Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:29:18 (5698)

1998-04-22 13:29:18# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og þær upplýsingar, að a.m.k. í orði kveðnu, að ekki standi til að breyta hlutverki og stöðu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Við hljótum þá líka að krefjast þess að það verði einnig á borði. Hæstv. ráðherra taldi að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefði fengið auknar fjárveitingar og það er rétt, svo langt sem það nær. Hitt er ljóst að hér á Alþingi og í ríkisstjórnum á undanförnum árum hefur verið stefnt að því að auka hlutverk sjúkrahússins. Nýjar stöður hafa verið veittar og nýjar sérgreinar teknar upp, án þess að fjármagn hafi fylgt til að mæta viðbótarkostnaði sem af því hlýst. Það liggur algjörlega fyrir.

[13:30]

Mér þótti, herra forseti, mjög miður að hæstv. ráðherra skyldi gagnrýna stjórnendur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri fyrir að þeir hafi kynnt starfsfólki sínu, bæjarstjórn Akureyrar og eftir atvikum fjölmiðlum þá stöðu sem blasir við þeim, og þær ákvarðanir sem þeir standa frammi fyrir að taka í öllu falli, hvort sem lengur eða skemur dregst að þeir fái einhverja úrlausn úr pottunum margfrægu. Menn verða að átta sig á því, herra forseti, að það er erfitt verk að reka lítið, deildaskipt sjúkrahús eða sérgreinasjúkrahús eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er. Þar eru fáskiptar vaktir og það er mikið álag og lítið má út af bera ef á að halda utan um rekstur slíkrar einingar.

Menn ættu líka að hugleiða þær aðstæður sem stjórnendum eru búnar við þessar kringumstæður, þá óvissu sem þeir standa frammi fyrir. Nú er upplýst að fyrst um miðjan maí sé að vænta --- ekki ákvörðunar heldur tillagna um hvernig pottunum verði skipt, þegar árið er að verða hálfnað, sem á að nota fé úr þeim sömu pottum til að reka hlutina með. Þetta eru auðvitað óverjandi vinnubrögð.

Ég gagnrýni hæstv. heilbrrh. og heilbrrn. fyrir þessi vinnubrögð en ég gagnrýni líka, herra forseti, meiri hlutann í fjárln. og meiri hlutann á Alþingi sem skrifaði upp á þessi vinnubrögð og lagði blessun sína yfir þau um síðustu áramót. Það er nú að koma á daginn, sem þá var haldið fram, að þetta var ekki aðferð til að leysa málið á farsælan hátt. Þetta, herra forseti, er mjög ámælisvert og verður vonandi til þess að menn vinna öðruvísi og betur að hlutunum í framtíðinni.