. Ég var að ræða á þessum fundi um brtt. hæstv. samgrh. sem kveður á um að skv. 7. gr., einkavæðingargreininni, þurfi Alþingi að samþykkja heimildir í fjárlögum og flugmálaáætlun. Ég sé alveg fyrir mér og það er ósköp einfalt að afgreiða það við fjárlagagerð á komandi hausti, að einn liður verði undir rekstri Flugmálastjórnar, einhverjar X kr. til þess að kaupa ný fyrirtæki og hlutdeild í öðrum, ellegar menn fari hina gömlu leið sem mér finnst öllu líklegra að það verði bara einföld 6. gr. heimild þar sem hæstv. ráðherra verði heimilt að kaupa og selja að vild. Það hafa menn séð mjög oft þannig að auðvitað er ekkert hald í brtt., ekki nokkur skapaður hlutur. Það er ekkert hald í því að Alþingi fái tækifæri til að koma aftur að pólitískri ákvörðun um það þegar, og ég segi þegar en ekki ef, því að ég veit að stefnt er að þessu leynt og ljóst, að tilteknir þættir í rekstri flugvalla, flugstöðva eða öðrum þeim vettvangi sem þetta frv. heyrir til verða einkavæddir, verða seldir eða sameinaðir við einkaaðila og það er þetta sem ég gagnrýni mjög harðlega.

Það er rétt að rifja það upp enn og aftur hvernig umræðan gekk til með Póst og síma forðum daga og það er ekki langt síðan, það er hálft annað ár, þegar hæstv. ráðherra sem sat þá hérna megin í þessum sal og í þessum ræðustól áréttaði það að engar þær ákvarðanir yrðu teknar um skiptingu fyrirtækisins, um sölu fyrirtækisins öðruvísi en haft yrði samband við hið háa Alþingi og því yrði leyft að fylgjast með málinu.

[17:00]

Hvað hefur gerst? Nákvæmlega hið gagnstæða. Við þingmenn, hvort sem við sitjum í samgn. þingsins eða ekki, höfum mátt fylgjast með því hvernig hæstv. samgrh. dettur í hug í viðtölum við sjónvarp eða útvarpið eða í einhverjum spjallþáttum í fjölmiðlum, hvernig hann ætlar að selja og skipta þessu upp og hafa þetta bara eins og hann vill. Það er komið á daginn að enginn þarf að spyrja Alþingi um neitt. Hann hefur þetta hlutafélag núna, Landssímann hf. og Íslandspóst hf. alveg eins og hann vill. Hann þarf ekki að spyrja nokkurn mann að því hér inni hvernig hann fer með þann eignarhlut, þrátt fyrir fyrirheit og loforð um hið gagnstæða.

Ég segi bara eins og það er, virðulegi forseti, með fullri virðingu fyrir framkvæmdarvaldinu og mörgum ágætum hæstv. ráðherrum, að ég treysti þeim ekki fyrir þessu valdi. Fyrir hálfu öðru ári síðan eða þar um bil, þegar við afgreiddum hlutafélagavæðingu Pósts og síma, varaði ég sérstaklega við þessu. Stjórnarþingmenn hins vegar börðu í borðið þráfaldlega og sögðu: ,,Það er tryggt að Alþingi verður haft með í ráðum. Mjög náið samband verður haft við Alþingi ef gerðar verða þessar breytingar`` sem eru nú þegar orðnar og í aðsigi hvað varðar Póst og síma hf., Landssímann hf. og Íslandspóst hf. Þetta eru efndirnar í þeim efnum. Og er einhver ástæða til að ætla annað, virðulegi forseti, en að eitthvað annað verði upp á teningnum hvað varðar 7. gr. þessa frv., um flugbransann? Að einhver ástæða sé til að ætla að hæstv. samgrh., þessi eða einhver annar, leggi sig í líma við að koma til Alþingis og lýsa viðhorfum sínum og eiga í orðastað við þingmenn um það hvernig þeir og hann sjái framtíð mála þróast í þessum efnum? Það er ekki nokkur ástæða til þess heldur þvert á móti. Það er nokkurn veginn hægt að gefa sér að hann geri það ekki. Það er nokkurn veginn hægt að gefa sér það og fullyrða það hér og nú að það gerir hann ekki.

