Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:43:05 (5738)

1998-04-22 19:43:05# 122. lþ. 110.14 fundur 565. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, frádráttarliðir o.fl.) frv., 563. mál: #A barnabætur# frv., 564. mál: #A húsnæðisbætur# þál., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:43]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum til laga og einni till. til þál. sem ég flyt ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. Um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum sem birtist á þskj. 957.

Þá mæli ég fyrir frv. til laga um barnabætur sem er á þskj. 955.

Loks mæli ég fyrir till. til þál. um húsnæðisbætur sem er að finna á þskj. 956.

Öll eru þessi mál tengd því að gera skattkerfið einfaldara og taka út alla þætti úr skattalögum sem eru félagslegs eðlis og eiga betur heima í sérstökum lögum. Lög um skatta og tekjur fólks og fyrirtækja verði eingöngu notuð sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð og þar með velferðarkerfið.

Herra forseti. Efni frumvarpsins er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er hlutfall tekjuskatts lækkað úr 26,41% í 8,38% á tekjuárunum 2000--2006 þannig að staðgreiðsla verður í lok tímans um 19,99% af launum í stað 38,02%. Hlutfall útsvars verður áfram breytilegt en það er núna 11,61% í staðgreiðslu. Hins vegar eru flutt úr skattalögum öll félagsleg atriði, sem verða óþörf eða eiga betur heima í öðrum lögum. Nær allir afsláttar- og frádráttarliðir eru felldir niður. Skattkerfið verður mikið einfaldara.

Samhliða frumvarpi þessu er flutt frumvarp til laga um barnabætur sem tryggir óbreyttar barnabætur frá því sem nú er og tillaga til þingsályktunar um húsnæðisbætur í stað húsaleigubóta, félagslega húsnæðiskerfins og vaxtabóta, sem verja munu hag tekjulágs fólks. Frumvarpið lýtur eingöngu að breytingum á tekjuskatti einstaklinga en snertir ekki skattlagningu lögaðila.

[19:45]

Herra forseti. Meginmarkmið frumvarpsins er að einfalda tekjuskattskerfið stórlega með því flytja úr skattalögum alla þætti sem varða félagslega eða tryggingalega hjálp. Þetta á við um persónuafslátt, barnabætur, sjómannaafslátt, vaxtabætur og skattfrelsi dagpeninga og bifreiðastyrkja. Þessir þættir eru fluttir í sérstök lög eða felldir niður þar sem þörfin verður ekki fyrir hendi ef þetta frumvarp verður samþykkt. Þannig verður skattkerfið einfalt, altækt og án undantekninga.

Markmið frumvarpsins er að auka meðvitund borgarans um og ábyrgð hans á velferðarkerfinu með því að láta alla sem hafa tekjur taka þátt í að greiða það. Núna greiðir aðeins helmingur framteljenda tekjuskatt og einungis þriðjungur framteljenda greiðir meira til ríkisins en hann fær í bætur. Sá hluti heldur í reynd uppi velferðarkerfi ríkisins.

Þá er það markmið frumvarpsins að atorka og frumkvæði einstaklinga stækki þjóðarkökuna þannig að meira verði til skiptanna fyrir alla þegna þjóðfélagsins. Flatur tekjuskattur mun hvetja fólk til menntunar, athafna og dugnaðar. Frumvarpið miðar að því að auka heildarhag landsmanna með því að auka ráðstöfunartekjur allra frekar en að jafna tekjur þeirra sem hefur tekist misjafnlega.

Eðlilegt þykir að fólk taki þátt í kostnaði við velferðakerfið í samræmi við getu, þ.e. tekjur og eignir. Hins vegar má spyrja hvort ekki sé nóg að sá sem hafi tvöfaldar tekjur greiði tvöfalt til velferðarkerfisins sem allir njóta þó að jöfnu í stórum dráttum. Frumvarpið tekur mið af þessu.

