PCB og önnur þrávirk lífræn efni

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:58:22 (5728)

1998-04-22 18:58:22# 122. lþ. 110.9 fundur 535. mál: #A PCB og önnur þrávirk lífræn efni# þál., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:58]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um PCB og önnur þrávirk lífræn efni. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Árni M. Mathiesen.

Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að gera úttekt á hvar PCB og önnur þrávirk lífræn efni er að finna hér á landi og í hve miklu magni. Jafnframt geri ráðherra tillögu um eyðingu þeirra efna sem geta reynst skaðleg lífríkinu.``

Herra forseti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessa þáltill. svo kunn eru orðin áhrif þeirra eiturefna sem hún fjallar um. Áhrifin eru mjög alvarleg vegna þess að þau geta valdið krabbameini, heft þroska manna og dýra, valdið ófrjósemi og fyrir fiskveiðiþjóð eins og Íslendinga stórskaðað ímynd landsins. Staðreyndin er nefnilega sú að PCB-efnin finnast helst í lífríkinu við sjóinn en miklu síður í lífríkinu á landi þó álitið sé að þessi efni berist vegna uppgufunar og flytjist þannig milli landa og yfir höfin og safnist fyrir í frostgildrum á norðurslóðum. Þetta sést þegar skoðaðar eru rannsóknir annars vegar á landfuglum eins og rjúpu og hins vegar sjófuglum eins og æðarfugli. Það kemur fram í greinargerðinni að PCB-mælingar á rjúpu sýna minna magn í þeim en í samanburðarhópum í Kanada og á Svalbarða á meðan dæmið snýst við þegar skoðaðar eru rannsóknir á æðarfugli á Álftanesi sem hefur tífalt meira magn af PCB en æðarfugl í Kanada. Þetta segir okkur að uppsöfnun á þessum efnum er miklu alvarlegri í sjónum en á landi og skaðar meira.

[19:00]

Mælingar á annars konar mengun, þ.e. þungmálmi eins og kvikasilfri sýna okkur einnig að mikið magn af kvikasilfri er í sjófuglum við Íslandsstrendur samanber fjölstofnarannsóknir Hafró 1992--1995 og mælist hæst í fullorðnum sjófuglum við Látrabjarg miðað við sjófugla í Skotlandi, Hjaltlandseyjum og Norður-Noregi. Ég kem aðeins inn á þetta sérstaka atriði vegna þess að mengunin er mun víðar.

Ekki er talið að þetta mikla magn kvikasilfurs í bjargfuglum geri neyslu sjófuglakjöts hættulega. Þess ber þó að geta að styrkur kvikasilfurs í kjöti íslenskra bjargfugla liggur ekki fyrir svo ég viti og verður að telja eðlilegt að slíkt verði rannsakað hið fyrsta og er í raun ámælisvert að slíkar rannsóknir skuli ekki hafnar nú þegar miðað við þessar niðurstöður um mengun.

Sama á að sjálfsögðu við um þrávirk lífræn efni sem eru hættulegri og verður að segjast að hér heima verðum við að mestu að styðjast við erlendar rannsóknir. Tillaga um slíka rannsókn liggur þó fyrir þinginu, þar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson er 1. flm., þar sem gert er ráð fyrir því að mæla þrávirk lífræn efni í lífríkinu.

Afleiðingar PCB-mengunar eru kunnar af ýmsum rannsóknum frá ýmsum stöðum í heiminum, samanber rannsóknir á konum sem neyttu PCB-mengaðrar hrísgrjónaolíu í Japan og Tævan og leiddu þær í ljós að börn þeirra þroskuðust seinna bæði andlega og líkamlega miðað við önnur börn mæðra sem ekki voru sýktar. Þessi börn mældust einnig með lægri greindarvísitölu og áttu við óvenjuleg hegðunarvandamál að stríða. Sömu áhrif áttu sér stað vegna PCB-mengunar fisks í Michigan- og Ontaríóvötnum og hafa þungaðar konur verið varaðar við neyslu fisks úr sumum ám og vötnum í Bandaríkjunum.

Miðað við þær rannsóknir sem ég hef vitnað í er fyllilega ástæða til að við gerum þessum málum rækileg skil en á það hefur verulega skort.