Aðkoma Alþingis að því hvernig skipan mála verður hjá Flugmálastjórn ríkisins er í síðasta skipti hér við 3. umr. þessa máls. Menn munu vafalaust halda einhverjar ræður um það en ekki þannig að neinn þurfi á þær að hlusta, ekki þannig að lög standi til þess að Alþingi eigi eða hafi rétt til þess í raun og sanni að hafa á því skoðanir. Það er þessi eymd og það er þetta undanhald Alþingis sem ég gagnrýni harðlega og mér finnst veruleg öfugþróun í störfum þingsins.

Ég vil taka það fram að vafalaust er hæstv. samgrh. hvorki betri né verri en aðrir ráðherrar hvað það varðar að vera handhafi þess valds sem Alþingi veitir honum og öðrum ráðherrum. Ég bara segi: Ætlar þetta engan enda að taka, virðulegi forseti, þetta framsal Alþingis til framkvæmdarvaldsins? Eru stjórnarþingmenn orðnir hreint og klárt handbendi og þykir það kannski best og þægilegast að ráðherrarnir sjái bara um þetta þannig að hið háa Alþingi þurfi ekkert að koma að því að taka neinar pólitískar ákvarðanir, sé bara tæknileg útfærslustofnun eftir því sem vindar blása á Lækjartorginu? Þetta er þróun sem er slæm og mér er full alvara með það, virðulegi forseti, og ég trúi því að fleiri séu mér sammála, ekki eingöngu stjórnarandstæðingar heldur líka stjórnarsinnar.

Virðulegi forseti. Ég tala ekki svona eingöngu vegna þess að nú bregður svo við að ég er í stjórnarandstöðu. Ég þekki það að sitja hinum megin við borðið og veit mætavel að sumpart er það þægilegt fyrir ráðherra að hafa þægan og góðan meiri hluta sem klárar mál hratt og vel og veitir öll þau umboð sem beðið er um svo að hæstv. ráðherrar þurfi ekkert að vera að ómaka sig á því að snúast niðri á Alþingi, geti bara setið við sín skrifborð uppi í ráðuneytunum og klárað sín mál þaðan. Það er vissulega mjög þægilegt. En ég hygg að steininn hafi algerlega tekið úr hvað þessa þróun varðar á yfirstandandi kjörtímabili.

Mér er minnisstætt að framsóknarmenn sem eru auðvitað ekki við þessa umræðu frekar en fyrri daginn ... (Gripið fram í: Þeir áttu einu sinni sjálfstætt líf.) Þeir áttu einu sinni sjálfstætt líf, já. En mér er minnisstætt einmitt í þá árdaga þegar þeir áttu það og voru í stjórnarandstöðu að þeir héldu ófáar ræðurnar einmitt um þetta. Ég segi bara eins og er að í síðustu ríkisstjórn, þar sem ég sat hinum megin við borðið, datt mönnum aldrei nokkurn tíma í hug að biðja um heimildir eins og hér er verið að veita á silfurfati. Aldrei.

Virðulegi forseti. Bara fyrir forvitnissakir. Eru einhverjir flokksbræður hæstv. forseta í húsinu? (ÁRJ: Þeir hafa nú ekki sést hér lengi. Varla við umræður.)

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að einhverjir eru hér í húsi og hlýða á umræðu.)

(Gripið fram í: Er ekki rétta að kalla þá til?) Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hv. varaformaður samgn. eða hv. þm. Stefán Guðmundsson sem situr í samgn. --- þeir eiga að vera og eru sérfræðingar Framsfl. í þessum efnum --- komi til þessarar umræðu því að ég á dálítið vantalað við þá í ljósi þess sem ég var að tala um áðan.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að hv. þm. Stefán Guðmundsson er ekki í húsi en hér má sjá að hæstv. ráðherrar Ingibjörg Pálmadóttir og Finnur Ingólfsson eru í húsinu.)