Einfaldara skattkerfi mun auðvelda almenningi vinnu við framtal, allt eftirlit verður einfaldara. Hvati til skattsvika minnkar vegna lægri skattbyrði og barátta gegn þeim verður léttari.

Á þeim sjö árum sem breytingin á að taka verður raunhæft að reikna með að forsendur séu fyrir því að hækka lægstu laun umtalsvert vegna þess að hagur fólks með hærri tekjur batnar töluvert og vegna skattalækkunarinnar, sem verður tæp 3% á ári, þarf það ekki launahækkun.

Þannig eykst möguleiki fyrirtækja til þess að taka raunverulega á því sem menn hafa lengi glímt við, að hækka lægstu laun. Það hefur ekki tekist hingað til vegna þess hve háu launin eru mikið sköttuð.

Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp til laga um barnabætur sem tryggir óbreyttar barnabætur en þær kosta um 1,46% hærri tekjuskatt. Þá er flutt tillaga til þingsályktunar um húsnæðisbætur sem komi í stað óskaplega flókins og óréttláts kerfis húsaleigubóta, félagslegra íbúða og vaxtabóta. Markmið bótanna er að styrkja einungis þá sem eru hjálpar þurfi og að sá sem greiðir styrkinn sé aldrei verr settur fjárhagslega en sá sem styrktur er. Það má svo huga að því í framhaldinu hvort barnabætur og húsnæðisbætur eigi ekki að vera verkefni sveitarfélaga og þar með mætti huga að því að fella tekjuskatt alveg niður, þ.e. tekjuskatt til ríkisins.

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur tillaga frá ríkisstjórninni um miklar breytingar á félagslega húsnæðiskerfinu. Þær hugmyndir sem hér eru reifaðar bæta það kerfi stórlega. Í hugmyndum ríkisstjórnarinnar er horfið frá því að nota vaxtaniðurgreiðslu til að laga stöðu þeirra sem minnst mega sín. Í stað þess fái fólk bætur í formi vaxtabóta og húsaleigubóta. Hvort kerfið um sig, bæði vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið, er mjög gallað og allt að því andfélagslegt, sérstaklega gagnvart lágtekjufólki með mörg börn.

Herra forseti. Á töflu á síðu 8 í grg. með frv. um skattalagabreytinguna er því lýst hvernig breytingin á sér stað, hvernig skattprósentan lækkar, hvernig staðgreiðslan lækkar, hvernig sérstakur tekjuskattur, hátekjuskatturinn svonefndi, lækkar, og hvernig persónuafsláttur lækkar á hverju ári, sömuleiðis hvernig frítekjumark lækkar, sem er afleiðing af hinum þáttunum. Eins er gert ráð fyrir því að sjómannaafsláttur falli niður á þremur árum og að vaxtabæturnar verði látnar falla niður á þessum sjö árum, um 1/7 á hverju ári.

Ég ætla, herra forseti, að fjalla um núverandi löggjöf og áhrif breytingarinnar. Útsvar í dag er aðeins eitt skattþrep. Það eru að meðaltali 11,61% á allar tekjur framteljenda. Þeir sem eru undir frítekjumarki borga ekki útsvarið sjálfir heldur greiðir ríkissjóður útsvarið fyrir þá. Þannig má segja að í reynd sé mínus 11,61% tekjuskattur upp að frítekjumarkinu a.m.k. Auk þessa greiðir ríkissjóður eignarskatta og sitthvað fleira fyrir skattgreiðendur sem eru undir frítekjumarkinu.

Ef maður tekur það inn í dæmið að lífeyrissjóðsiðgjöld eru skattfrjáls, sem þau munu verða áfram, þá mun skattprósentan, þ.e. staðgreiðslan, í reynd verða 19,20% af launatekjum þegar þessar breytingar eru allar komnar í gegn.