Við höfum horft upp á slys af völdum PCB-mengunar eins og kemur fram í grg. með þessari þáltill., slys sem var á Neskaupstað og Fáskrúðsfirði 1988. Þar var ekkert gert til að hefta útbreiðslu mengunarinnar eða kanna sorphauga svæðisins frekar. Það var talið allt of dýrt. Hollustuvernd ríkisins fékk ekki fjárveitingu til að kanna hvar PCB-mengun væri að finna og í hve miklu magni við strendur landsins eins og stofnunin hafði farið fram á.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa síðar um skaðsemi þessara efna á lífríkið tel ég að engan tíma megi missa til að gera þá könnun sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir. Mikið magn PCB í æðarfugli á Álftanesi, í fjörum forsetasetursins, benda til þess að mikið magn þessara efna sé í skeljum og þörungagróðri sem æðarfuglinn étur. Hvaðan þetta PCB-magn kemur í fjörurnar er spurning sem þarf að svara. Svarið gæti legið í því að spennar sem hefur verið fargað í nágrenninu væru farnir að leka. Það gæti vel verið miðað við reynsluna frá Neskaupstað og frá Fáskrúðsfirði. Ég vil leyfa mér að vitna í bréf sem Hollustuvernd ríkisins sendi til heilbrrh. um þá rannsókn. Í því bréfi stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Hjálagt sendist yður skýrsla um niðurstöður rannsókna á kræklingi í Norðfirði og Fáskrúðsfirði með tilliti til PCB-mengunar. Um tilefni rannsóknarinnar vísast til bréfa mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins til heilbrrn. dagsettra 18. maí og 31. júlí 1988.

Eins og fram kemur í skýrslunni mældist töluverð mengun í kræklingi nærri þeim stöðum þar sem vitað er að PCB hafi verið fargað. Um er að ræða styrk sem er um það bil 13 sinnum hærri en í viðmiðunarsýnum teknum á svipuðum slóðum en fjarri förgunarstöðum og helmingur þess sem venjulega mælist í kræklingi við strendur Danmerkur. Ekki er um að ræða neina verulega hættu af völdum mengunarinnar enn sem komið er en ljóst er að sigvatn frá sorphaugum hefur mengað lífverur í nálægu umhverfi. Frá sorphaugunum mun að öllum líkindum lengi enn stafa mengun af völdum PCB þótt förgun hafi nú verið hætt og því er sá möguleiki fyrir hendi að mengun lífvera eigi eftir að vaxa.``

Herra forseti. Þetta bréf ásamt þeim rannsóknum sem ég hef vitnað í segir okkur að leki sem sá sem ég vitnaði í í skýrslunni hefur haft áhrif hér á landi. Þessu svipar til þeirra mælinga sem hafa verið gerðar á Álftanesi þegar borin er saman mengun þar miðað við mælingar á fuglum á viðmiðunarstöðum á Svalbarða og í Kanada. Á Fáskrúðsfirði mælist 13 sinnum meiri mengun í kræklingi á menguðum stöðum en fyrir utan mengunarstaðina eða á viðmiðunarstöðum. Hvort það er einhver vísindaleg sönnun í því er annað mál en það eru vísbendingar sem ég tel fulla ástæðu til að nýta sér. Það er ljóst, herra forseti, að þær rannsóknir sem til eru gefa til kynna það magn sem er í þeim fugli sem hefur verið mældur við strendur landsins eins og æðarfugli. Magnið er verulega mikið þó að það sé ekki talið skaða enn þá.

Þetta alvarlega ástand gæti verið mun víðtækara en kemur fram í þeim mælingum sem þegar liggja fyrir vegna þess að aðeins mjög fáir staðir og stuttar strandlengjur hafa verið mældar. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að staðsetja, eins og kemur fram í þessari þáltill., hvar þessir spennar eru, þ.e. hvar þeim hefur verið fargað, hvar þeir eru geymdir án þess að hafa verið grafnir og kanna ástand þeirra. Þegar það hefur verið kortlagt þarf að sjálfsögðu að vakta nákvæmlega þá staði þar sem slík förgun hefur átt sér stað.

Fyrir þjóð eins og Íslendinga er bráðnauðsynlegt að hafa vald á máli eins og þessu. Ímynd okkar er að veði, ímynd okkar sem matvælaþjóðar, ímynd okkar sem fiskveiðiþjóðar.

Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að Íslendingar hafa víða haldið því fram að fiskneysla auki greind manna. PCB virkar á fóstur og ungbörn þannig að athyglisgáfa þeirra og greind skerðist verulega þannig að neysla, þó ekki sé nema að litlu magni, á jafnvel svartfuglum eða öðrum fuglum sem við þekkjum að eru mengaðir á Íslandi gæti hugsanlega skaðað ungmenni án þess að það hafi verið rannsakað sérstaklega. Þess vegna vil ég, herra forseti, leggja ríka áherslu á að þetta mál fái hraða afgreiðslu í gegnum þingið og nefnd þingsins þannig að þessi rannsókn verði þegar í stað sett af stað. Kanadamenn sem eru til fyrirmyndar að þessu leyti hafa þegar í sínu stóra landi skráð alla þá staði þar sem PCB-mengun er að finna eða þar sem PCB hefur verið urðað eða geymt og þeir staðir eru allir vaktaðir nákvæmlega þannig að það er vitað hvenær hætta steðjar að og hvenær þarf að grípa inn í. Þar er ekki verið að spara peningana heldur verið að hugsa um orðstír landsins. Orðstír okkar Íslendinga að þessu leyti er svo mikilvægur að þar má ekkert til spara og þess vegna ítreka ég, herra forseti, að það að ljúka þessu máli sem fyrst er þjóðarnauðsyn sem og aðrar rannsóknir hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, er einnig líkt mál sem þarf að fylgjast að.