Mér er ekkert gagn í þeim.

(Forseti (GÁ): Þetta eru ekki viðurkvæmileg orð.)

Virðulegi forseti. Ég sagði að mér væri ekkert gagn í þeim í þessu samhengi. Það var það sem ég átti við því að ég er að ræða um virðingu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. (Gripið fram í: Þá er ekkert gagn að þeim.) Ég þekki þeirra skoðanir og viðhorf en mér þykir (Gripið fram í: Þau tengjast ekkert virðingu fundarins.) afspyrnuslæmt að sérfræðingar Framsfl. í þessum efnum skuli ekki vera hér nærri.

Af því að ég nefndi til sögunnar Stefán Guðmundsson, þá hef ég sagt það stundum áður og raunar vil ég ekki undanskilja hæstv. forseta, hv. þm. Guðna Ágústsson í þeim efnum, að þar hafa farið merkisberar félagshyggjunnar í hinum gamla Framsfl. Það fer nú að verða dálítið trénað að nefna þetta af því að það er svo langt síðan hann var og hét og gat staðið undir því heiti að vera félagshyggjuflokkur. En mikil lifandis skelfing átti ég von á því að þessir unnendur félagshyggju í árdaga legðu eitthvað til mála þegar mál af þeim toga er hér til umræðu eins og 7. gr. kveður á um, þ.e. myljandi einkavæðing. Og það er eins og það rifjist upp fyrir mér í þessu samhengi þegar ég horfi til hæstv. forseta að einhvern tíma á síðasta kjörtímabili hafi hann haldið nokkrar ræðurnar um karlana með svörtu hattana sem væru hér allt að gleypa og eignast, um kolkrabbann og ,,háeff``-væðinguna. Og hér eru heldur betur slík tíðindi á ferð og ekki einn einasti þingmaður Framsfl., nema hæstv. forseti sem á auðvitað óhægt um vik með að koma til þessarar umræðu fyrr en kannski á eftir, vill leggja nokkuð til málanna. Þetta eru veruleg tíðindi, virðulegi forseti. Menn hafa verið að gera gaman að því og leggja út af því pólitískt þegar hæstv. forsrh. kom í ræðustól um daginn og leysti varaformannsvandamál Sjálfstfl. með því að innlima Framsfl. En það er að gerast á fleiri sviðum en með þessum einu táknrænu dæmum um sameiningu flokkanna tveggja, helmingaskiptaflokkanna, utanrrh. og forsrh. Þetta er líka að gerast á málefnasviðinu því ekki er að finna nokkurn áherslumun milli þessara tveggja flokka þegar kemur að grundvallarsjónarmiðum í pólitík. Það er ekki flóknara en það. Þar rennur þetta saman alveg í súrrandi sæld, gleði og ánægju. (Gripið fram í: Hvort er það á miðjunni eða til hægri?) Fyrst hv. þm. hefur ekki lagt við eyrun þá er þetta myljandi hægri stefna. Það er alveg eins skýrt og það getur verið.

Ég var áðan að ræða um virðingu þingsins í þessu samhengi en nú vík ég að pólitíkinni í þessu sem er auðvitað þannig, af því að hv. þm. spurði um það, að hér er um að ræða grímulausa einkavæðingu og því held ég að nauðsynlegt sé að menn fari aðeins yfir það. Er svo óskynsamlegt á þessum vettvangi að fara í afmarkaða einkavæðingu, mikla eða litla? Ég skal ekki útiloka það ef ég heyri rök í þá veruna. Ég er alveg opinn fyrir því að ræða það. Vissulega er það svo úti í hinum stóra heimi að alls kyns rekstrarform eru á stórum flugvöllum í okkar nágrannalöndum. Bæði er það ríkisrekstur og það er sameignarrekstur ríkis og einkaaðila. Það er allra handa. Sums staðar gengur það betur en annars staðar og það er allur gangur á því. En ég kalla eftir rökum. Ég vil heyra hvaða pólitískar og praktískar hugmyndir hæstv. ráðherra hefur í huga þegar hann setur niður á blað beiðni frá hinu háa Alþingi um heimild til þess að einkavæða. Hvað þýðir það í raun og sanni? Hvað ætlar ráðherrann sér með þessar heimildir?