Meginmarkmið núverandi skattkerfis er tekjujöfnun en ekki tekjuöflun til ríkissjóðs og þar með til velferðarkerfisins. Meginorka skattkerfisins virðist fara í að jafna tekjur en ekki í að afla tekna til velferðarkerfisins. Þetta er í andstöðu við almenn markmið skatta sem er tekjuöflun. Slík tekjujöfnun er ákaflega dýr og hefur óæskilegar afleiðingar. Því er gert ráð fyrir því að þegar horfið verður frá þessu tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins og eingöngu horft á tekjuöflunina muni veltan í þjóðfélaginu, skattstofninn, þ.e. tekjur fólks, stóraukast. Fólk verður viljugra til að vinna og ríkissjóður mundi fá meiri tekjur. Þeir sem lægstar tekjurnar hafa munu jafnvel koma betur út úr því en í dag vegna þess að það kostar svo mikið að jafna tekjurnar niður að allir verða í raun jafnfátækir.

Einn stærsti þátturinn í núverandi skattkerfi er persónuafslátturinn. Hann er styrkur til þeirra sem hafa lágar tekjur og er notaður til að leysa þá undan því að greiða til velferðarkerfisins. Þeir borga ekki neitt. Hann er jafnframt notaður til að greiða fjármagnstekjuskatt, eignarskatt og útsvar fyrir þá sem eru undir þeim mörkum. Ef persónuafslátturinn verður felldur niður, eins og hér er gert ráð fyrir, þá mun það verða hvað þungbærast fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þeir sem eru á mörkunum, frítekjumörkunum, sem eru með u.þ.b. 62 þúsund kr. á mánuði núna, munu þurfa að borga 20% af þeim tekjum í skatt. Þar sem þetta er gert á sex árum, þá þarf ekki að hækka tekjur þeirra umfram aðra nema um 2--3% á ári til þess að ná hinni auknu skattgreiðslu.

Barnabætur eru ætlaðar til að jafna kjör þess fólks sem elur upp börn gagnvart því fólki sem ekki elur upp börn. Það hefur ekki tekist eftir að barnabæturnar voru tekjutengdar því að fólk með háar tekjur fær ekki barnabætur. Munurinn á milli þeirra og hinna sem hafa jafnháar tekjur en eru ekki með börn er ekki jafnaður. Í reynd eru núverandi barnabætur ómegðarbætur en ekki barnabætur.

Í frv. er gert ráð fyrir því að sjómannaafslátturinn falli niður enda munu sjómenn njóta lækkandi skattprósentu þannig að velflestir sjómenn munu koma betur út úr nýju kerfi en með því að njóta sjómannaafsláttar. Sjómannaafslátturinn er ákveðin niðurlæging fyrir sjómenn, líkt og sagt sé við þá að þeir eigi ekki að taka þátt í velferðarkerfinu eins og aðrir með svipaðar tekjur. Og ég geri ráð fyrir því að sjómenn muni fagna þeirri breytingu að greiða skatta eins og annað fólk.

Herra forseti. Þá kem ég að vaxtabótunum og þeim bótum í núverandi skattkerfi sem snúa að húsnæðismálum. Það er svo merkilegt að í tekjuskattslögum er heilmikið um húsnæðismál, nákvæmlega eins og hjálp til barnmargs fólks.

Vaxtabæturnar eru hugsaðar sem styrkur til þeirra sem eru að koma yfir sig þaki. En það er þó varla hægt að telja þær félagslegar því að hátekjufólk getur fengið og fær vaxtabætur. Það er t.d. ekki ómögulegt að hjón með 600 þús. kr. mánaðartekjur geti fengið tæpar 20 þúsund í vaxtabætur á mánuði. Ég reikna ekki með því að nokkur maður telji félagslegt að fólk með svo háar tekjur fái bætur úr ríkissjóði.

