Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:30:42 (5724)

1998-04-22 18:30:42# 122. lþ. 110.23 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:30]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að við flm. höfum aldrei efast um að þingið gat og mátti breyta þessu eins og gert var 1994. Aldrei hefur annað komið fram. Við teljum hins vegar að það hafi verið rangt. Það hefði átt að skipta félaginu upp milli tryggingatakanna sem voru og eru sannarlega eigendurnir. Við erum að fara fram á það með þessu frv. svo að ég fari enn þá einu sinni yfir það að hinum réttu eigendum sé þá úthlutað þessu því að það hefur orðið breyting á. Þó nokkuð margir hafa dáið og fyrirtæki verið afskráð og þetta hefur orðið sameign sveitarfélaganna. Ekkert í frv. er um að breyta því. Það á ekkert að taka neitt af neinum. En eignarrétturinn er varinn í stjórnarskránni og það liggur alveg ljóst fyrir um hvað þetta er. Það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur um það. Það er enginn misskilningur í málinu. Það er alveg skýrt. Við erum að fara fram á að það sem við teljum að hefði átt að gera 1994 sé gert núna. Það er enginn misskilningur á nokkurn hátt og ég veit að allir aðilar sem standa að þessu, hvort sem þeim líkar þessi málflutningur betur eða verr, skilja alveg um hvað þetta er. Það er enginn misskilningur milli mín og hv. 1. þm. Austurl. Alls enginn. Þetta er um að virða eignarrétt og virða prinsipp.