Ég rakti nokkur dæmi og vakti athygli á nokkrum möguleikum í þessum efnum og ætla út af fyrir sig ekki að endurtaka það allt. Ég vil hins vegar heyra frá hæstv. ráðherra sjálfum: Hvað sér hann sem fyrsta skref hvað varðar sameiningu Flugmálastjórnar og einkaaðila? Hvaða rekstrarþættir eru það fyrst og síðast sem hann ætlar að fara í? Hann nefndi hér ákveðið þróunarstarf sem er auðvitað þekkt. Það má til sanns vegar færa að skynsamlegt sé að háskólinn komi að þessu verkefni. Ætlar hann sér að ná samstarfi við einkaaðila um aðra þætti í rekstri Flugmálastjórnar, annaðhvort með því að kaupa þjónustu þeirra eða að sameina hluta Flugmálastjórnar þessum hagsmunaaðilum? Eru það einhver tiltekin atriði? Það er ekki orð um það, ekki eitt aukatekið orð. Það er bara beðið um þessa heimild. Svo ætlar ráðherrann að hafa það eins og hann vill.

Virðulegi forseti. Þannig getum við ekki skilið við þetta mál því að þetta er rammpólitískt mál. Hér erum við að setja pólitíska stefnumörkum til næstu og lengri framtíðar --- Virðulegi forseti. Nú er fundahöldum farið að fjölga hér í húsi.

(Forseti (GÁ): Forseti verður enn og aftur að biðja hv. þm. um að spara hér fundi meðan ræðumenn tala.)

Virðulegi forseti. Ég var að segja að hér er um lagasetningu að ræða sem menn munu væntanlega búa við um langa framtíð því að ég þekki það og skynja að hæstv. ráðherra ætlar ekki að hafa þessa heimild án þess að nota hana. Hann ætlar sér að ganga vasklega til verks í þeim efnum og menn fara ekki í strúktúrbreytingar, í kerfisbreytingar, í grundvallarbreytingar á flugrekstri og eignarhaldi á flugvöllum og bakka síðan út úr því eftir eitt eða tvö ár. Það er verið að byggja til framtíðar og þess vegna verða menn að vanda sig í þessu sambandi. Það er ekki hægt að kasta til þess höndum. Fagna ég því nú alveg sérstaklega, virðulegi forseti, að hér skuli ganga í salinn hv. formaður þingflokks Framsfl., (Gripið fram í: Og Sjálfstfl.) hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. (LB: Varaformaður þingflokks Sjálfstfl.) Ég fagna því líka og vil nota tækifærið og óska til hamingju nýkjörnum formanni þingflokks Sjálfstfl. Þeir hafa verið hér nokkrir sjálfstæðismenn en einkum og sér í lagi var gaman að sjá hér Framsfl., þ.e. ... (Gripið fram í.) Hann er hér því að hv. þm. er sá eini sem hefur verið representeraður við þessa umræðu og hafi hv. þm. fylgst eitthvað með henni þá voru menn að ræða það hér hvort nokkur munur væri í raun og sanni á því og mér þætti vænt um að fá svör við því hvort Framsfl. væri algerlega sammála þeirri stefnumörkun sem hér er að finna, bæði hvað varðar þessar víðfeðmu heimildir til hæstv. samgrh., þetta framsal valds, og einnig pólitíkina, innihaldið í málinu, þessa lítt duldu einkavæðingu sem er að finna í 7. gr. Hæstv. samgrh. svarar því auðvitað engu hvernig hann ætlar að fara með hana. Ég árétta þá spurningu enn og aftur: Hvernig ætlar hann að nota hana? Ætlar hann að skipta Flugmálastjórn upp í marga búta? Ætlar hann að láta Flugleiðir koma inn í málið, Íslandsflug, Flugfélag Íslands eða hvaða aðila? Ætlar hann að selja Akureyrarflugvöll? Ætlar hann að byrja þar, efri hæðina eða neðri hæðina? (Gripið fram í: Erlenda aðila?) Hvað ætlar hann að gera við þetta? Hvaða erlendir aðilar koma að þessu? Hvaða sýn hefur ráðherrann á framtíð þessara mála? Verður Hornafjarðarflugvöllur kannski fyrstur? Er samkomulag um það við hv. þm. Egil Jónsson að samgrh. byrji á því að selja Hornafjarðarflugvöll til Íslandsflugs til að mynda eða Flugleiða? (Gripið fram í: Eða Færeyinga?) Það eru allir möguleikar opnir í þessu, virðulegi forseti. Ég spyr enn og aftur: Er það vilji þingsins að við skiljum við málið svona og réttum það bara veskú í hendurnar á hæstv. ráðherra og segjum: ,,Hafðu þetta bara eins og þú vilt, væni.``

