Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 21:08:48 (5753)

1998-04-22 21:08:48# 122. lþ. 110.21 fundur 609. mál: #A markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[21:08]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir og fagna þessari tillögu sem hér er fram komin. Ég held að árangur í útflutningi á dilkakjöti sé ein helsta von sauðfjárræktarinnar. Ég held að ekki sé mjög raunhæft að ætla að innanlandsneyslan aukist frá því sem verið hefur og að mínu viti er helsta vonin sú að líta til útflutnings.

Það hefur komið fram í umræðunni hjá hv. þingmönnum að útflutningur dilkakjöts hefur átt sér stað í nokkrum mæli í samstarfi við sölufyrirtæki í sjávarútvegi og hefur verið vitnað til útflutnings Hornfirðinga til Belgíu. Ég átti þess kost að heimsækja fyrirtækið sem hefur keypt dilkakjötið til Belgíu fyrr í vetur og kom fram í máli þeirra aðila sem þar stunda þá sölu að gæði íslenska kjötsins eru ótvíræð og eru mun betri en á lambakjöti frá öðrum þjóðum. Það er auðvitað staðreynd sem við höfum vitað. Hins vegar er vandinn sá að fá fyrir þær afurðir það verð sem dugar til og það er kannski helsti vandinn í því efni.

Sú tillaga sem hér er komin fram og fjallar um að efla samstarf við sölufyrirtæki í sjávarútvegi til útflutnings á dilkakjöti er auðvitað mál sem er mjög mikilvægt. Við þekkjum það frá sögunni og reynslunni að þessi fyrirtæki hafa byggt sig mjög öflugt upp á erlendum mörkuðum og hafa stundað markaðsstarfsemi fyrir sjávarafurðir af miklum krafti og með mjög góðum árangri í gegnum tíðina. Það eru ekki lítil verðmæti fólgin í því fyrir okkur Íslendinga í þeim fyrirtækjum sem hafa byggt upp mikla reynslu, þekkingu og ekki síður sambönd út um allan heim. Ég tel að það sé einmitt það sem gæti vel nýst sauðfjárræktinni og við útflutning á dilkakjöti og að því eigum við auðvitað að vinna.

Ég hygg að fullur vilji sé fyrir því hjá þessum sölufyrirtækjum sjávarútvegsins að koma að þessu máli en að sjálfsögðu þarf að vinna að því á markvissan hátt.

Þessi tillaga er sem sagt fram komin og ég fagna henni. Ég hvet til þess að hún verði afgreidd og unnið eftir henni. Hins vegar er það svo með sauðfjárræktina að það er ekki nóg að flytja út og ná þokkalegu og góðu verði. Það er auðvitað mjög mikilvægt að ná fram aukinni hagræðingu og lækkun kostnaðar innan lands þannig að framleiðendurnir sjálfir, bændurnir, fái sem mest út úr því verði sem fyrir afurðirnar fæst.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar heldur ítreka það að ég fagna þessari tillögu og vonast til þess að hún nái fram að ganga og árangur verði af því sem hún fjallar um.