Argos-staðsetningartæki til leitar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:22:25 (5731)

1998-04-22 19:22:25# 122. lþ. 110.11 fundur 550. mál: #A Argos-staðsetningartæki til leitar# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ísólfur Gylfi leggur til fyrir hönd Ólafs Arnar Haraldssonar sem er einnig hv. þm. Framsfl. að ríkisstjórnin finni leiðir til þess að auka og auðvelda notkun Argos-staðsetningartækja. Nú má í fljótu bragði velta því upp hvort það er rétt að ríkisstjórnin standi fyrir slíku? Er það rétt, hv. þm.? Má færa rök að því? Ég held reyndar að það megi færa rök að því. Þau eru einföld, þau eru eftirfarandi:

Það er yfirleitt skattborgarinn og fulltrúi hans, þ.e. ríkisvaldið, sem lendir í því að þurfa að fara upp um hálendi landsins til þess að bjarga fólki í nauð sem einhverra hluta vegna hefur ekki fundið fótum sínum forráð, hefur týnst eða lent í einhvers konar óhöppum. Þar af leiðandi er það skattborgarinn og ríkisstjórnin sem ber kostnaðinn af því. Ríkisstjórninni ber þess vegna í þessu máli eins og öðrum að leita leiða til þess að draga úr þeim kostnaði sem af þessu hlýst. Hv. þm. færir m.a. fram þá staðreynd í máli sínu að kostnaðurinn af rekstri þessa kerfis nemi sem svarar einu útkalli hjá stóru þyrlu Landhelgisgæslunnar. Það finnast mér í sjálfu sér vera nægileg rök.

Önnur rök höfum við einnig séð á þessum vetri í fregnum fjölmiðla, sér í lagi af mjög glannalegu flani fjölmargra útlendinga sem hafa í miðju vetrarríki Íslands lagt í glæfraferðir yfir hálendi Íslands. Hver og ein einasta á þessum vetri hefur endað í ófærum. Ég held að enginn af þeim fjórum leiðöngrum, sem ég man eftir sem lagt hafa af stað yfir hálendið, allt saman verið útlendingar frá einum og upp í sex, hafi komist til byggða af eigin ramleik. Það hefur þurft að sækja hvern og einn einasta. Sumir hafa meira að segja lent í pusi og verið kalnir og beygðir á hjarta þegar þeir loksins hafa komist til byggða fyrir tilstilli vaskra Íslendinga. Öllum þessum mönnum hefði e.t.v. verið hægt að bjarga með minni tilkostnaði, verið hægt að gera það án þess að kalla út fjölmargar sveitir eins og í sumum tilvikum var gert. Þess vegna held ég, herra forseti, að ein þeirra leiða sem hægt væri að fara til þess að auka notkun þessara ódýru staðsetningartækja og spara þannig fé fyrir skattborgarann væri einfaldlega að skylda með lögum alla útlendinga til þess að hafa þetta tæki með sér sem fara í svona glæfraferðir, a.m.k. á tilteknum tíma ársins. Ég spyr hv. þm.: Hvað finnst honum um þessa ágætu tillögu Alþfl. í málinu?