[17:15]

Virðulegi forseti. (KÁ: Hvað kostar Hornafjarðarflugvöllur?) Ég hef ekki grænan grun um það. En, virðulegi forseti, mér er full alvara í þessu máli, hér eru engir útúrsnúninigar á ferð. Ég er e.t.v. að nefna hér dæmi til sögunnar sem virka kannski kjánaleg og virka alveg út úr kú. (Samgrh.: Hvaða vitleysa.) En þau eru raunveruleg. Hvaða vitleysa, segir hæstv. ráðherra, en þessi dæmi eru raunveruleg. (KPál: Hvað er að því að ...?) Hvað er því? Það er kannski ekkert að því. En við skulum fara aðeins yfir það. Það er ekkert að því, segir hv. þm. Kristján Pálsson sem er raunar fulltrúi í samgn. Er eitthvað að því að selja Akureyrarflugvöll til Flugfélags Íslands? Skoðum það mál aðeins. Nei, kannski er ekkert að því. Það getur vel verið að Íslandsflug, sem er samkeppnisaðili Flugfélags Íslands, teldi eitthvað smávegis að því, því að þá þyrftu þeir að sækja um aðstoð og þjónustu, fá leyfi til þess að lenda, hjá samkeppnisaðilunum. Það gæti eitthvað verið snúið í framkvæmdinni, en góðvinir hæstv. ráðherra hjá Samkeppnisstofnun mundu sennilega úrskurða um það og hann tæki auðvitað fljótt og hratt mark á því eins og fyrri daginn. Jú, það gætu orðið einhverjir smáárekstrar, virðulegi forseti, á þeim vettvangi. Það er hugsanlegt.

Þetta er einmitt af þeim toga sem ég vildi gjarnan að menn skoðuðu því að Flugmálastjórn ein og sér úrskurðar hér eftir ekki um eitt eða neitt því að hún er hluti af öllu dæminu. Úrskurðarvaldið er hluti af framkvæmdarvaldinu. Úrskurðarvaldið er hluti af þessu fyrirtækjaneti sem á að fara að búa hér til skv. 7. gr. Flugmálastjórn verður því alveg í einum grænum hvelli vanhæf þegar kemur að því, og við skulum halda áfram með þetta dæmi um Akureyrarflugvöll. Þegar kæmi að því að Íslandsflug kærði Flugfélag Íslands fyrir einhverja hugsanlega misbeitingu --- nú er ég auðvitað að tala í viðtengingarhætti --- sem eigandi eða rekstraraðili Akureyrarflugvallar, þá kemur til kasta dómstóla eða Samkeppnisstofnunar. Flugmálastjórn verður fljótlega vanhæf vegna þess að menn hafa kastað til þess höndum að skilja á milli eftirlitsþáttarins, stjórnsýsluþáttarins og framkvæmdarþáttarins í I. og II. kafla þessa frv., það atriði sem ég nefndi áðan. Allt rekur þetta sig í einn stóran og mikinn rembihnút. Það er vandi þessa máls.

