Afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:19:02 (5790)

1998-04-28 15:19:02# 122. lþ. 113.93 fundur 325#B afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna# (aths. um störf þingsins), SF
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:19]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Varðandi gagnagrunnsmálið er það rétt að við reyndum að fara mjög ítarlega yfir það á mjög skömmum tíma. Okkur varð hins vegar ljóst að við mundum ekki ná að ljúka því í gær og í dag. Því var tekin ákvörðun um að fresta málinu. Sú ákvörðun var tekin þannig að hæstv. heilbrrh. hafði m.a. samband við aðila í ríkisstjórn og heilbrn., þar á meðal formann heilbrn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Mér skilst að þeir sem við var talað hafi treyst sér til að taka á þessu máli í byrjun þings, þannig að því mætti ljúka í kringum 20. október. Einnig virtist formaður heilbrn. hafa treyst sér til að standa þannig að málum.

Mér heyrist hins vegar að einhver misskilningur hafi orðið, a.m.k. hjá fulltrúa Alþb. í heilbrn. Stefnan er sett á að taka málið út í kringum 20. október og að sjálfsögðu verður málið að koma til umræðu á fyrstu dögum þingsins. Ljóst er að talsvert þarf að vinna í málinu í sumar til að ná sátt um það. Að sjálfsögðu er ekki til þess ætlast að menn bindi sig fyrir fram hér í þinginu, því hvort það styðji mál eða ekki. Heilbr.- og trn. ætlar a.m.k. að stefna að því að vinna það kröftuglega í upphafi næsta þings að við náum að ljúka málinu kringum 20. október.