Rekstur björgunarsveita í landinu

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:28:27 (5734)

1998-04-22 19:28:27# 122. lþ. 110.12 fundur 551. mál: #A rekstur björgunarsveita í landinu# þál., ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:28]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um rekstur björgunarsveita í landinu. Flutningsmaður þessa máls er Ólafur Örn Haraldsson. Í fjarveru hans flyt ég þetta mál. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að setja á fót nefnd með það að markmiði að létta rekstur björgunarsveita í landinu og bæta starfsaðstöðu þeirra. Nefndin skoði tekjumöguleika sveitanna og rekstrarkostnað þeirra og þá sérstaklega gjöld og álögur sem þær greiða til opinberra aðila. Enn fremur leggi nefndin fram tillögur um hvernig tryggja megi framtíðarstöðu björgunarsveitanna.``

Í stuttu máli fjallar þáltill. hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar um framtíðarstöðu björgunarsveitanna í landinu, rekstur þeirra og tekjumöguleika.

Starf björgunarsveitanna er eins og þingheimi er kunnugt ómetanlegt og björgunarsveitirnir leggja oft og tíðum allt að veði og það er í raun og veru einstök hefð fyrir starfi björgunarsveita á Íslandi. Víðast erlendis bera opinberir aðilar kostnað af starfi björgunarsveita og þá hafa björgunarsveitir gjarnan á að skipa atvinnumönnum og gjarnan eru það einnig herlið þar sem herir eru sem vinna svipuð verk og björgunarsveitirnar gera hér á landi.

Störf björgunarsveitanna birtast okkur í mörgum mismunandi myndum. Þær koma til hjálpar í smæstu og stærstu málum. Það má vart hvessa hressilega á Íslandi þegar björgunarsveitirnar eru kallaðar til, óveður, snjókoma og þess háttar. Ef menn týnast þá köllum við til björgunarsveitir og öllum er í fersku minni starf björgunarsveitanna þegar snjóflóðin dundu yfir á Vestfjörðum um miðbik þessa áratugar.

Gríðarlegt sjálfboðaliðastarf á sér stað í björgunarsveitunum og starf þeirra er mjög metnaðarfullt og unnið af áhugamennsku. Björgunarsveitirnar leggja fram liðsinni sitt af fúsum og frjálsum vilja og án þess að ætlast til endurgreiðslu en það er í raun samfélagsleg skylda okkar að skapa björgunarsveitunum í landinu rekstrar- og starfsumhverfi þannig að fólk fáist áfram til þess að starfa í björgunarsveitunum. Ungmennastarf björgunarsveitanna er í raun mjög merkilegt þar sem verið er að þjálfa ungt fólk í þessum efnum og okkur ber skylda til þess að skapa efnahagslegar forsendur fyrir starfi björgunarsveitanna í landinu. Því er brýnt að mál þetta fái skjóta framgöngu.