Hér er því ekki eingöngu um pólitík að ræða, ekki eingöngu um pólitískar spurningar að ræða sem engin svör fást við, ekki eingöngu um það að ræða að menn verði æ frekar varir við það að Framsfl. og Sjálfstfl. séu eitt, og Framsfl. hafi engar sjálfstæðar skoðanir á grundvallarpólitískum viðhorfum, pólitískum spurningum á borð við einkavæðingu og láti mata sig á hverju sem er, hverju sem íhaldinu dettur í hug, heldur er það líka tæknin, hin tæknilega útfærsla málsins sem lendir fljótlega í strandi af því að menn ætla að skilja við þessa grundvallarlöggjöf vanbúna.

Þetta er það stórmál, virðulegi forseti, að það er fullkomið alvöruleysi að ljúka 3. umr. málsins eins og hér er gert ráð fyrir. Málið kom að sönnu aftur til umræðu í samgn. og menn ræddu þar ýmsar hliðar þess. Fyrst og síðast kom nú málið aftur vegna þess að hæstv. samgrh. kom með brtt. á síðustu stigum málsins. Hann mælti ekkert fyrir henni og skýrði það ekki á nokkurn hátt hvað hún ætti að standa fyrir. Ég nefndi það áðan að hún er auðvitað lítið meira en orð á blaði þegar að framkvæmdinni kemur og lítið hald í henni í raun og sanni fyrir hið háa Alþingi. Hann hefur öll tök á því máli, getur náð sér í eina 6. gr. heimild og gert hvað sem honum dettur í hug eftir sem áður, þannig að málið, virðulegi forseti, er vanbúið, það er kjarni þessa máls. Það er fullkomlega vanbúið.

Ég er ekkert undrandi á því, virðulegi forseti, að hæstv. samgrh. sýni því engan áhuga hér að ræða málið málefnalega og pólitískt, fara í pólitíska umræðu um t.d. einkavæðingu á þessum vettvangi. Ég er heldur ekkert undrandi á því að virðulegir þingmenn sem eru þekktir að góðu einu, þingmenn á borð við Egil Jónsson, komi hér og vilji ekki tala um þetta mál, vilji ekki nefna það til sögunnar því þeir hafa auðvitað af þessu áhyggjur og það fór ekkert hjá því að maður yrði var við það í góðu starfi samgn. Og það er ekkert skrýtið í þessu samhengi að ágætir félagshyggjumenn á borð við Stefán Guðmundsson flýi þingsalinn þegar þessi óskapnaður er keyrður hér í gegn.

Ég hef skilning á því út frá mannlegu sjónarmiði en þeir verða engu að síður að bera sína ábyrgð, þeir eru hluti af þessum flokki, sem svo hét, og heitir raunar enn en er ekki lengur, Framsfl., eftir sameininguna við íhaldið. Þeir eru hluti af þeim flokki enn þá.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég heyri það og skynja að það er ekki til neins. Það er satt að segja ekki til neins. Doðinn og drunginn í þessu stjórnarliði þegar kemur að því að ræða pólitík, til þess að hafa hér pólitískar skoðanir, til þess að taka hérna pólitíska umræðu um grundvallaratriði í íslensku samfélagi, gerir það að verkum að það er ekki hægt. Það er gjörsamlega ekki hægt lengur. Þingmeirihlutinn hér inni er að lufsast þetta --- og fyrirgefðu orðbragðið, virðulegi forseti, eins og ráðherranum þóknast hverju sinni.