Þeir sem aftur á móti eru með lágar tekjur hafa ekki efni á því að kaupa sér íbúð og geta þar af leiðandi ekki notið þessara bóta. Ég fullyrði því, herra forseti, að þessar bætur eru andfélagslegar. Þær eru ekki félagslegar þannig að þeim veikasta sé hjálpað. Nú er meginhluta þjóðarinnar hjálpað til að koma sér upp húsnæði enda njóta um 50 þúsund framteljendur vaxtabóta. Drjúgur hluti þjóðarinnar fær bætur úr ríkissjóði. Ég tel að þetta sé hreinlega of dýrt. Það er of dýrt að taka peningana úr öðrum vasanum og setja í hinn.

Til þess að mæta því að vaxtabætur eru felldar niður hef ég lagt fram till. til þál. um húsnæðisbætur sem eiga að koma í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Hún er eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að útfæra nýja hugmynd um húsnæðisbætur sem komi í stað núverandi húsaleigu- og vaxtabóta. Félagsmálaráðherra skipi, að höfðu samráði við fjármálaráðherra, nefnd sem kanni málið og leggi fram mótaðar tillögur að nýju húsnæðisbótakerfi í formi lagafrumvarps.

Nefndin leggi störfum sínum til grundvallar eftirfarandi meginmarkmið:

a. Hver fjölskylda eða einstaklingar sem búa í sömu íbúð fái húsnæðisbætur sem eru háðar fjölda þeirra sem búa í íbúðinni.

b. Húsnæðisbæturnar skerðist í hlutfalli við samanlagðar tekjur og eignir allra þeirra sem í íbúðinni búa.

c. Húsnæðisbæturnar séu skilyrtar því að þær renni til greiðslu leigu, fasteignagjalda eða afborgana af lánum af íbúðinni.

d. Að húsnæðisbæturnar verði tekjuskattsfrjálsar.`` Einn aðalljóðurinn á núverandi húsaleigubótum er að þær eru skattskyldar.

,,Nefndin ljúki störfum fyrir 1. nóvember 1998 og félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp til laga um húsnæðisbætur á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar eigi síðar en 1. desember 1998.``

Með tillögunni um húsnæðisbætur er gert ráð fyrir að búið verði til húsnæðisbótakerfi sem er einfalt, almennt, réttlátt og bæti stöðu stórra fjölskyldna frá því sem nú er. Það tryggi einungis þá sem eru aðstoðar þurfi og það styður auk þess séreignarstefnuna. Það styrkir fólk til þess að eignast sína eigin íbúð.

Núverandi kerfi gengur út frá ákaflega gamaldags hugmyndum um fjölskyldu en í þessum hugmyndum er gert ráð fyrir því að hvers konar fjölskyldur geti notið húsnæðisbóta. Það væri ekki aðeins hin hefðbundna fjölskylda sem er hjón og börn, einstætt foreldri með börn eða barn, heldur einnig hjón sem búa ein með einstæðum foreldrum sínum, systkini sem halda saman heimili og foreldrar sem búa hjá uppkomnum börnum sínum. Alls konar fjölskyldur koma inn í málið og geta notið húsnæðisbóta.

Herra forseti. Núverandi kerfi er ákaflega flókið og margbrotið. Það er byggt á fjórum þáttum. Í fyrsta lagi húsbréfakerfinu, þá koma vaxtabæturnar, svo eru það húsaleigubæturnar og félagslega húsnæðiskerfið, sem reyndar er gert ráð fyrir að verði nokkuð almennt með því frv. ríkisstjórnarinnar sem ég gat um áðan.

[20:00]

Af þessum þáttum eru vaxtabæturnar sennilega þær sem eru félagslega ranglátastar, eins og ég gat um áðan, og þær hvetja til skuldasöfnunar. Það er nánast sama fyrir einstakling sem er með ákveðnar tekjur hvort hann skuldi milljóninni meira eða minna, hann borgar jafnmikið. Ríkið borgar mismuninn með vaxtabótunum. Þetta hvetur til skuldasöfnunar og menn ættu ekki að vera hissa á því þótt skuldir heimilanna hafi stóraukist á undangengnum árum eftir að þessar bætur voru teknar upp.

