Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:29:47 (5744)

1998-04-22 20:29:47# 122. lþ. 110.14 fundur 565. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, frádráttarliðir o.fl.) frv., 563. mál: #A barnabætur# frv., 564. mál: #A húsnæðisbætur# þál., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:29]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Þau þingmál sem við ræðum nú þrjú saman, flutt af þeim hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Vilhjálmi Egilssyni bera með sér að við gerð þeirra hefur verið lögð mikil vinna og ekki síst vinna í að athuga og fjalla efnislega um grundvallaratriði sem varða lífskjör fólks því að skattlagning á tekjur snertir beinlínis lífskjör þess, þau varða efnahagsleg áhrif launa, skatta og fjárhagslegra jöfnunaraðgerða. Ég vek á því athygli að ég nota ekki orðin ,,félagslegar jöfnunaraðgerðir`` því að mér er stórlega til efs að þær jöfnunaraðgerðir sem við höfum séu allar félagslegar og ég mun víkja að því síðar. Þessi atriði varða skattlagningu tekna, þ.e. heildartekna og að lokum beinlínis jöfnunaraðgerðirnar sjálfar.

[20:30]

Umfjöllun þeirra, og það hefur réttilega komið fram, er einkum undirbúin af hv. þm. Pétri H. Blöndal í samstarfi við ýmsa einstaklinga. Umfjöllun þeirra beinir athygli okkar að grundvallarspurningum um tengsl skattkerfis og fjárhagslegra jöfnunaraðgerða og ekki síst að því hvort rétt sé eða skynsamlegt að skattkerfið nái einnig til slíkra aðgerða og ekki síst svo stórtækra sem við viðhöfum.

Þar með erum við komin að þeirri niðurstöðu sem uppi er í skattkerfinu í dag, að það leggur háan skatt á þær tekjur sem eru skattskyldar, það dreifir út miklum fjármunum í jöfnunaraðgerðum, og þá birtist strax það sem við getum með réttu kallað galla þessa kerfis, sem er í fyrsta lagi að það er mjög flókið. Hver venjulegur einstaklingur hefur ekki burði eða aðstöðu til að sjá sjálfur um sín skattamál --- fyrir utan það að það er enn þá flóknara í framkvæmd og eftirliti. En þó eru öllu neikvæðust, herra forseti, þau áhrif sem það hefur greinilega á skattborgarana.

Af þeim áhrifum er í fyrsta lagi nauðsynlegt að benda aftur á jöfnunaraðgerðirnar miklu sem eru fjárhagslegar og ná til fjölda fólks og fjölskyldna sem við mundum ella frá mörgum sjónarmiðum telja að væru fjárhagslega sjálfbjarga, í fullkominni alvöru. Slík niðurstaða hvað þetta varðar dregur úr vilja þessara fjölskyldna og þeirra sem afla teknanna til að auka tekjuöflunina. Ekki síst dregur skattkerfið með hárri skattprósentu úr vilja hinna, sem eru komnir yfir þessi mörk, til að bæta við sig vinnuframlagi og auka þannig tekjur sínar. Vegna þess einfaldlega að þegar við lítum á heildina þá greiða þeir sívaxandi hluta í þá félagslegu þjónustu og jöfnunaraðgerðir sem ganga til annarra, langt umfram það sem þeir og þeirra fjölskyldur njóta úr félagslega kerfinu sem hér er við lýði.

Þessi sömu áhrif valda því að ríkur vilji er þekktur um allt land til undandráttar frá skatti og sífelldar ályktanir sem eiga sér góðar röksemdir um verulega umfangsmikla svarta starfsemi, sem einkum á sér stað á milli einstaklinga, herra forseti. Hægt er að rekja það að sú starfsemi fer ekki mikið á milli fyrirtækja sem búa við í raun annað skattkerfi þar sem félagslegar og fjárhagslegar jöfnunaraðgerðir eru ekki uppi. Svarta starfsemin á sér stað á milli einstaklinga og fjölskyldna sem búa við einmitt þetta skattkerfi sem hér er til umræðu.

Ekki síst er niðurstaðan af þessum áhrifum sú með hárri skattprósentu og háum jöfnunaraðgerðum, að það fyrirbrigði sem við köllum jaðaráhrif eða jaðarskatta er mun víðtækara en við höfum viljað fallast á, og sífellt er að því unnið á vegum ríkisstjórna, fjármálaráðherra og annarra að reyna að koma á leiðum til að draga úr þeim áhrifum, sem eru mjög neikvæð.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég tek fyllilega undir þau sjónarmið sem koma fram í máli hv. 1. flm. að þessum þingmálum þremur, að það væri mikill ávinningur, efnahagslegur og félagslegur ávinningur, að ná að draga úr þessum áhrifum skattkerfisins.

Ég verð hins vegar einnig að viðurkenna að mér er það mikið umhugsunarefni hvernig við slíkar hugmyndir og framkvæmd þeirra ætti að viðhafa skattlagningu á lægstu tekjurnar. Ég er nefnilega alls ekki viss um að þessar breytingar, án þess að á sama tíma færu fram frjálsar viðræður um kaup og kjör, leiði einar og sér til verulegra breytinga á launasamningum, einkanlega vegna þess að þeim samningum verður ekki breytt nema í frjálsum viðræðum. Skattkerfinu verður hins vegar ekki breytt nema með löggjöf frá Alþingi. En auðvitað gæti aðili eins og hæstv. ríkisstjórn komið að þeim þætti þeirra mála sem hér eru rakin.

Ég tel mikilvægt, herra forseti, að við veitum þessum málum athygli og leggjum okkur fram um að ræða þau efnislega og að veita því virðingu hvað þau taka á miklum grundvallaratriðum sem snerta allt þjóðfélagið, allar fjölskyldur sama hvar í landinu þær búa, sama við hvaða kjör þær starfa.

En hitt liggur enn þá eftir og það er niðurstaða mín af því sem ég hef sagt um áhrifin af skattkerfinu eins og það er í dag, og sem ég tel líklegt að hugmyndir af þessu tagi mundu breyta, að heildartekjur einstaklinga og fjölskyldna verða einungis auknar með því að þeir sjálfir eða fjölskyldurnar sjálfar hafi vilja til að auka tekjur sínar með því að auka vinnuframlag og auka störf.