Ég átti satt að segja von á því, þekkjandi hér marga ágæta stjórnarþingmenn að góðu einu, að þeir létu ekki tosa sér svona fram og til baka blindgötuna án þess að spyrna við fótum. Kæmu hér a.m.k. upp í umræðu um grundvallarpólitík eins og hér um ræðir og lýstu viðhorfum sínum. Hv. þm. á borð við Kristján Pálsson sem yfirleitt er nú ekki hræddur við þennan ræðustól og sagði áðan: Er eitthvað að því að einkavæða Akureyrarflugvöll? Nei, kannski er ekkert að því en það væri þá fróðlegt að heyra frá hv. þm. hvaða sýn hann hefur í þeim efnum og hvernig hann ætlar að leysa úr ákveðnum jafnklárlega tæknilegum vandamálum sem upp koma þegar einn samkeppnisaðilinn á flugvöllinn og annar samkeppnisaðili vill fljúga þangað. Bara svo að menn taki tæknilegt úrlausnarefni á þessum litla markaði okkar, sem er alveg fyrirsjáanlegt. Það væri fróðlegt að heyra það, því að ljóst er að ekki ætlar hæstv. samgrh. að leyfa okkur að njóta viðhorfa hans í þessum efnum. Nei, hann ætlar að koma í útvarpið eða sjónvarpið eftir helgina og segja þjóðinni og okkur hvernig hann ætlar að hafa þetta, þegar við erum búin að afgreiða frv., gott fólk, virðulegir hv. þm. Þegar við erum búin að afgreiða þetta hér þá kemur hann í sjónvarp um helgina og segir okkur nákvæmlega hvernig hann ætlar að hafa þetta. En að honum detti í hug að eiga hér orðastað um þetta við hv. alþingismenn og ræða pólitík, skiptast á skoðunum, nei, það er algjörlega af og frá. Þetta er auðvitað ekki nein mynd og enginn bragur á þessu, virðulegi forseti, og alveg óþolandi að búa við þetta.

Hv. þm. Árna Johnsen bar hér á góma og það ekki að ósekju því að hann er auðvitað snar þáttur í þessum málum, mikilvægur hlekkur þegar kemur að 8. gr. frv. sem varðar flugráð, því að hv. þm. hefur setið í þessu ráði og er sérfræðingur í þessum málaflokki. Saknar maður vinar í stað að hann skuli ekki vera við þessa umræðu til að upplýsa og koma með almennar upplýsingar um gang mála því að hann er auðvitað hafsjór fróðleiks þegar að þessum málaflokki kemur. (Gripið fram í: Það er búið að senda hann til Síberíu) Er hv. þm. Árni Johnsen í Síberíu? (Gripið fram í: Já.) Þar fór í verra. En flugráðið og þær brtt. sem samþykktar voru við 2. umr. sýndu okkur það í raun og sanni að menn áttu í standandi vandræðum með að klára þetta frv. í sæmilegri sátt hvað varðar stjórnkerfisþáttinn. Í frv. sjálfu var flugráð einfaldlega tekið af lífi. Í frv. frá hæstv. ráðherra og frá ráðuneytinu var flugráð einfaldlega tekið af lífi. Það var þarna en það er skipað að einu og öllu leyti af hæstv. samgrh.

Eftir mikið japl, jaml og fuður, þar sem þingmenn vildu eitthvað að málinu koma, þá varð það úr að hæstv. ráðherra skipar formann og varaformann en hið háa Alþingi skipar hin þrjá ráðsmennina. Ég kallaði eftir því en fékk engin svör við því frekar en mörgu öðru hvort einhver fordæmi væru fyrir því í stjórnkerfinu hjá okkur að hæstv. ráðherra skipaði formann og varaformann, tvo af fimm. En ég fékk engin svör við því og held að þau séu ekki til.