Húsaleigubæturnar sem Alþingi er nýverið búið að samþykkja eru líka félagslega mjög óréttlátar. Bæturnar byrja að skerðast við 125 þús. kr. tekjur á mánuði burt séð frá því hvort einn einstaklingur eða sex manna fjölskylda þurfi að lifa af þessum 125 þús. kr. og skerðingin er nákvæmlega sú sama, sem sagt 24% af tekjum. Þetta er með mestu skerðingu sem til er og þetta er ákaflega óréttlátt kerfi vegna þess að húsnæðisbætur sex manna fjölskyldu byrja að skerðast þegar hún er komin með tekjur yfir 125 þús. kr. sem er náttúrlega allt of lítið til að hún geti lifað. Hins vegar skerðast húsnæðisbætur einstaklings líka við 125 þús. kr. sem að mínu mati er mjög ríflegt fyrir einstakling til að lifa af og alls ekki þörf á að styrkja einstakling sem þarf að lifa af 125 þús. kr. á mánuði.

Félagslega húsnæðiskerfið er óskaplega flókið og þar eru alls konar kvaðir á eignarhaldi eins og margoft hefur verið nefnt og nú er meiningin að einfalda það töluvert mikið með frv. ríkisstjórnarinnar en þá á að hverfa yfir til vaxtabótakerfisins og húsaleigubótakerfisins sem, eins og ég gat um áðan, eru ákaflega óréttlát. Nýja kerfið yrði þannig og það eru lagðar fram hugmyndir um það að t.d. fjögurra manna fjölskylda fengi 21 þús. kr. og þær skerðast um 10% af öllum tekjum sem fjölskyldan hefur byrjað frá núlli þannig að þegar þessi fjögurra manna fjölskylda er komin með 210 þús. kr. á mánuði falla bæturnar niður.

Hins vegar fengi sjö manna fjölskylda 30 þús. kr. á mánuði og þær bætur féllu niður þegar fjölskyldan er komin með 300 þús. kr. á mánuði. Þetta er hugmynd að því hvernig mætti hanna kerfi sem að mati flm. er miklu réttlátara en sá óskapnaður sem er í gangi í dag sem vaxtabætur og húsaleigubætur.

Herra forseti. Þá er gert ráð fyrir því í frv. um breytingu á tekjuskattslögunum að dagpeningar og bifreiðastyrkir verði skattlagðir eins og annar kostnaður hjá fyrirtækjum og hætt sé að hafa þetta sem einhvers konar skattfrjálsa sporslu sem hefur verið misnotað nokkuð því það er óskaplega mikil aukning í skattfrjálsum dagpeningum undanfarin ár sem í reynd eru að einhverju leyti ígildi tekna.

Með þessu frv. er lagt til að jaðarskattar verði minnkaðir verulega og komið er í veg fyrir fátæktargildrur sem eru þess eðlis að fólk sem er með lágar tekjur getur ekki bætt stöðu sína. Það hreinlega getur það ekki. Þótt það vilji t.d. endurmenntast, vilji sækja um betri stöðu og vilji t.d. vinna meira eða afla sér meiri reynslu eða einhvers slíks, þá dugar það ekki til. Það kemst ekki upp úr þessari fátæktargildru vegna þess að jaðarskattarnir, þ.e. í fyrsta lagi skattarnir og svo allar bæturnar sem það missir vegna aukinna tekna, eru svo háir að það fær ekkert af þeim ávinningi sem auknar tekjur gefa því. Við erum raunverulega að tala um fátæktargildrur sem eru í núverandi kerfi.