En eftir sem áður er flugráðið algjörlega og fullkomlega handalaust og fótalaust, hefur ekkert um málin að segja þegar til kastanna kemur því að flugmálastjóri og Flugmálastjórn heyrir beint undir ráðherrann. Flugráð er eins konar tota út úr þessu systemi öllu, má út af fyrir sig fjalla um hvað sem því dettur í hug, má út af fyrir sig ræða allt það sem því dettur í hug, en það er algjörlega undir hælinn lagt, og raunar ekkert ráð fyrir því gert að á viðhorf þess sé neitt hlustað. Það eru bara bein samskipti milli flugmálastjóra og ráðherra sem eru ráðandi í þessu sambandi. Og raunar er það þannig að flugmálastjóri hefur eiginlega í hendi sér hvort hann hafi nennu og vilja til að sitja fundi flugráðsins. Enda hver væri svo sem tilgangurinn með því þegar það sem það segir eða ályktar um hefur ekkert gildi í þessu sambandi? Hérna er því, virðulegi forseti, enn einn þátturinn í þessu frv. þar sem menn hafa kastað til höndum. Kannski er einhver undiralda í þessu sambandi sem ég kann ekki á og fylgist ekki með, einhverjir einstaklingar sem hafa ekki verið sammála um það hvernig frá átti að ganga. Það er eins og mig reki minni til þess að einstakir flugráðsmenn hafi verið ósammála til að mynda hæstv. samgrh. um einstök mál. Í því sambandi nefni ég til sögunnar fulltrúa Framsfl. gamla, sem hafði einhver önnur viðhorf til tiltekinna mála, sem er raunar starfsmaður þingflokks Framsfl., Gunnar Hilmarsson. Kannski það hafi átt þátt í því að hið háa ráðuneyti ákvað að taka flugráð úr sambandi, gera það þannig úr garði að það hefði ekkert um málin að segja hér eftir, mætti vera en mætti ekkert segja. Ég veit það ekki, en það væri eins og amen eftir efninu að taka Framsókn úr sambandi ef þeir láta illa, það er hugsanleg skýring. En það breytir því ekki að ef menn ætla ekkert að gera með þetta flugráð og hlusta ekkert á það, þá er fíflska og ekki vönduð vinnubrögð að halda því til haga eftir sem áður.

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að stytta mál mitt. Ég vil bara að lyktum segja þetta: Það er margt úr stíl í þessu frv., annað í stíl ríkisstjórnarinnar. Eitt það atriði sem ég hef látið ógetið og er algjörlega úr stíl við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar hvað varðar skipulag ríkisfyrirtækja er að finna í 2. mgr. 6. gr. frv. þar sem ráð er fyrir því gert að ráðherra ráði framkvæmdastjóra einstakra sviða stofnunarinnar.

Þetta er algjörlega úr stíl. Ég man ekki betur í umræðum þar sem fyrrv. fjmrh., Friðrik Sophusson, fór mikinn, að meginkjarninn og meginlínan í þessu öllu saman væru æðstu stjórnendur viðkomandi stofnunar sem ættu að hafa um það að segja hverjir væru ráðnir og reknir, bæru ábyrgð og ættu því að njóta valdsins. Hér hins vegar hefur ráðherra búið þannig um hnúta og séð svo um að hann ætlar sjálfur að handvelja deildarstjóra og framkvæmdastjóra einstakra sviða. Þetta er líka algjörlega úr stíl. Og það eru einhver undirmál þarna sem ég kann ekkert á eða einhverjar skýringar sem ég hef ekki fengið. Kannski ráðherrann vilji greiða úr þeirri flækju, ég hef þó enga trú á því. Þarna er kannski eitthvað persónulegt sem ég kann ekki skil á. En þetta er engu að síður algjörlega úr stíl hvað pólitíkina varðar.

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að stytta mál mitt eins og frekast hefur verið kostur en það er auðvitað erfitt í jafnstóru og viðamiklu máli, í jafnpólitískt viðkvæmu máli og hér um ræðir. Ég mun auðvitað fylgjast með því hvort einhverjar skýringar er að fá við ýmsum þeim tæknilegum spurningum sem ég hef kastað hér fram. Ég hef enga trú á því og vænti þess ekki að ég fái nein svör eða nein skoðanaskipti um hin pólitísku álitaefni. Menn eru búnir að sauma fyrir munninn á sér hvað þau varðar, láta bara ráðherrana um það og eru búnir að framselja vald sitt þannig að ég á ekkert von á því að hósti né stuna heyrist frá nokkrum þingmanni stjórnarliða þó að þeir hafi nokkrir setið við þessa umræðu.