Herra forseti. Gallar núverandi kerfis eru þeir að það er flókið kerfi og flókið kerfi verður alltaf óréttlátt. Ef skattkerfið er haft mjög réttlátt og látið taka tillit til margra ólíkra aðstæðna verður það mjög flókið og flókið skattkerfi krefst aftur sérþekkingar sem kostar sitt, endurskoðenda og því um líkt og það er ekki á færi þeirra sem minnst mega sín. Þannig verður kerfið óréttlátt. Sérhver tilraun til að gera skattkerfi óskaplega réttlátt og takandi tillit til allra þátta er því um leið óréttlát leið.

Flókið skattkerfi kallar á mikið skatteftirlit og erfitt framtal og það gefur svigrúm til alls konar mismunandi túlkana sem leiða til ágreinings og svo leiðir flókið skattkerfi til undanskota og lakara siðferðis því í skjóli flókins skattkerfis er auðveldara að svíkja undan skatti en ef skattkerfið er mjög einfalt. Þetta geta skattrannsóknarstjórar staðfest.

Þegar skattar eru eins háir og í dag gengur það jafnvel svo langt í siðferði að fólk fer að tala um það sín á milli að skattsvik séu ekki eiginleg lögbrot, t.d. virðisaukaskattsvik, og þau séu jafnvel stunduð í sjálfsvörn þar sem skattgreiðandinn er að verja sig fyrir ríkisvaldinu. Svona hugsun má ekki koma upp. Hún grefur undan siðferðisvitund þjóðarinnar og eykur þar með líkurnar á því að fólk fari einnig að brjóta önnur lög. Þess vegna er mjög brýnt að berjast af alefli gegn skattsvikum en einmitt til að koma í veg fyrir skattsvik þarf kerfið að vera mjög einfalt og skattprósentan má ekki vera of há þannig að fólk geti greitt skattana.

Í núverandi kerfi er það þannig að dugnaður, framtak og menntun er skattlagt alveg sérstaklega. Það fólk sem eykur tekjur sínar með dugnaði, framtaki og menntun borgar tekjuskatt og missir bætur í slíkum mæli að þetta hreinlega borgar sig ekki og það getur margur menntamaðurinn staðfest.

Þessi áhrif skattkerfisins er ógnvænleg því þjóðfélagið þarf svo mjög á duglegu og framtakssömu fólki að halda. Það er skaði ef þjóðfélagið verðlaunar leti og leggst í doða vegna rangrar stefnu í skattamálum. Hver stendur þá undir velferðarkerfinu? Velferðarkerfið á að gefa öllum þegnum þjóðfélagsins öryggistilfinningu þannig að þeir þurfi ekki að óttast persónuleg áföll en það á ekki að styrkja fólk sem getur staðið á eigin fótum.

Herra forseti. Eins og ég hef getið um er bótakerfið mjög gallað í dag. Menn hanna oft bætur horfandi aðeins á einn þátt bótanna. Sem dæmi má nefna að LÍN, Lánasjóður íslenskra námsmanna, lánar einstæðu foreldri 25 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn. Svo greiðir skattkerfið barnabætur sem eru um 14 til 17 þús. kr. á mánuði. Þá koma húsaleigubætur sem eru 4 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn. Mæðralaun eru 0 til 4 þús. kr. á mánuði og meðlag er um 12 þús. kr. á mánuði. Samtals eru þetta 55 til 61 þús. kr. á mánuði sem hið opinbera er að veita þessum námsmanni til ráðstöfunar vegna eins barns og auk þess fær námsmaðurinn ódýrara barnaheimilispláss. Það sér hver heilvita maður að þarna er um greinilega oftryggingu að ræða. Hins vegar erum við svo með vantryggingu þar sem einstaklingar með stopular tekjur sem búa í leiguherbergjum fá ekki húsaleigubætur eða félagslega þjónustu. Við erum því bæði með oftryggingu og vantryggingu. Hér er gert ráð fyrir að þetta verði samræmt og heilsteyptara bótakerfi tekið upp.

Herra forseti. Meginmarkmiðið á bak við launajöfnunarstefnu núverandi skattkerfis er að reyna að koma launamun niður. En nú er það svo að launamunur á sér oftast náttúrlegar skýringar, t.d. það þarf að greiða sérstaklega fyrir menntun. Þeir sem hafa langskólanám vilja fá greitt fyrir þá fjárfestingu sem þeir hafa farið í. Það þarf að borga fyrir ábyrgð annars mundi enginn standa í að taka á sig ábyrgð og ég á þá við raunverulega ábyrgð. Það þarf að borga fyrir dugnað og snilld og reynslu og fjarvistir og það þarf að borga fyrir mikla vinnu. Maður sem vinnur á næturnar og við erfiðar aðstæður þarf að fá borgað sérstaklega fyrir það annars fengist enginn til þess. Það er því í gangi ákveðin náttúrlegur launamunur og þegar menn reyna að skatta þann launamun burt með skattkerfinu eins og reynt hefur verið hingað til vex launamunurinn enn meira. Ef ætlast er til að einhver fari að vinna uppi á hálendinu í myrkri og kulda og við erfiðar aðstæður, fjarri heimili sínu þá verður að borga honum fyrir það. Sá maður er ekkert að horfa á það sem fer til ríkisins í formi skatta. Hann lítur eingöngu á það sem er í buddunni eftir að búið er að taka skattinn frá honum og ef reynt er að skatta það burt sem er í buddunni fer maðurinn ekkert upp á hálendið nema hann fái fyrir það enn þá meira í laun. Það má því rökstyðja að alls ekki sé hægt að skatta burt allan launamun og það sé í rauninni mjög veikt tæki að reyna að gera tilraun til að skatta burt launamuninn þótt það takist vissulega stundum.

En það að jafna launin kostar aftur á móti óhemju mikið. Það kostar mikla vinnu og háa skatta og kemur niður á framleiðni þjóðfélagsins. Það er því spurning hvort sá kostnaður sem felst í því að jafna launin væri ekki betur notaður til að hækka öll laun, líka þau lægstu, þannig að þeir sem hafa lægstu launin njóti stærri þjóðarköku þegar hætt er að gera tilraunir til að jafna launin.

Það trú þeirra sem flytja þessi frv. að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins geti á þeim sjö árum sem gert er ráð fyrir að breytingin taki yfir náð því fram sem alltaf hefur verið reynt, að hækka lægstu launin vegna þess að það þarf ekki hækka hæstu launin eins mikið. Ráðstöfunartekjur þeirra sem hafa hæstu launin hækka af sjálfu sér vegna lægri skatta og það svigrúm geta fyrirtæki notað til að bæta þeim upp sem eru með lægri laun auk þess sem fólk mun grípa tækifærið þegar það loksins getur farið að vinna og sjá einhvern afrakstur. Það mun leggja harðar að sér, bæði við menntun og eins við að afla sér betri reynslu og þekkingar og allt þjóðfélagið græðir á þessu.

Herra forseti. Þessi breyting hefur óneitanlega mikil áhrif á ýmsa hópa og þar er aðallega um að ræða fólk sem er rétt við skattleysismörkin eins og ég gat um áðan. Það fólk þarf allt í einu að borga skatta. Það hefur enga skatta greitt hingað til. Þá getur einhver sagt: ,,Flutningsmenn eru vondir við fólkið með lágu tekjurnar.`` En því svara ég til að lágar tekjur eru ekki persónueinkenni eins og dökkt hár eða blá augu. Það er nefnilega hægt að breyta tekjunum og það á að vera markmið fólksins sjálfs, verkalýðshreyfingarinnar og aðila vinnumarkaðarins að breyta tekjunum. Það eru skammarlega lág laun í gangi í dag í landinu en kannski er það vegna þess að skattkerfið hyglar svo mikið lágum launum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að öllum þessum málum verði vísað til hv. efh.- og viðskn. Ég tel þó eðlilegt að sú nefnd leiti álits hv. félmn. á þeim málum sem varða barnabætur og húsnæðisbætur.